4.12.1998

Aðventuræða í Kaupmannahöfn

Aðventukvöld

Ég hef verið hér í Kaupmannahöfn í þessari viku til að sitja tvo norræna ráðherrafundi, fyrst menntamálaráðherra og síðan menningarmálaráðherra fyrr í dag. Hefur það gefið heimsókn minni aukið og sérstakt gildi að fá tækifæri til að taka þátt í hátíðarhöldum hinna mörgu Íslendinga, sem búa í Kaupmannahöfn og nágrenni á þessum dögum.

Síðastliðinn þriðjudag var mér boðið að ávarpa samkomu í tilefni af 1. desember á vegum Félags íslenskra stúdenta í Jónshúsi. Þá minntumst við þess, að 80 ár voru liðin síðan Íslendingar og Danir sömdu um fullveldi Íslands. Sókn Jóns Sigurðssonar og samherja hans í sjálfstæðisbaráttunni náði loks náð þeim árangri fyrir réttum 80 árum, árið 1918, að Íslendingar gengu til samkomulags um stöðu sína innan danska ríkisins og lögðu grunn að lokaskrefinu til fulls sjálfstæðis.

Þegar litið er yfir sögu samskipta okkar og Dana, sjá menn fljótt, að hún er góð fyrirmynd þeim, sem vilja leysa úr heitum stjórnmálalegum og þjóðernislegum deilum á málefnalegum forsendum og án þess að beita valdi. Eitt skýrasta dæmið um vinsemd Dana í garð okkar Íslendinga er frelsið, sem Jón Sigurðsson naut þegar hann háði sjálfstæðisbaráttuna óhultur héðan frá Kaupmannahöfn. Afhending handritanna er einnig einstæður viðburður í samskiptum þjóða.

Í kvöld komum við saman hér í St. Paul's kirkju við upphaf aðventu til að búa okkur undir jólin.

Aðventa, þetta orð er náskylt orðinu, ævintýri. Adventura á latínu þýðir það sem koma skal og hefur síðan fengið merkinguna ævintýri, því að í ævintýrum njóta menn margs, sem þeir vona að komi, en verður líklega aldrei.

Aðventa er á latínu adventus, en orðið lýsir komu eða fæðingu Krists í heiminn. Við kristnir menn vitum, að hann kom í heiminn á heilögum jólum fyrir tæpum 2000 árum, þannig að það ævintýri hefur þegar ræst. Kristinn boðskapur byggist einnig á því, að við megum vænta endurkomu Krists á hinum æðsta degi.

Raunar getum við hvenær sem er leitað til Jesú Krists og fundið traust og hald hjá honum með bænum okkar. Við þurfum ekki að bíða komu hans heldur vitum, að hann vakir yfir okkur á þessari stundu eins og endranær. Við getum heimsótt hann þegar við viljum og trúað honum fyrir öllum áhyggjum okkar og þjáningum. Hann benti okkur á liljur vallarins og fugla himinsins.

Þegar ég hugleiddi þessa kvöldstund með ykkur, rann upp fyrir mér sú staðreynd, að ég hef aldrei dvalist annars staðar en á Íslandi á jólum. Gildir líklega annað um flest ykkar. Þegar þið hugsið um jólin leitar hugurinn vafalaust heim til Íslands og fæðingarhátíð frelsarans tengist ljúfum minningum um heimabyggð, fjölskyldu og vini.

Öllum eru okkur jólaminningarnar og hefðirnar kærar.

Við Íslendingar vitum, að Grýla. Leppalúði og jólasveinarnir eru hluti jólanna og ekki má gleyma jólakettinum. Fjarri ættjörðinni kann oft að vera að erfitt að nálgast þetta ágæta jólafólk. Er það næsta fjarlægt í löndum, þar sem skammdegið lætur ekki eins mikið að sér kveða og heima á Íslandi, veðráttan er með öðrum hætti en í lægðakerfi Norður-Atlantshafsins og hellarnir í fjöllunum eru víðsfjarri.

Tæknin er þó að eyða fjarlægðum í þessu efni eins og á öllum öðrum sviðum. Fyrir síðustu jól var til dæmis fyrsta vefsíðan um vefsíðan um Grýlu og jólasveinana sett inn á Internetið.

Íslendingar eru meðal þeirra þjóða, sem helst hafa tileinkað sér netið og veraldarvefinn, sem á því er að finna. Nýjustu tölur um aðgang heimila að þessari nýju tækni sýna, að við höfum náð fyrsta sæti í alþjóðlegum samanburði, skotið Finnum, helstu keppinautum okkar ref fyrir rass.

Með jólavefnum vildi Salvör Gissurardóttir, höfundur hans, kynna rammíslenskt efni tengt jólunum. Hún vissi, að um heim allan eru tugþúsundir fólks af íslenskum ættum, sem hefur mikinn áhuga á séríslenskum siðum og Salvör sagði í viðtali við Morgunblaðið:

„Þetta fólk hefur líka heldur engin tök á að fara á bókasafnið eða út í búð og kaupa íslenska bók um efnið, það verður að reiða sig á veraldarvefinn fyrir tengsl við íslenska menningu.”

Hin nýja upplýsingatækni kemur vissulega aldrei í staðinn fyrir stundir sem þessar, þegar við komum saman og tökum sjálf þátt í hátíðinni, ræktum með okkur vináttu og finnum samkenndina. Tæknin auðveldar okkur hins vegar margt. Við höfum nú við fingurgómana á tölvuborðinu upplýsingar, sem annars væri ekki unnt að afla nema með mikilli fyrirhöfn og umstangi.

Hlýtur nýja tæknin að breyta miklu fyrir þá, sem búa fjarri ættjörð sinni en vilja samt halda tengslum við hana með því að vita um það helsta, sem þar er að gerast. Get ég ekki sem menntamálaráðherra látið hjá líða að geta þess, hve mikill drifkraftur þessi nýja tækni er í öllu því, sem við erum að gera í mennta- og menningarmálum. Íslenskir framhaldsskólar og háskólar bjóða nú nám á netinu, þar er að finna miklar upplýsingar um alla þætti íslenskrar menningar og allir helstu fjölmiðlarnir nota netið til að miðla fréttum. Íslendingar í Kaupmannahöfn geta jafnauðveldlega notið alls þessa og við, sem sitjum við tölvu og síma heima á Íslandi.

Er ævintýri líkast að taka þátt í að innleiða þessa nýju tækni í íslensku samfélagi. Hvarvetna verða menn að tileinka sér ný viðhorf og vinnubrögð.

Menntakerfið er að taka á sig alþjóðlegri mynd en nokkru sinni fyrr. Nú þurfa menn ekki lengur að fara til Kaupmannahafnar til að stunda nám við háskóla þar heldur geta sest við tölvuna heima hjá sér og fylgst með því, sem prófessorarnir eru að segja, það er ef skólarnir hafa tekið tæknina til fjarkennslu í þjónustu sína með sama hætti og til dæmis Samvinnuháskólinn í Bifröst, fámennasti háskóli okkar Íslendinga, en hann miðlar nú þekkingu úr Norðurárdalnum til allra, sem vilja tengjast honum í gegnum tölvuna sína.

Spurningin er ekki lengur um tæknina. Hún er fyrir hendi og öll höfum við tækifæri til að nýta hana. Spurningin er um það, hvernig við færum okkur þennan nýja miðil best í nyt, hvert og eitt. Netið er besta tækið sem Íslendingar hafa fengið til að eyða fjarlægðinni á milli sín og þeirra, sem eru fyrir austan þá og vestan við Norður-Atlantshafið. Netið er einnig einstakt tæki fyrir okkur Íslendinga til að sameinast um hinn þjóðlega menningararf, sem styrkir okkur til dáða, hvar sem við dveljumst eða búum.

Er ótrúlega mikið íslenskt efni komið inn á veraldarvefinn.

Á jólavefnum rifjar Salvör Gissurardóttir til dæmis upp, að flest íslensk börn kannast við Grýlu og syni hennar jólasveinana. Þau hafa spurnir af illsku hennar og einkennilegri matvendni og vita af henni á sveimi er skyggja tekur þar sem hún skimar og hlustar eftir keipóttum krökkum. Það er ekki laust við að þau furði sig á að jólasveinarnir, þessir glaðhlakkalegu hrekkjalómar sem slá um sig með gjöfum ofan í skó og undir tré séu synir svona ókindar.

Eins og jólasveinarnir hefur Grýla í farteski sínu stóran poka en ólíkt hafast þau að mæðginin: þeir gefa, Grýla tekur, þeir verðlauna, Grýla refsar. Reyndar hafa börnin spurnir af því að nú sé Grýla loksins dauð, hafi gefist upp á rólunum. En hversu vel má svo sem treysta því, þau grunar að jafn máttug óvættur og samansúrruð illska hvíli ekki í friði.

Grýla er ævagömul. Hún er nefnd meðal tröllkvenna í þulum Snorra Eddu. Grýlukvæði og þulur hafa verið varðveitt í margar aldir en hún var ekki bendluð neitt sérstaklega við jólin fyrr en í kvæði frá 17. öld.

Grýla er alls ekki litfríð og ljóshærð og létt undir brún, nei, hún er andstæða við fegurð og eftirsótt útlit allra tíma. Hún er grá og guggin, með klær og hófa, hornótt, kjaftstór og vígtennt. Öll eru skilningarvit hennar ofvaxin, hún hefur augu í hnakka og eyru út á öxlum, nefið er hlykkjótt og langt. Augun loga sem eldur og úr vitum hennar stendur helblá gufa. Hún er gömul og gengur við staf.

Þannig kynntist ég Grýlu og vafalaust margir, sem eru hér í kvöld. Nú er okkur hins vegar einnig sagt, að á allra síðustu árum hafi Grýla stundum birst sem fyrirmynd annarra kvenna, sterk kona og kvenskörungur sem hlynnir að smælingjum og rís gegn kúgurum. Þá hafi Grýla líka komið fram sem einmana öldruð kona, týnd í heimi sem ekki metur gömul gildi, heimi sem breytist svo hratt, að þar er engin kjölfesta.

Þjóðtrúin er kjölfesta, sem sameinar okkur Íslendinga, hvar sem við erum stödd. Grýlusögur eru hluti menningararfsins. Við túlkum þær hver með sínum hætti og getum litið á sögurnar, sem andstæðu fegurðarinnar í sjálfu jólaævintýrinu, sem rættist í jötunni í Betlehem. Grá og guggin með loga úr augum stendur Grýla gamla andspænis jólabarninu, sem kom saklaust í heiminn og axlaði síðan syndir okkar mannanna. Kringum Grýlu skoppa jólasveinar í skammdegismyrkri en á Betlehemsvöllum birtast himneskar hersveitir og hið veraldlega myrkur hörfar fyrir guðdómlegu ljósi.

Sú birta hvílir yfir flestum jólaminningunum. Hátíðin á einnig að minna okkur á að rétta þeim hjálparhönd, sem standa höllum fæti. Eftirvænting jólanna vex með hverjum degi á aðventu, hraðinn og umstangið má þó ekki verða til þess, að við gleymum skyldum hins kristna manns til að létta undir með þeim, sem eru hjálpar þurfi.

Ljósið, sem við kveikjum á aðventu og jólum, lýsir ekki aðeins skammdegið. Í því felst mikið fyrirheit. Þegar á móti blæs, sækjum við kristnir menn styrkinn í jólabirtuna og vissuna um, að ljósið sigrar myrkrið að lokum, hið góða sigrar hið illa. Við getum alltaf kveikt þetta ljós, notið birtu þess og leiðsagnar. Ævintýri jólanna rætist á hverju ári, séum við tilbúin að taka á móti boðskap þeirra. Aðventan á að auðvelda okkur það.

Ég þakka stundina með ykkur hér í kvöld. Megi gleði, birta og minningar jólanna fylla huga okkar og hjörtu. Ég óska ykkur velfarnaðar í lífi og starfi með blessun jólabarnsins.