21.3.1999

Trú og stjórnmál - Hallgrímskirkja

Trú og stjórnmál
Hallgrímskirkja 21. mars 1999

Á dögunum var ég á stjórnmálafundi, sem háskólastúdentar boðuðu. Við sátum þar fyrir svörum fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka, sem bjóða fram við komandi þingkosningar. Kona nokkur kynnti sig sem guðfræðinema og spurði okkur tvo ráðherra sem þarna vorum, hvað okkur þætti um kjör öryrkja, hvort okkur þætti þeir fá nægilega háar bætur úr ríkissjóði og hvort við teldum okkur geta lifað á 50 þúsund króna mánaðarlaunum. Við svöruðum á þann veg, sem stjórnmálamenn gera, þegar þeir sýna ábyrgð og vilja ekki lofa upp í ermina á sér en viðurkenna, að nauðsynlegt sé að gera betur.

Þegar við höfðum lokið við að skýra almenn sjónarmið okkar og geta þess meðal annars, að á þessu kjörtímabili hefðu bætur öryrkja tekið að hækka að nýju eftir lækkun síðustu tvö kjörtímabil, minnti guðfræðineminn mig á, að ég hefði ekki svarað spurningunni um það, hvort ég teldi mér fært að lifa á 50 þúsund króna mánaðarlaunum. Ég svaraði á þann veg, að það gæti ekki og bætti við, að ætlaði ég að gera það yrði ég að breyta um lífsstíl. Þóttist fyrirspyrjandi þá hafa himin höndum tekið og nokkrir í salnum klöppuðu. Ég bætti þá við, að mér þættu spurningar sem þessi einkennast af lýðskrumi. Auðvitað vissi fyrirspyrjandi svarið, þegar hann varpaði fram spurningu sinni, en það væri hins vegar gert í von um að geta kallað fram klapp á kostnað þess, sem yrði að svara.

Mér kom þetta atvik í hug, þegar ég settist niður til að undirbúa þessi orð um trú og stjórnmál. Fyrir okkur stjórnmálamenn er oft erfitt að hverfa af okkar daglega vettvangi og inn í annað umhverfi, þar sem eðlilegt er að skoða mál frá öðrum sjónarhóli en þeim, sem mótast af stjórnmálastefnum og átökum milli þeirra. Var mér kærkomið að þiggja boð sr. Sigurðar Pálssonar að fá að vera hér með ykkur á þessari morgunstund og jafnframt að komast ekki undan því í önnum dagsins að skilgreina fyrir sjálfum mér, hvernig ég lít á þetta stóra viðfangsefni, trú og stjórnmál. Er það von mín, að einhverjir hafi gagn af því að hlýða á þessa hugleiðingu.

Litla atvikið á fundinum í Háskólabíói á í sjálfu sér ekkert skylt við trú og stjórnmál heldur hitt, að í nafni kirkjunnar ganga prestar eða guðfræðinemar nú að okkur stjórnmálamönnum eins og við séum einhverjir andstæðingar þeirra, sem minna mega sín. Er þetta gert með ýmsu móti, úr predikunarstólnum eða undir merkjum Hjálparstofnunar kirkjunnar, svo að dæmi séu tekin. Á þessum sama stjórnmálafundi í háskólanum var til dæmis enn einu sinni tíundað, hvað hjálparstofnunin hefði aðstoðað marga í kringum jólahátíðina og það miskunnarstarf lagt út á þann veg, að þar sannaðist mannvonska ríkisstjórnarinnar eða skeytingarleysi hennar í garð þeirra, sem standa höllum fæti. Þá hafa samtök öryrkja notað orð biskupsins yfir Íslandi í auglýsingaherferð, sem hefur að markmiði að draga athygli að því, hve illa er búið að öryrkjum.

Annað atvik svipað því sem ég nefndi í upphafi rennur mér seint úr minni. Það gerðist, þegar ég var aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins og hafði ritað forystugrein í tilefni af einhverri samþykkt á vegum presta eða kirkjunnar um að nauðsynlegt væri fyrir kirkjuna að láta meira að sér kveða í þjóðmálaumræðunni. Í greininni var komist að þeirri niðurstöðu, að betur færi á því að kirkjan héldi sér að trúmálum en stjórnmálum. Sunnudaginn eftir að þessi forystugrein hafði birst fór ég í messu. Þar snerist predikunin að mestu um það hvílík fásinna hefði verið sett fram í þessari forystugrein Morgunblaðsins. Man ég ekki betur en presturinn hafi beint orðum sínum sérstaklega til mín, þegar hann lýsti mestu vandlætingu sinni á þessu uppátæki blaðsins. Varð lítið úr því að þessi kirkjulega athöfn yrði til að leiða huga minn frá hinu daglega amstri inn á æðri brautir trúarinnar. Gat ég þó huggað mig við, að ég fékk fyrirgefningu synda minna með því að ganga til altaris.

Eftir marga kirkjuferð hefur mér verið hugsað til þess, hvar prestar dragi mörkin á milli trúmála og stjórnmála. Hvort þeim sé ekki ljóst, að um leið og unnt er að draga þar skil á milli, sækja stjórnmálastefnur á Vesturlöndum kjarna sinn að verulegu leyti til boðskapar Krists. Hefur þetta skýrst enn frekar hin síðari ár, eins og nú skal nánar rakið.

Í stjórnmálum er tekist á um störf og stefnur. Gefin eru loforð, menn verða að standa reikningsskil gerða sinna og lúta dómi kjósenda. Markmið í stjórnmálum þurfa að vera skýr og einföld. Raunar er minna deilt um markmiðin heldur en leiðirnar að þeim. Stjórnmálamenn leggja það með sér í kosningum, sem þeir hafa gert, og bjóða fram krafta sína til að leysa mál á grundvelli stefnu sinnar. Sumir trúa á frelsi einstaklingsins og telja að svigrúm hans til orða og athafna eigi að vera sem mest. Aðrir leggja meiri áherslu á heildina og vilja, að ríkið hafi sem mesta hlutdeild í stóru og smáu.

Þýski prófessorinn Max Weber ritaði í upphafi þessarar aldar fræga ritgerð um siðfræði mótmælenda og kapítalismann eða auðhyggjuna. Hugmynd Webers er í stuttu máli sú, að uppruna þess hagkerfis, sem nú hefur sigrað í keppni sósíalisma og kapítalisma, megi að verulegu leyti rekja til siðgæðis og trúarhugmynda mótmælenda og þá sérstaklega þeirra, sem birtast í kenningum Kalvínstrúarmanna. Samkvæmt kenningu Kalvíns stendur hver maður aleinn frammi fyrir guði, Jesús dó fyrir hina útvöldu eina. Trúin veitir ekkert yfirnáttúrulegt samband við guð, eins og lúterskur syndari má jafnvel vænta. Í ritgerð um Weber kemst Siguður Líndal prófessor þannig að orði um þennan trúarboðskap: „Kalvínstrúarmaðurinn hefur engin úrræði til að bæta fyrir þær syndir, sem honum verður á að drýgja. Þetta felur í sér, að hann verður að þrautskipuleggja líf sitt í þjónustu guðs og hverfa umsvifalaust frá öllu fálmi og stefnuleysi, sem aðrar kirkjudeildir umbera með því að veita endurtekin tækifæri.” Fyrir Kalvinstrúarmann er syndsamlegt að velta fyrir sér, hvort hann sé meðal hinna útvöldu eða ekki. Aðeins eitt kemur honum að gagni: sleitulaust starf. Þetta er meinlætahyggjan, sem tengir saman siðfræði Kalvínstrúarinnar og kapitalismann.

Á þessari öld höfum við kynnst stjórnmálastefnum, sem hafa hafnað trúnni og jafnvel kennt hana við ópíum. Markmið kommúnista var að búa til „hinn nýja mann”, sem væri laus við allar yfirnáttúrlegar eða andlegar kenndir. Árið 1932 var fimm ára áætlun um guðleysi kynnt í Sovétríkjunum. Samkvæmt henni átti að eyðileggja allar kirkjur í landinu og skyldi því verki lokið á árinu 1936. Árið 1937 skyldi síðan sjálft orðið „guð” horfið úr tungumálinu, þar sem enginn hefði not fyrir það lengur.

Þessi áætlun gekk ekki eftir frekar en áform nasista um að uppræta kristnina í Þýskalandi. Þessar guðlausu helstefnur hafa hins vegar skilið eftir sig milljónir saklausra fórnarlamba. Rækilega hefur verið gert upp við nasismann og ódæðisverk hans. Engum, sem vill láta taka mark á sér, dettur í hug að taka málstað Hitlers eða afneita tilvist útrýmingarbúða hans. Dytti einhverjum í hug að gera það, yrði hann úthrópaður af almenningsálitinu. Hið sama verður ekki sagt um kommúnismann. Enn finnast þeir á Vesturlöndum og annars staðar, sem láta þá fráleitu skoðun í veðri vaka, að kommúnistum hafi aðeins mistekist að ná markmiði sínu, þeir hafi í raun verið bestu menn með göfug markmið.

Í upphafi ársins átti ég þess kost, að sitja fund evrópskra mennta- og menningarmanna, sem haldinn var að frumkvæði páfagarðs og fór fram í Vatíkaninu. Rætt var um Krist sem uppsprettu nýrrar menningar fyrir Evrópu. Fundinn sóttu kristnir menn úr mörgum kirkjudeildum og meðal annars Pólverjinn Zbigniew Nosowski, ritstjóri kaþólsks tímarits í landi sínu. Hann fjallaði um það, hvernig væri að starfa sem blaðamaður og ræða um stjórnmál frá kristnum sjónarhóli.

Taldi hann að kristnir blaðamenn beggja vegna járntjaldsins fyrrverandi í Evrópu yrðu að ræða andleg sár álfunnar, sem mætti rekja til hinna guðlausu einræðisstjórna í Þýskalandi nasismans og Sovétríkjunum. Sagðist hann viss um, að venjulegur vestrænn blaðamaður, sem læsi skilgreiningar sínar á ógnarstjórninni, teldi sig öfgafullann hægri andstæðing kommúnista, sem gæti ekki tekist á við fortíðina. Ekki mætti afgreiða málið á svo einfeldningslegan hátt vegna þess að hér væri um siðfræðilega afstöðu að ræða, sem skipti miklu fyrir evrópska menningu.

Kristnir blaðamenn ættu einkum að átta sig á eyðingarmætti alræðisstefna í því skyni að heiðra minningu hinna mörgu kristnu fórnarlamba þeirra.

Þá sagði hinn pólski ritstjóri, að kristinn blaðamaður boðaði ekki fagnaðarerindið eins og guðspjallamaður. Blaðamenn gætu aðeins ýtt undir eða vakið áhuga á kenningum Jesús. Þeir gætu ekki leitt menn til fundar við hann. Bæði boðendur fagnaðarerindisins og blaðamenn leituðust hins vegar við að finna ný orð til að boða gamlan sannleika og báðum þætti á stundum að þeir væru næsta gagnslausir þjónar.

Sagan af Páli postula þegar hann predikaði á Aresarhæð í Aþenu er oft nefnd, þegar menn velta fyrir sér, hvernig unnt er að kynna gömlum menningarheimi fagnaðarerindið eða ná eyrum fólks með nýjum hætti. Páll fór á hæðinni í Aþenu inn á þann vettvang, þar sem háð var harðasta keppni hugmynda á þessum tímum. Honum tókst ekki að ná til Aþenubúa í fyrstu atrennu en hann gafst ekki upp og flutti mál sitt í nýjum búningi til kynna guðspjöllin á þann hátt að Evrópubúar skildu þau. Hann hljóp ekki á eftir skoðunum annarra heldur nýtti sér hugmyndaheim áheyrenda sinna til að fá þá á sitt band.

Ég vitna í Postulasöguna, þar sem segir:

„Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum. Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans. En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: „Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?”

Aðrir sögðu: „Hann virðist boða ókennda guði,” - því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna. Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: „Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með? Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er.” En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.

Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: „Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn, því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: „Ókunnum guði”. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður. Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð. Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti. Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss. Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: „Því að vér erum líka hans ættar.” Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna. Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum, því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.”

Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: „Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.” Þannig skildi Páll við þá. En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.”

Í huga okkar er þessi boðskapur Páls postula sígildur. Í guði lifum, hrærumst og erum vér, sagði hann og urðu þetta áhrínisorð fyrir Evrópubúa. Álfa þeirra varð vagga kristninnar. Í Evrópu festi hún rætur, óx og blómstraði, setti æ meiri svip á allt mannlíf og stjórnendur álfunnar töldu vald sitt komið frá guði. Til boðskapar Krists og útbreiðslu hans fyrir tilstyrk Páls postula og annarra trúboða getum við rakið upphaf þeirrar menningar, sem einkennir líf okkar og stjórnarhætti. Styrkur hinna vestrænu þjóðfélaga byggist á hinni kristnu arfleifð.

Við Íslendingar ættum að hafa sérstakan skilning á gildi þess, að Páll postuli flutti boðskap sinn á Aresarhæð. Þingvellir og alþingi voru sambærilegur vettvangur í landi okkar, þar sem menn fluttu mál sitt og hlýddu á rök annarra. Þar var tekin stjórnmálaleg ákvörðun fyrir 1000 árum um að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka, þeir er áður voru óskírðir í landi voru, eins Þorgeir, lögsögumaður og Ljósvetningagoði orðaði það. Færði hann þau meginrök fyrir máli sínu, að yrðu lögin í sundur slitin gilti hið sama um friðinn. Í þessum orðum felst mikil stjórnviska.

Með kristnitökunni skipuðu Íslendingar sér í sveit kristinna þjóða, sem almennt eru kenndar við Vesturlönd. Landsmenn óskuðu friðar og góðra samskipta við erlendar þjóðir, þar sem kristin áhrif voru meira og minna ríkjandi.

Eftir að tvískipting veraldarinnar milli austurs og vesturs, kapítalisma og sósíalisma, er úr sögunni, spá margir því, að ný spenna myndist milli menningarheilda, þar sem trúarbrögðin ráði mestu. Í þeirri skiptingu mynda Vesturlönd eina kristna heild, fyrir austan okkur eru kristnir menn, sem eru í réttrúnaðarkirkjunni, síðan koma múslímar, þá búddistar, hindúar og alþýðutrú Kínverja auk þeirra, sem eru gyðingatrúar og síðan er mikill fjöldi manna trúlaus um heim allan.

Talið er, að um þessar mundir aðhyllist tæplega 30% mannkyns hina vestrænu kristni. Því er hins vegar spáð, að múslimar verði fjölmennari á komandi árum. Kristnum fjölgar einkum vegna kristniboðs. Múslímum vegna trúboðs og fæðinga. Kristnir urðu hlutfallslega flestir, rúmlega 30% á síðasta áratug, hlutfallið lækkar jafnt og þétt og er talið, að það verði um 25% af íbúum jarðar árið 2025, þá er líklegt að múslímar verði um 30%.

Nauðsynlegt er að hafa þessar tölur í huga, þegar rætt er um trú og stjórnmál, því að þær endurspegla þróun í heiminum, sem virðist óhjákvæmileg, þótt ávallt sé erfitt að geta sér til um framtíðina.

Samuel P. Huntington, prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, hefur ritað bók, sem hefur vakið marga til umhugsunar um stöðu heimsmála nú við aldahvörf, en hún heitir Árekstur menningarheilda og endurskipan heimsmála. Þar skilgreinir hann þróun mála eftir að Sovétríkin hurfu úr sögunni. Þegar þeir hittust fyrir skömmu Jóhannes Páll páfi II. og Khatamis Íransforseti var það heimsögulegur atburður í ljósi þess, að menn óttast aukna og hættulega spennu milli trúarfylkinga.

Harvard-prófessorinn bendir meðal annars á þá staðreynd, að á seinni hluta þessarar aldar hafi orðið trúarleg vakning um heim allan. Stangist sú þróun á við spádóma menntamanna á fyrri hluta aldarinnar, þegar þeir töldu, að efnahagskenningar og félagsleg þróun myndi draga úr vægi trúarbragðanna. Rekur hann í bók sinni ýmis dæmi þessu til staðfestingar.

Fullyrt er að Evrópa hafi tekið við fagnaðarerindinu í annað sinn. Staðreynd er, að hvítasunnuvakningin er til dæmis sú hreyfing sem vaxið hefur hvað örast innan kristninnar á seinni árum. Hvítasunnumenn eru yfir 420 milljónir í heiminum öllum. Þessi vakning á ekki síst mikinn hljómgrunn bæði í Suður-Ameríku og Asíu. Þá er einnig bent á, að ekki sé lengur rætt um að færa íslam til nútímans heldur laga nútímann að íslam. Laga þjóðfélög og stjórnarhætti að ströngum kröfðum Kóransins. Íran, Afganistan og fleiri ríki eru nefnd, þegar minnt er á að bókstafstrúarmenn séu að færa sig upp á skaftið. Eftir að hafa hallmælt Konfúsíusi að fyrirmælum Maós halla Kínverjar sér að honum að nýju. Við brotthvarf kommúnismans hafa trúarbrögðin fyllt tómarúmið frá Albaníu til Víetnams.

Skýringarnar á þessari þróun eru meðal annars þær, að við hinar miklu breytingar á þjóðlífinu á síðari hluta aldarinnar þurfi menn að treysta ímynd sína og rætur, skapa stöðugleika í nýjum samfélögum og setja sér ný siðræn viðmið til að líf þeirra hafi inntak og tilgang Til þess að gæta hagsmuna sinna verði menn og hópar þeirra að skilgreina sjálfa sig og átta sig á því, hvers þeir vilja gæta. Hagsmunabarátta krefjist þess, að menn viti fyrir hvað er barist. Í umróti og umskiptum sé nauðsynlegt að halda fast í það, sem er sameiginlegt og nær til flestra. Þeir, sem þurfi að svara spurningum um það, hverjir þeir eru eða með hverjum þeir standa, geti fengið skýr svör með því að vísa til trúarbragðanna.

Ég hef nefnt til sögunnar „kristinn blaðamann” eins og hinn pólski ritstjóri á Vatíkan-fundinum nefndi sig. Þetta er hugtak, sem við þekkjum ekki úr almennum umræðum hér á landi. Við tölum ekki heldur um „kristna stjórnmálamenn” og hér hefur kristilegur stjórnmálaflokkur aldrei fest rætur. Minnist ég þess þó fyrir mörgum árum, að í tengslum við þing Norðurlandaráðs var haldinn sérstakur fundur einmitt hér í Hallgrímskirkju, þar sem fulltrúar kristilegu flokkanna á Norðurlöndunum skýrðu hugmyndafræðilegan grundvöll flokka sinna og störf þeirra.

Eins og kunnugt er kemur Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, úr Kristilega flokknum þar í landi, en í Noregi er flokkurinn dæmigerður smáflokkur. Sunnar í álfunni eru kristilegir flokkar miklu öflugri og nægir að nefna einn því til sönnunar, kristilega demókrata í Þýskalandi, sem hafa sett sterkan svip á þýsk stjórnmál frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og haft forystu um sameiningu þýsku þjóðarinnar.

Góðir áheyrendur!

Af öllu því, sem ég hef nú rakið, er ljóst, að trúin hefur mikil áhrif á stjórnmálin. Ég minni hins vegar á það, sem Max Weber segir í ritgerð sinni Mennt og máttur: „Sá sem bjarga vill sálum annarra án þess að bíða tjón á sinni eigin, gerir það ekki á vettvangi stjórnmálanna, enda eru viðfangsefni þeirra allt önnur, nefnilega þau, sem ofbeldi þarf til að leysa. Andi stjórnmálanna, illur eða góður, og guð kærleikans, til dæmis guð kristinnar kirkju, eru andstæður, sem alltaf geta orðið ósættanlegar.”

Þorgeir Ljósvetningagoði var sem stjórnmálamaður að koma í veg fyrir ofbeldi, þegar hann lýsti yfir kristni á Íslandi. Hann komst að skynsamlegri málamiðlun til að slíta ekki friðinn.

Weber segir á hinn bóginn, að enginn vefji fjallræðunni um fingur sér, hún sé enginn leiguvagn sem hægt sé að láta bíða eftir sér og klifra upp í eða niður úr eftir geðþótta. Krafa hennar sé þvert á móti allt eða ekkert. Boð guðspjallanna sé afdráttarlaust og ótvírætt, gef eigur þínar allar, ekkert minna. Stjórnmálamaðurinn svari þessu á þann veg, að félagslega séð sé slík krafa fráleit, nema eitt gangi yfir alla.

Andstæða trúar og stjórnmála felst í því, að í stjórnmálum leita menn málamiðlana til að ná árangri, trúin krefst þess hins vegar, að menn viðurkenni ákveðnar kenningar sem ekki verði hnikað. Í nútímaþjóðfélögum, þar sem allt er talið afstætt, er brýnna en áður að hafa fótfestu. Leitin að henni er meðal þess, sem vekur menn til trúar. Hlýtur að vera meginhlutverk þeirra, sem boða fagnaðarerindið að svala þessari vaxandi þörf nútímamannsins.

Á fyrrnefndu þingi um Krist sem uppsprettu evrópskrar menningar á nýju árþúsundi var rætt um grundvallaratriði trúarinnar, sannleikann, sem í henni felst, og hvernig unnt er að breiða hann út og nýta við núverandi aðstæður, þegar allt er talið afstætt og menn láta frekar stjórnast af tilfinningum en því að taka afstöðu á traustum grunni. Í umræðum um trú og heimspeki var sérstaklega varað við nihilisma, heimspekistefnu, sem höfðar til margra og boðar algera afneitun á öllu hefðbundnu gildismati, trú, lögum, stjórnarfari og mannréttindum. Páfinn hefur sagt um þessa stefnu, að hún snúist ekki um neitt og hafi sem slík nokkurt aðdráttarafl fyrir fólk í samtímanum. Á málþinginu átti póstmódernisminn sér ekki málsvara og var hann harðlega gagnrýndur, þar sem í nafni hans væri allt lagt að jöfnu. Kristján Kristjánsson heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri hefur gagnrýnt póstmódernismann með sterkum rökum á síðum Morgunblaðsins.

Jóhannes Páll páfi II ávarpaði málþingið og ítrekaði, sem hann hefur oft sagt, að saga Evrópu í tvö árþúsund væri samofin sögu kristninnar. Þótt allir Evrópubúar teldu sig ekki kristna hefðu þeir orðið fyrir svo miklum áhrifum af kristnum boðskap, að án hans væri tæplega unnt að tala um Evrópu. Hin kristna menning skapaði sameiginlegar rætur okkar Evrópubúa. Leitin að sannleikanum ætti að vera grundvöllur allrar menningarviðleitni, í því fælist virðing fyrir manninum og rétti hans, einkum bæri að virða málfrelsi hans og trúfrelsi. Í heimi, þar sem tekist væri á við mörg vandamál, opnaði boðskapur Krists óravíddir, veitti óviðjafnanlegan kraft, ljós í þekkingarleit, viljanum afl og hjartanu kærleika.

Góðir áheyrendur!

Það er komið að lokum máls míns.

Í fornkirkjunni var hiklaust boðað, að heimurinn væri á valdi illra anda. Þá var talið, að sá, sem fengist við stjórnmál, gengi illum öflum á vald, hann væri samningsbundinn hinum illu öflum. Um gerðir hans gilti því ekki, að gott leiddi af góðu og illt af illu, heldur iðulega hið gagnstæða. Þessi kenning setur sem betur fer ekki lengur svip sinn á boðskap kirkjunnar, kannski blundar hún þó einhvers staðar.

Vinur minn, sem hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og tekur virkan þátt í stjórnmálaumræðum hér og annars staðar, sagði eitt sinn eitthvað á þá leið í blaðaviðtali, að hann væri ekki kirkjurækinn, helst hallaðist hann þó að kaþólsku kirkjunni, af því að kristinn boðskapur hennar höfðaði meira til sín en samfélagsfræðin í predikunum mótmælenda.

Þessi ábending minnir okkur á hina ólíku heima trúmála og stjórnmála. Þótt flæði sé á milli þeirra, eru viðfangsefni stjórnmálamanna og presta ólík, og þeir hljóta að nálgast þau frá ólíkum sjónarhóli. Spyrja má, hvort skilin milli þessara heima, sem Weber telur ósættanlega, séu að raskast á þann veg hér á landi til dæmis, að veraldarhyggja setji æ meiri svip á kirkjuna. Ég treysti mér ekki til að svara þessari spurningu. Hún er hins vegar virði þess, að velta henni fyrir sér.

Í mínum huga er ekki lengur unnt fyrir kirkjuna að skilgreina sig sem einhvers konar andstæðing okkar, sem vinnum að stjórnmálum. Kirkjan er í eðli sínu heimkynni okkar, að minnsta kosti þeirra, sem eru kristnir stjórnmálamenn. Kirkjan er hluti af samfélaginu en hvorki utan né ofan við það. Skilgreini hún sig með öðrum hætti lendir hún í andstöðu við sjálfa sig. Guði verður ekki þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti, sagði Páll á Aresarhæð. Kirkjan er fulltrúi þessa sjónarmiðs í lífi okkar en ekki einstakra þrýstihópa, þótt málstaður þeirra sé góður og göfugur. Fjallræðan krefst þess, að menn taki afstöðu á annan hátt en þeir gera á stjórnmálavettvangi, þótt fjallræðan móti allt lífsviðhorf hins kristna manns, hvort heldur hann sinnir stjórnmálum eða öðrum störfum.

Ríkið sem Kristur boðaði var „ekki af þessum heimi”. Öll eigum við þó að gjalda keisaranum það, sem keisarans er, og guði það, sem guðs er. Okkur ber að standa reikningsskil gjörða okkar og virða kristnar siðareglur. Sýna þeim miskunn, sem þurfa hjálp. Trúin veitir þó annað og meira, því að hún er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.