26.6.1998

Kvöldverður SÍF - Lissabon

Lissabon 26. júní 1998

Kvöldverður SÍF

Í upphafi máls míns vil ég færa SÍF kærar þakkir fyrir þennan ánægjulega og glæsilega kvöldverð. Á morgun er þjóðardagur Íslands á EXPO ´98 og fer einkar vel á því að í kvöld skulum við fá tækifæri til að hitta helstu viðskiptavini SÍF hér í Portúgal. Hin gömlu og góðu viðskiptatengsl við Portúgali og áherslan á hafið á EXPO ´98 réðu mestu um ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um þátttöku í sýningunni.

Á morgun gefst okkur tækifæri til að sýna Portúgölum að okkur er fleira til lista lagt en framleiða góðan saltfisk. Hingað eru komnir 80 íslenskir listamenn til að kynna það sem við höfum að bjóða í leiklist, ballett og tónlist.

Okkur hefði aldrei tekist að skapa þessum ágætu listamönnum viðunandi starfsaðstæður á Íslandi nema vegna þess að við eigum ötula fiskseljendur og góða viðskiptavini. Þar eru Portúgalar í fremstu röð og í um það bil eina öld hafa saltfiskviðskipti verið milli landa okkar. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka þennan mikilvæga þátt Portúgala í þróun íslensks efnahags- og atvinnulífs.

Í morgun átti ég þess kost að ræða við José Mariano Gago, vísinda- og tækniráðherra Portúgals. Snérust viðræður okkar einkum um mikilvæga tillögu Portúgala um sérstaka Evrópustofnun til að sinna málefnum hafsins. Þar kom fram að hvarvetna er meiri áhersla á skynsamlega nýtingu auðlinda hafsins. Er ljóst að frá pólitískum og vísindalegum sjónarhóli eykst áhugi á hafinu á komandi árum. Fyrir Portúgali og Íslendinga skiptir mjög miklu að vel og faglega sé að öllum ákvörðunum staðið og ekki sé gengið á hlut smærri ríkja.

Ég ítreka þakkir mínar til SÍF. Hefur verið einstaklega gleðilegt að sjá hvernig þetta trausta fyrirtæki hefur brugðist við nýjum kröfum og breytingum á markaðinum. Um leið og áhersla er lögð á rækt við gamla og góða markaði, eins og hér í Portúgal, er hiklaust sótt inn á nýja í Kanada, Brasilíu, Frakklandi og jafnvel Noregi. SÍF er í fremstu röð saltfiskseljenda á heimsvísu og óska ég ykkur öllum enn frekari velgengni á komandi árum og nýrri öld.