19.7.2008

Undirgefni og Brusselvald.

Grein í 24 stundum 19. júlí

 

 

 

Umræður í tilefni af vangaveltum mínum um þann kost, að semja um evruaðild við Evrópusambandið (ESB) en ekki aðild Íslands að ESB, hafa staðfest réttmæti þeirrar skoðunar, að lögheimildir séu fyrir ráðherraráð ESB til slíkra samninga og niðurstaðan yrði bindandi fyrir stofnanir ESB og aðildarríki, án þess að þau þyrftu að fullgilda samninginn.

Séu lögheimildir fyrir hendi, er unnt að leita leiða til að nýta þær. Í þessu tilviki ræðst framhaldið af stjórnmálavilja hér á landi og innan Evrópusambandsins. Stjórnmálastefna ESB er mótuð í höfuðborgum aðildarríkjanna en ekki af embættismönnum þess. Vegferðin hefst hjá ríkisstjórnum ESB-landa en ekki hjá embættismönnum í Brussel eða sendiráði ESB í Ósló.

Umræðurnar hafa dregið fleira fram en þetta. Þar ber hæst, hve þeim, sem vilja leiða Ísland inn í ESB, er ljúft að beygja sig undir embættisvilja Brusselvaldsins. Dæmi um það má sjá í grein eftir Helgu Völu Helgadóttur, dálkahöfund 24 stunda, sem blaðið kynnir til sögunnar sem „áhugakonu um ábyrga landstjórn“, þegar hún segir um mig: „Mér finnst það harla óábyrgt af Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, sem alla jafna vill láta taka mark á sér, að slengja fram þessari hugmynd sinni.“

Helgu Völu finnst ekki aðeins ámælisvert, að ég kynni rökstudda og réttmæta hugmynd, heldur fellur henni jafnvel enn verr, að ég hafi skoðun á ummælum Percys Westerlunds, sendiherra ESB, og telur hún mig með því hafa svarað honum „af fullum hroka“. Helga Vala er auk þess miður sín yfir því „að svona vitleysisumræða íslenskra ráðamanna berist út fyrir landsteinana“ eins og hún orðar það.

Ef íslenskur ráðherra, lýsir skoðun, sem fellur ekki í kramið hjá Brusselvaldinu, sýnir hann því hroka og verður þjóðinni til skammar með vitleysisgangi. Eitt er, að vilja Ísland í Evrópusambandið, annað að því fylgi sá þrælsótti við Brusselvaldið, sem orð Helgu Völu endurspegla. Undirgefni af þessu tagi er helsta uppspretta þess, að þjóðir segja nei, þegar spurt er, hvort framselja skuli meira þjóðlegt vald til Brussel. Að kenna viðhorf Helgu Völu við „ábyrga landstjórn“ er hreint öfugmæli – þau leiða til þess, að stjórnin flyst á brott úr landinu.