Hið misheppnaða snilldarbragð - enn um samruna REI og Geysir Green
Þjóðmál, vor 2008.
Enn á ný ræði ég atburði, sem tengjast ákvörðunum um sameiningu Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE). Atburðarásin er með ólíkindum. Í síðasta hefti Þjóðmála dró ég myndina eins og hún var þá. Nú hefur hún skýrst betur.
Í útvarpsfréttum snemma í október 2007 sagði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráð-herra og starfsbróðir minn í ríkisstjórn, að sér þætti mikil „viðskiptaleg snilld“ ef tækist að búa til 14–15 milljarða verðmæti „nánast úr loftinu“ fyrir okkur skattborgara í Reykjavík með hinu nýja REI. Össur óskaði þess, að Reykjavíkurborg tækist að „realísera“ þessi verðmæti. Hún gæti hugsanlega notað þau til að lækka orkuverð.
Eftir á að hyggja sýnist hafa verið borin von, að snilldarbragðið tækist. Þar kemur bæði til aðferð og efni máls. Margir sitja eftir með sárt enni vegna marklausra yfirlýsinga og óvandaðra vinnubragða.
I.
Hinn 3. október 2007 sagði frá því í fréttum, að orkufyrirtækin Reykjavík Energy Invest, útrásararmur Orkuveitu Reykjavíkur, og Geysir Green Energy, í eigu FL Group, Atorku og Glitnis, hefðu gengið í eina sæng undir nafninu Reykjavik Energy Invest. Hlutafé fyrirtækisins næmi 40 milljörðum króna og forsvarsmenn þess stefndu að því að skrá það á alþjóðlegan hlutabréfamarkað á næstu árum. Orkuveita Reykjavíkur yrði stærsti hluthafi með um 35% hluta, FL Group með 27% og Atorka með fimmtungshlut. Bjarni Ár-mannsson yrði stjórnarformaður og Guðmundur Þóroddsson forstjóri. Guðmundur sagði heildareignir fyrirtækisins eitthvað um 60 milljarða og heildarhlutafé um 40 milljarða. Orkuveitan hefði lagt um 4 milljarða króna í fyrirtækið og því gæti hún tapað, ef illa færi, en ætti milljarðatugi í vændum, ef allt gengi samkvæmt áætlun.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fagnaði hinu nýja fyrirtæki og hafði þessi orð um stofnun þess: „Sem Reykvíkingur og íbúi í Reykjavík að þá auðvitað horfi ég á þá staðreynd að þarna er orkuveitan hugsanlega að fara í ákveðinn áhætturekstur en ég sé það líka að hún er að leggja þarna inn sex, sjö milljarða en eignin sem hún fær út úr þessu eru, ja, næstum því þrefalt meiri þannig að það er nú góður samningur fyrir okkur í Reykjavík. Og svo gleðst ég yfir því að það er yfirlýsing um það að þetta fyrirtæki að það fari á markað innan tíðar og þar með verður væntanlega undið ofan af þessu sem að menn kannski eru að gagnrýna sem er ákveðin áhætta sem að tekin er.“
Þótt Guðmundur Þóroddsson segði Orkuveitu Reykjavíkur hafa látið 4 milljarða í hið nýja REI, nefnir Össur Skarphéðins-son 6 milljarða og var sú tala almennt notuð í fréttum á þessum tíma. Strax fáeinum dögum eftir ákvörðunina um samruna var sagt frá því, að hluturinn væri þá metinn á 16 milljarða.
Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarmaður í Reykjavik Energy Invest, sagði hinn 5. október, að verðmæti orkuveitunnar í út-rásarverkefnum hefðu margfaldast á stutt-um tíma. Það benti til að stjórnendur hennar og REI væru að gera rétt. Stefnt væri á skráningu félagsins á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði um mitt ár 2009. Þá kynni raungildi að hafa margfaldast og gæti jafnvel numið 30 til 40 milljörðum og færi þar með langt með að „dekka“ skuldir Reykjavíkurborgar, eins og hann orðaði það í útvarpsviðtali.
Sagt var frá því, að 500 milljóna króna hlutur Bjarna Ármannssonar, stjórnarfor-manns REI, hefði tvöfaldast að verðmæti á þremur vikum. Verðmætaaukningin væri hálfur milljarður króna. Bjarni taldi 5. október, að REI væri metið á 65 milljarða króna en það hefði verið talið 18 milljarða króna virði tæpum mánuði áður.
II.
Hinn 5. október var sagt frá því, að hlutabréf í FL Group hefðu hækkað mjög í verði 2. október, daginn áður en tilkynnt var um sameiningu Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Investment.
Í fréttum sjónvarpsins 5. október sagði: „Athygli vekur einnig að hlutabréf í FL Group hækkuðu mjög í verði 2. október, daginn áður en tilkynnt var um samrunann. Úr 24,5 í 25,8. Fjöldi viðskipta sjöfaldað-ist einnig milli daga, fór úr 11 í 77. Bréf í Atorku, næst stærsta hluthafanum í Geysi Green lækkuðu hins vegar örlítið þennan sama dag. Jafet Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar, telur jákvæðar fréttir af öðrum fjárfestingum FL Group skýra þessa hækkun frekar en að nokkur óeðlileg viðskipti hafi átt sér stað. Geysir Green sé ekki það stór hluti fjár-festinga FL Group en vissulega sé þetta óheppileg tilviljun.“
Í fréttum hljóðvarps ríkisins kl. 18.00 7. október 2007 sagði: „Á þriðjudaginn [2. október] flaug Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, til Kína í boði Glitnis. Bankinn á hlut í jarðvarmafyrirtækinu REI. Ólafur sagði í samtali við Stöð 2 að Kínverj-ar væru hæstánægðir með samstarfið við Ís-endinga um nýtingu jarðvarma og vildu auka það til mikilla muna. Verkefnið væri svo stórt að ef samningar gengju eftir gerðu íslensk orkufyrirtæki, fjármálastofnanir og bankar varla nokkuð annað á næstu árum en að sinna því. Daginn eftir samþykkti stjórn orkuveitunnar samruna Geysis Green og REI. Þar næsta dag kynntu Bjarni Ármannsson og fulltrúar FL Group erlendum fjárfestum blómlega framtíð FL. Bjarni segir ekkert hæft í ásökunum um að samrunanum hafi verið flýtt til að unnt væri að kynna FL Group sem verðmætara fyrirtæki. Bjarni Ármannsson: „Það var hrein tilviljun að að fjárfestadagur FL Group skyldi vera þarna á þessum tíma.““
Á fundinum í London sögðu þeir Bjarni og Hannes Smárason, forstjóri FL Group, að eignir REI yrðu á bilinu 180 til 300 milljarðar króna, þegar félagið færi á markað árið 2009.
III.
Samhliða hástemmdum umræðum um framtíð REI og verðmæti þess, voru háð illvíg pólitísk átök vegna félagsins.
Meirihlutasamstarf sjálfstæðismanna við Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, í borgarstjórn rofnaði, eftir að sex borgarfulltrúar sjálfstæðismanna sættu sig ekki við, hvernig að málum var staðið. Að öllu athuguðu töldu þeir best, að orkuveitan seldi sinn hlut í REI.
Björn Ingi andmælti í sjálfu sér ekki sölu en lýsti ósætti um tímaramma. Hann sagðist í viðtali 8. október sjá fyrir sér, að eitthvað af hlut orkuveitunnar yrði selt fljótlega til að ná því, sem orkuveitan hefði lagt fram í peningum en síðan myndi borgin segja skilið við fyrirtækið árið 2009, þegar það yrði skráð á alþjóðlegan hlutabréfamarkað.
Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra leist hins vegar mjög illa á að Orkuveita Reykjavíkur seldi hlut sinn í REI. Hann sagði: „[T]el ég þetta nú alveg fáránlegt frá sjónarmiði Reykvíkinga af því að ég held að þetta fyrirtæki það muni aukast mjög hratt að verðgildi. Ég dreg þá ályktun bara af þeim mikla þrýstingi sem að er erlendis frá alls konar fjárfestingarbönkum og alls konar fyrirtækjum sem að vilja kaupa sig inn í svona græn orkufyrirtæki. Ég tel þess vegna að þessi ákvörðun hún gæti leitt til þess að Reykvíkingar, þeir töpuðu tugum milljarða.“
Þótt svo virtist sem Björn Inga og sjálf-stæðismenn greindi á um það eitt, hvenær skyldi selja hlut orkuveitunnar í REI, snerist Björn Ingi 11. október alfarið á sveif með þeim, sem ekki máttu heyra minnst á slíka sölu, og gekk til liðs við minnihlutann í borgarstjórn. Björn Ingi myndaði meirihluta undir forystu Dags B. Eggertssonar sem borgarstjóra hinn 12. október.
Degi þótti ekkert að því að eiga samstarf við Björn Inga, þar sem hann hefði beðist afsökunar á ákveðnum þáttum í REI-málinu, og ekki yrði hróflað við samruna REI og GGE í hið nýja REI. Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi vinstri/grænna, hefði höfðað dómsmál til að hnekkja ákvörðunum um samrunann og skyldi beð-ið niðurstöðu dómara um það efni. Svandísi var jafnframt falið að leiða hóp, svo-nefndan stýrihóp, borgarfulltrúa úr öllum flokkum til að kanna aðdraganda og vinnu-brögð í samrunaferlinu, sem leiddi til þess, að hið nýja REI hefði verið stofnað.
IV.
Hinn 12. október var skýrt frá því á visir.is, að öll erlend verkefni orku-veitunnar næstu 20 ár myndu renna til REI samkvæmt þjónustusamningi milli REI og orkuveitunnar. Samningurinn hefði verið gerður 2. október, daginn fyrir samruna REI við GGE. Með samningnum fékk REI 20 ára einkarétt á þjónustu orkuveitunnar á vettvangi orkuvinnslu úr jarðvarma, sem veitt væri af hálfu sérfræðinga á sviði jarðvarma, kerfisfræðinga, rekstrarfræðinga, sérfræðinga í gerð viðskipta- og fjárhagsáætlana, sérfræð-inga á sviði markaðsmála o. s. frv. sem nauð-synlegt væri til að auka viðskipti REI eða starfsemi félagsins eða þeirra fyrirtækja sem REI fjárfesti í utan Íslands. Samningurinn fól í sér rétt til að nýta öll hugverkaréttindi og tækni, sem þá var til, eða yrði til í framtíðinni, og voru í eigu OR. Ennfremur fengi REI leyfi til að nota vörumerkin og viðskiptaheitin Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavik Energy hjá öllum dótturfélögum REI á erlendri grundu og félögum sem REI ætti einhvern hlut í.
V.
Hinn 1. nóvember hafnaði borgarráð samruna REI og GGE og ógilti bæði samrunann og tuttugu ára þjónustusaming REI við Orkuveitu Reykjavíkur. Hannes Smárason, forstjóri FL Group og stjórnar-formaður GGE sagði, að milljarða króna skaðabótakrafa kynni að verða gerð á orkuveituna, yrði ekki staðið við sameiningu REI og GGE í hið nýja REI. Hinn 2. nóvember ógilti stjórn orkuveitunnar einróma samruna REI og GGE. Engin skaðabótakrafa barst frá FL Group.
VI.
Hinn 7. febrúar 2008 birti stýrihópur borgarráðs um málefni REI undir for-mennsku Svandísar Svavarsdóttur, borgar-fulltrúa vinstri/grænna, skýrslu sína. Með 11 blaðsíðna greinargerð stýrihópsins fylgir „tímaröð atburða og ákvarðana“, frá stjórnarfundi í Orkuveitu Reykjavíkur 25. janúar 2007 til 1. nóvember 2007.
Hvers vegna frá 25. janúar 2007? Jú, þá samþykkti stjórn orkuveitunnar, að eignarhluti hennar í Enex hf. yrði settur í sérstakt hlutafélag, eignahaldsfélag, sem orkuveitan ætti með Landsvirkjun, Nýsköp-unarsjóði atvinnulífsins og Íslenskum orkurannsóknum. Þá var einnig samþykkt að fela forstjóra orkuveitunnar (sem þá var Guðmundur Þóroddsson) og framkvæmdastjóra lögfræðisviðs hennar (sem þá var Hjörleifur Kvaran) að vinna tillögu um hvernig orkuveitan stæði að útrásarverkefnum í framtíðinni.
Hinn 7. mars 2007 samþykkti stjórn orkuveitunnar samhljóða að stofna Reykjavík Energy Invest (REI) um útrásarstarfsemi sína. Stofnfundur var haldinn 11. júní 2007 og Guðmundur Þóroddsson ráðinn forstjóri en Hjörleifur B. Kvaran varð síðan forstjóri orkuveitunnar.
Stýrihópurinn starfaði frá 18. október til 7. febrúar. Innan hópsins mun hafa verið tekist á um einhver mál og er niðurstaða hans málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Kjarni niðurstöðu hópsins felst í þessum orðum á bls. 10:
„Stýrihópurinn telur að umræðan um REI-málið sé að hluta til ákall um breyttar áherslur og vinnubrögð þar sem hagsmunir almenn-ings eru hafðir að leiðarljósi við stjórnun og ákvarðanir hjá fyrirtækjum í opinberri eigu. Atburðir þeir sem eru efni þessarar skýrslu eiga að skila lærdómum inn í samfélagið, inn í pólitíkina og inn í stjórnsýsluna.“
Skýrslan sýnir, að stjórnendur orkuveit-unnar skorti öll tengsl við umbjóðendur sína. „Í samrunaferli REI og GGE voru teknar stór-ar og afdrifaríkar ákvarðanir án nauðsynlegrar umræðu eða samþykkis lýðræðiskjörinna fulltrúa,“ segir stýrihópurinn og síðar: „far-sælla hefði verið að borgarstjóri hefði sótt umboð til borgarráðs“. Og enn síðar: „Það orkar verulega tvímælis að stjórnin [REI-stjórnin] hafi getað tekið mikilvægar og afdrifaríkar ákvarðanir, án þess að leita sam-þykkis stjórnar OR“. Ennfremur: „... var hluthafasamkomulagið í REI við innkomu nýs hluthafa undirritað af starfandi for-stjóra OR [Hjörleifi Kvaran] fyrir hönd fyrirtækisins án þess að fyrir lægi samþykki stjórnar um umboð hans.“
VII.
Í grein minni í síðasta hefti Þjóðmála vék ég að því, þegar þeir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, stóðu á palli með Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í New York, þar sem Clinton heiðraði þá fyrir að lofa 8 til 9 orkumilljörðum Reykvíkinga á næstu fimm árum til fjárfestinga í Djíbúti, einu fátækasta ríki Afríku. Ég segi: „Spyrja má: Með samþykki hverra var loforðið við Clinton gefið — borgarstjórnar eða borgar-ráðs Reykjavíkur? Um þetta eins og allt annað í þessu máli vaknar spurningin: Hverjir hafa í raun umboð til að ráðstafa orkumilljörð-unum? Engin umgjörð breytir nauðsyn þess, að menn hafi heimildir til að ráðstafa eignum annarra.“
Í „tímaröð“ í skýrslu stýrihópsins segir: „Þann 28. september 2007 er greint opin-berlega frá samkomulagi þar sem REI skuld-bindur sig til að fjárfesta að lágmarki 10 milljónir Bandaríkjadala eða um 9 milljarða íslenskra króna á næstu fimm árum í jarð-varmavirkjunum í Austur-Afríku m.a. í Djibouti.“
Því miður kemur ekki fram í skýrslunni, hvernig staðið var að því að efna þessa tilkynningu um fjárfestingar í Djíbútí. REI og GGE höfðu ekki runnið saman í nýtt REI á þessum tíma. Eins og mál hafa þróast er líklegt, að loforð Ólafs Ragnars og Guðmundar á pallinum með Clinton verði ekki efnt nema með álögum á kaupendur þjónustu Orkuveitu Reykjavíkur.
VIII.
Hinn 23. nóvember 2007 var skýrt frá því, að orkuveitan mundi kaupa aftur 500 milljóna kr. hlutafé, sem Bjarni Ármannsson lagði í REI í september 2007. Samningar við Bjarna voru á þann veg, að hann hafði tryggingu fyrir að koma skaðlaus frá þessum viðskiptum við orkuveituna. Bjarni sagðist vera sáttur við samkomulagið um söluna á bréfum sínum og hann hefði ekki hlotið af fjárhagslegan skaða frekar en orkuveitan. Afskiptum sínum af REI mundi ljúka um áramótin, þegar hann léti af störfum sem stjórnarformaður.
IX.
Um samskipti orkuveitunnar og FL Group segir í skýrslu stýrihópsins:
„Við vinnu stýrihópsins kom í ljós að FL-group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því hvernig þjónustusamning-ur OR og REI yrði, hafði bein áhrif á samningsgerðina eins og fram kemur í tölvu-póstssamskiptum milli FL-group og OR. Þetta verður að teljast óeðlilegt í ljósi þess að samningurinn var á milli tveggja fyrirtækja í meirihlutaeigu borgarinnar og formleg staða FL-group gagnvart þeim fyrirtækjum engin. Þannig telur hópurinn að hagsmunum [svo!] OR hafi ekki verið gætt nægilega vel við samningsgerðina.“
Hinn 4. desember 2007 var skýrt frá því, að Hannes Smárason léti af störfum sem forstjóri FL Group og við tæki Jón Sigurðsson aðstoðarforstjóri. Jafnframt sagði í tilkynningu um þetta, að stefnt væri að því, að félag í eigu Hannesar keypti 23% eignarhlut í Geysir Green Energy af FL Group. Eignarhlutur FL Group í Geysir Green eftir viðskiptin yrði því 20%. Ekkert varð af þessum viðskiptum og FL Group seldi í febrúar 2008 hlut sinn í GGE eins og segir hér að neðan.
Hinn 13. febrúar 2008 var sagt frá því, að tap FL Group á árinu 2007 hefði numið 67,3 milljörðum króna og að það hefði verið 63,2 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi. Hinn 14. febrúar 2008 birtist eftirfarandi frétt á vefsíðu FL Group:
„FL Group hefur selt 43,1% eignarhlut sinn í Geysir Green Energy til nýstofnaðs fjárfestingasjóðs, Glacier Renewable Energy Fund, VGK Invest og Renewable Energy Resources. Söluverðið er 10,5 milljarðar króna sem samsvarar til bókfærðs verðs Geysis Green Energy í ársreikningi FL Group um sl. áramót og hefur því óveruleg áhrif á afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2008.
FL Group fær greitt fyrir bréfin í Geysi með reiðufé, skráðum verðbréfum og eignar-hluti í Glacier Renewable Energy. Glacier Renewable Energy er grænn fjárfestingasjóð-ur sem rekin er af Glitni sjóðum hf. og hefur að markmiði að fjárfesta í verkefnum sem tengjast sjálfbærum orkuverkefnum. Eignarhlutur FL Group í sjóðnum er um 4,5 milljarðar króna.
Geysir Green Energy er fjárfestingafélag á sviði umhverfisvænnar orku sem FL Group stofnaði ásamt Glitni banka og VGK Hönn-un í ársbyrjun 2007. Geysir fjárfestir í orku-verkefnum og félögum sem starfa að nýtingu jarðvarma til orkuvinnslu víða um heim.“
Eftir þessar breytingar er eignarhald í GGE á þennan veg: Undirfyrirtæki Atorku, Renewable Energy Resources, á nú 43,8% hlut, Glacier Renewable Energy Fund, fjár-festingasjóður undir stjórn Glitnis, á 42,4%, VKG á 10.8%, Bar Holding á 2% og Reykjanesbær á 1%.
X.
Hinn 15. febrúar var efnt til stjórnar-fundar í Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem lagt var fram bréf Geysir Green Energy dags. 23. janúar 2008 og bréf forstjóra Reykjavík Energy Invest um sameiningu Geysir Green Energy og Enex, og hlutafjáraukningu í Enex-Kína og Iceland America Energy. Var afgreiðslu málsins frestað, en nái þetta erindi fram að ganga virðast dagar GGE samkvæmt upphaflegri hugmynd um fyrirtækið vera taldir.
XI.
Guðjón Ólafur Jónsson, forystumaður Framsóknarflokksins í Reykjavík og fyrrverandi varaþingmaður, sendi trúnaðarbréf dags. 15. janúar 2008 til um 2000 flokkssystkina sinna og rakti flokksraunir á árinu 2007.
Guðjón Ólafur sagði, að árið 2007 hefði verið framsóknarmönnum í Reykjavík „afskaplega erfitt“. Missir allra þriggja þing-manna flokksins í Reykjavík hefði verið „verulegt áfall“ og flokkurinn „hrökklaðist“ úr ríkisstjórn. Staða flokksins væri með „erf-iðasta móti“. „REI-klúðrið“ hefði leitt til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur með aðild framsóknarmanna „en staða flokksins er öll mun þrengri innan borgarstjórnar en áður var“ að mati Guðjóns Ólafs, sem síðan sagði: „Versnandi staða flokksins og misklíð undanfarinna ára í okkar röðum hefur leitt til minni áhuga flokksmanna. Undanfarna mánuði hef ég í vaxandi mæli fundið fyrir uppgjöf fólks. Fleiri og fleiri hafa gefist upp, hætt að starfa og sumir jafnvel sagt sig úr flokknum, þ. á m. fyrrverandi borgarfulltrúi [Anna Kristinsdóttir] og stjórnarmenn í félögum okkar. Enn grassera gróusögur, nú síðast um að forystumenn okkar í borgar-stjórn [Björn Ingi Hrafnsson] hafi fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 keypt sér föt fyrir hundruðir þúsunda á kostnað flokksins. Slíkar sögur eru leiðigjarnar og mikilvægt að forystumenn okkar leiðrétti þær sem fyrst með afgerandi hætti.“
Hinn 20. janúar 2008 áréttaði Guðjón Ólafur árás sína á Björn Inga Hrafnsson í þættinum Silfur Egils og sagðist vera með „mörg hnífasett í bakinu“ frá Birni Inga eftir átök þeirra innan Framsóknarflokksins.
Björn Ingi Hrafnsson sagði af sér sem borgarfulltrúi hinn 24. janúar 2008. Þar með hvarf helsti talsmaður samruna REI og GGE af vettvangi borgarstjórnar.
XII.
Mánudaginn 21. janúar klukkan 19.00 var efnt til blaðamannafundar að Kjarvalsstöðum, þar sem þeir Ólafur F. Magnússon, frjálslyndum, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sjálfstæðisflokki, greindu frá því, að fimmtudaginn 24. janúar yrði efnt til aukafundar í borgarstjórn Reykjavíkur og Ólafur F. kjörinn borgarstjóri nýs meirihluta. Gengu þessi áform eftir og lauk þar með 103 daga borgarstjórnarferli Dags B. Eggertssonar, sem hófst með heitstrengingum um að standa vörð um samruna REI og GGE í hið nýja REI, enda væru milljarðar í húfi fyrir Reykvíkinga og þjóðina alla.
Hinn 7. febrúar 2008, sama dag og skýrsla stýrihópsins um REI, birtist, var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, í Kastljósi sjónvarpsins. Þurfti hann síðar að leiðrétta ummæli sín þess efnis, að hann hefði notið leiðsagnar borgar-lögmanns varðandi umboð sitt sem borgarstjóri við samruna REI og GGE. Vakti þetta enn miklar umræður um hæfni Vilhjálms til að gegna starfi oddvita eða taka við sem borgarstjóri af Ólafi F. Magnússyni á árinu 2009, en sjálfstæðismaður á embættið frá þeim tíma til loka kjörtímabils 2010 samkvæmt samkomulagi við Ólaf F. og hans fólk.
XIII.
Á stjórnmálavettvangi tók samfylkingar-fólk eindregnasta afstöðu með hinu nýja REI. Fyrirtækið var hafið til skýjanna og andmælendum aðferðarinnar við stofnun þess hallmælt eins og illvirkjum. Hver er afstaða Samfylkingarinnar núna?
Sigrún Elsa Smáradóttir sat fyrir Samfylk-inguna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, þegar ákvarðanir um samruna REI og GGE í hinu nýja REI voru teknar. Í Fréttablaðinu 21. febrúar 2008 segir hún REI málið ekki snúast um, „hvort menn séu með eða á móti orkuútrásinni eða samstarfi einkarekinna og opinberra fyrirtækja.“
Hinn 7. október 2007 rituðu þau Dagur B. Eggertsson, þáverandi stjórnarmaður, og Sigrún Elsa Smáradóttir, þáverandi vara-maður í stjórn orkuveitunnar, grein í Morg-unblaðið, þar sem sagði:
„Augljóst er að þeir sem hafa setið sem fulltrúar Orkuveitunnar í stjórn REI hafa blindast af þeirri hagnaðarvon sem vissulega er í útrásarverkefnum OR. Það er mjög miður hvernig græðgi, vinapot og pólitísk spilling hafa sett ljótan svip á samruna þessara útrásarfélaga. Því samruni REI og GGE getur þrátt fyrir allt verið skref í rétta átt í útrás íslenskra orkufyrirtækja. Ekki leikur vafi á því að sameinað fyrirtæki stendur sterkar að vígi í verkefnum sínum erlendis en fyrirtækin sitt í hvoru lagi. “
Hvað er það, sem REI málið snýst um að mati Sigrúnar Elsu hinn 21. febrúar 2008? Jú, „ólíðandi vinnubrögð, sem viðhöfð voru undir forystu sjálfstæðismanna sem kollvörpuðu þeim fyrirætlunum og komu óorði á útrásina.“ 20 ára einkaréttarsamningi milli Orkuveitunnar og REI hefði verið haldið leyndum auk þess sem FL Group hefði haft óeðlilega aðkomu að gerð samningsins. Þá hefðu vaknað spurningar um umboð borgarstjóra.
Þessi málsvörn Sigrúnar Elsu er með ólík-indum, því að í henni er tekið undir öll sjónarmið sexmenninganna í Sjálfstæðisflokknum, sem stöðvuðu framgang OR/REI hneykslis-ins í byrjun október 2007. Sjónarmið, sem voru helstu rök Samfylkingarinnar fyrir því, að sexmenningarnir voru sviptir meirihluta-valdi í borgarstjórn, þegar Samfylkingin hafði forystu um að ganga til samstarfs við Björn Inga Hrafnsson. Hann vildi allt á sig leggja til að tryggja framgang ákvarðana um að stofna hið nýja REI, ákvarðana, sem Sigrún Elsa studdi á þessum tíma í stjórn orkuveitunnar og varði út á við með öðru samfylkingarfólki.
XIV.
Með skýrslu stýrihópsins um málefni REI unnu sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna málefna-legan sigur í OR/REI málinu. Þeir höfðu þrek til að standa á sínu og snúast gegn laumuspili og fjármálabraski, sem greini-lega tengdist öðrum þræði tilraunum til að styrkja fjárhagslega stöðu FL Group. Hraðinn, aðferðin og allar tímasetningar tala skýru máli um mikla fjárhagslega hagsmuni í málinu. Þeir áttu hvorki neitt skylt við hagsmuni Reykvíkinga né samkeppnisstöðu Íslands á alþjóðlegum orkumarkaði. Allar stórkallalegar yfirlýsingar í því efni voru spunakenndur áróður í því skyni að knýja fram stuðning við samrunann í nýju REI, en það skipti FL Group mestu, að hann næði fram að ganga.
Hvað sýnir þessi mynd?
Meirihluti borgarstjórnar, sem var myndaður til að treysta framgang REI samrunans, er fallinn. Bjarni Ármannsson hefur selt hlut sinn í REI og sagt skilið við hinar hátimbruðu fyrirætlanir undir nafni fyrirtækisins. Hannes Smárason hefur sagt skilið við REI og GGE. FL Group hefur selt hlut sinn í GGE. Björn Ingi Hrafnsson hefur sagt af sér sem borgarfulltrúi. GGE vill sameinast ENEX og leita þar skjóls í útrásinni. Allir flokkar í borgarstjórn hafa fallist á þá skoðun sexmenninganna í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, að vinnubrögðin við samruna REI og GGE voru óverjandi. Samfylkingar-fólk í borgarstjórn hefur snúið frá þeirri skoðun sinni, að orkuútrásin standi og falli með samruna REI og GGE í nýtt REI, sem hvarf úr sögunni 1. nóvember 2007.
Þessari ótrúlegu sögu er ekki lokið. Vandræðagangur innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og spurningar um forystu Vil-hjálms Þ. Vilhjálmssonar hafa dregið athygli frá kjarna hennar. Sjálfstæðismenn hafa ekki haldið góðum málstað sínum nægilega sterkt fram heldur skapað neikvæðar umræður um sjálfa sig. Spjótin ættu þess í stað að beinast gegn Samfylkingunni, sem á sínum tíma lagði blessun sína yfir REI-hneykslið og myndaði meirihluta gegn Sjálfstæðisflokknum til að halda samrunanum til streitu.
Opinber hagsmunagæsla byggist á trúnaði við skýrar leikreglur og gegnsæjum samskiptum inn á við og út á við. Stjórmálamenn mega hvorki missa sjónar á aðalatriði þess, sem um er deilt, né láta eigin hagsmuni ráða meiru en hollustu við sameiginlegan málstað og virðingu fyrir sjónarmiðum flokksmanna sinna.