8.5.2009

Hanna Johannessen – minning.

 

Hanna og Matthías – aldrei var minnst á annað án þess, að hins væri getið og aldrei minnist ég þess, að annað hafi komið en hitt ekki til fjölskylduboða eða við önnur tækifæri heim til okkar í Háuhlíð í tíð foreldra minna og síðan.

Ávallt voru þetta gleði- og fróðleiksstundir, þar sem Matthías ræddi málin af einstöku innsæi og ákafa en Hanna var nálæg og minnti á móður jörð,  þegar hún birtist í Niflungahring Wagners og auðveldaði Óðni að ná áttum.

Í bókum sínum og vefskrifum hefur Matthías lýst mörgum þeirra minninga, sem við eigum sameiginlegar, betur en ég fæ gert. Ávallt þegar ég les frásagnir Matthíasar af þessum atvikum, veit ég af návist Hönnu og hve hún var honum mikils virði og veitti honum mikinn styrk.

Oft dáðist ég af einstakri þolinmæði hennar, þegar Matthías gleymdi tíma og rúmi í umræðum eða við störf sín á Morgunblaðinu.  Stundirnar, sem Hanna sat og beið hans í bifreið þeirra fyrir framan Morgunblaðshúsið í Aðalstræti, voru ófáar.

Ævi Hönnu einkenndist af  ástúð og umhyggju fyrir fjölskyldu sinni og öllu, sem henni var kært, auk einstæðrar hollustu við viðfangsefni, sem hún helgaði krafta sína, hvort sem var á vettvangi Verndar, Neskirkju eða í þágu Sjálfstæðisflokksins. Ávallt var hún á sínum stað, þegar á reyndi, og lagði óeigingjarnt starf af mörkum hljóðlega og af alúð.

Matthías hafði stundum á orði, að við fráfall foreldra minna hefði gleði hans af stjórnmálum horfið.  Við, sem þekktum þau Hönnu og Matthías, vitum, að við andlát hennar hverfur sú, sem var honum allt og gaf honum gleði af kærleika.

Hugur okkar dvelst hjá Matthíasi, sonum þeirra hjóna og fjölskyldu þeirra allri. Við Rut og börn okkar vottum þeim innilega samúð með þökk og söknuð í hjarta.

Blessuð sé minning Hönnu Johannessen.

Björn Bjarnason.