3.2.2008

Silfur Egils 03. 02. 08.

 


 

3.2.2008 

Sjónvarpið

Silfur Egils

 

Björn Bjarnason

 

Egill Helgason: Hingað er kominn Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. Velkominn Björn.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra: Þakka þér fyrir.

Egill: Við ætlum nú svona að fara yfir ýmis mál, pólitísk mál. Byrjum á borginni. Björn nú sýna skoðanakannanir að það er mjög lítið traust á bæði borgarstjóra og meirihlutanum í borgarstjórn. Ertu sammála sumum sjálfstæðismönnum sem hafa verið að tala um þetta sé áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Björn Bjarnason: Alltaf þegar flokkar missa fylgi í skoðanakönnunum þá er það áhyggjuefni eða umhugsunarefni fyrir flokkana og[ber að] fara yfir það og reyna að finna hvað það er sem hefur gerst og hvernig er þróunin og hvað á að gera í málinu og svo framvegis. Þetta gera allir sem fara í gegnum þetta ferli þar sem við stjórnmálamenn störfum. Hvort  menn finna endilega rétta svarið er svo annað mál. Ég held nú í þessu dæmi komi í ljós þetta sem við kynntumst líka í ríkisstjórninni þegar Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Það er mjög erfitt fyrir menn úr litlum samstarfsflokki að fara í oddastöðu og getur orðið mjög þungt undir fæti að sannfæra allan almenning um það að sé rétt. Það er náttúrulega hluti af þessu dæmi að Ólafur F. Magnússon kemur ekki með neinn stóran flokk á bak við sig og fólkið í stóra flokknum sættir sig kannski ekki almennilega við það að einhver úr litlum flokki fari þarna í þessa stöðu og svo framvegis. Það eru margir þættir sem þarf að skoða. Og við sáum það líka þegar skiptin urðu í ríkisstjórninni, forsætisráðherraskiptin, að þá var það ekkert sjálfgefið að þróunin yrði sú sama [og áður] og Halldór Ásgrímsson lenti í ákveðnum erfiðleikum.

Egill: Og gafst nú bara upp á endanum.

Björn Bjarnason: Já svo er það annað mál. Það eru þannig ákveðin lögmál í þessu og það þarf meiri þunga að sannfæra fólk um það að maður úr litlum stjórnmálaflokki fái forystuhlutverkið heldur en ef hann kemur úr stórum og breiðum flokki.

Egill: Hefði Sjálfstæðisflokkurinn í rauninni ekki þurft að hafa borgarstjóra?

Björn Bjarnason: Að sjálfsögðu tel ég að svo sé. Ég held að það sé [almennt] best og hið besta fyrir Reykvíkinga. Og þetta hefur verið hroðalegt ástand allt þetta kjörtímabil. Þetta er þriðji meirihlutinn í borgarstjórninni. Það er visst áhyggjuefni að  menn nái sér ekki niður á einhvern breiðan og öruggan meirihluta í borgarstjórn, annað hvort með einum flokki, og Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem getur gert sér vonir um það svona við allar eðlilegar aðstæður, eða þá breiðari samstöðu heldur en við sjáum núna. [Gerist þetta ekki] þá er borginni ekki vel stjórnað.

Egill: Ef maður les svona bloggið þitt í gegnum tíðina þá sér maður að þú hefur verið mjög lítið hrifinn af Ólafi F. Magnússyni sem stjórnmálamanni.

Björn Bjarnason: Ja hann yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn og ég hef aldrei dáðst af þeim mönnum sem yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn, hvorki honum né öðrum.

Egill: En þú talar um hann svolítið sem mann sem er  sjálfhverfur og kvartandi.

Björn Bjarnason: Ég er sjálfum mér samkvæmur í því. Ég nefni dæmi þar sem ég er að fjalla um hann á minni vefsíðu þegar hann er að flytja ræður og annað slíkt sem ég hef hlustað á. Ég segi ekki neitt án þess að ég færi rök fyrir mínu máli þegar ég segi þetta.

Egill: En þér finnst hann vera, þér hefur fundist hann vera sjálfhverfur og svolítið mikið kvartandi.

Björn Bjarnason: Hann fór úr Sjálfstæðisflokknum af því að hann taldi sig ekki fá þá virðingu sem honum bar á landsfundi flokksins og það hefur komið fram oftar í hans málflutningi að honum finnst að sjálfstæðismenn hafi ekki komið fram við sig sem skyldi. Nú hefur það vonandi breyst.

Egill: Telurðu að Ólafur hafi sætt einhvers konar ofsóknum eftir að þetta gerðist, þessir atburðir?

Björn Bjarnason: Nei, hvað eru ofsóknir. Það eru miklar umræður og þær er persónulegri um hann heldur en marga aðra og viðkvæmari og fara inn á viðkvæmara svið heldur en menn tala almennt um þegar verið er að fjalla um stjórnmál. En ég myndi nú draga skilin á milli þess þar sem menn ganga of nærri einhverjum eða fara að ofsækja hann.

Egill: Já en finnst þér að menn hafi gengið of nærri honum?

Björn Bjarnason: Já þeir hafa gengið mjög nærri honum, það er alveg klárt og þetta hefur gengið nærri honum en mér finnst hann hafa tekist vel á við það og mér finnst hann hafa komist vel frá þessu öllu saman. þetta eru nú, hvað, tvær vikur á morgun síðan þetta skall yfir okkur og mér finnst hann hafi komist vel frá því þegar litið er yfir þessar tvær vikur miðað við það sem hefur verið gert.

Egill: Hvernig líður þér í stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna Björn?

Björn Bjarnason: Mér líður ágætlega.

Egill: Já.

Björn Bjarnason: Já.

Egill: Nú sitjið þið hlið við hlið þú og Ingibjörg Sólrún.

Björn Bjarnason: Einmitt.

Egill: Hérna það hefur nú ekki alltaf verið kært á milli ykkar. Ég man t.d. að það var ekki hlaupið að því að fá ykkur hérna saman í þætti og svona.

Björn Bjarnason: Það er nú yfirleitt ekki hlaupið að því fyrir þig að fá mig í þætti, hvort sem það er með henni eða öðrum.

Egill: Hvað er hérna, hvað er, en ja hvernig er samstarfið í þessari stjórn?

Björn Bjarnason: Mér finnst samstarfið vera gott. Þegar ég lít á málefnin og fer yfir málefnin og þau málefni sem ég hef verið að fjalla um  þá hef ég náð þeim fram í samvinnu við Samfylkinguna, þeim málum sem ég hef lagt áherslu á og ég held að þau geti  líka sagt hið sama. Ef við lítum á málefnaþáttinn í þessu þá tel ég nú að það beri allt með sér að samstarfið sé gott. Auðvitað er ágreiningur. Við erum í ólíkum stjórnmálaflokkum og höfum ólíka lífssýn og ólíkar skoðanir eins og við höfðum með Framsóknarflokknum. Ég sat nú í 12 ár í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og menn hefðu alveg eins geta sagt við mig þá, hvernig geturðu starfað með framsóknarmönnum, eins og að segja við mig núna, hvernig geturðu starfað með Ingibjörgu Sólrúnu. Það gekk ágætlega.

Egill: Morgunblaðið hefur nú farið mikinn í því að það hafi verið mistök að hleypa Samfylkingunni að.

Björn Bjarnason: Jú, eins og Morgunblaðið hefur skrifað um þetta í  Reykjavíkurbréfum og á annan veg má segja að Styrmi, vinur minn, sé nú svona á svipuðum nótum og við vorum báðir árið 1979. Við höfum verið taldir talsmenn sögulegra sátta í Sjálfstæðisflokknum. Ég skrifaði grein í desember 1979, ef ég man rétt, það eru nú bráðum 30 ár síðan, sem Gunnar Thoroddsen notaði sem haldreipi þegar hann myndaði síðan ríkisstjórn með Alþýðubandalagsmönnum og sagði, sjáið þið meira að segja þessir harðjaxlar á Morgunblaðinu þeir eru talsmenn þess að við vinnum með Alþýðubandalaginu. Ég hef aldrei útilokað að Sjálfstæðisflokkurinn og þeir sem voru í Alþýðubandalaginu eða eru núna vinstri-grænir, geta átt saman.

Ég sat fyrir ári í Evrópunefnd og komst að sameiginlegri niðurstöðu með Ragnari Arnalds og Katrínu Jakobsdóttur og Einari K. Guðfinnssyn. Við gáfum út sameiginlegt álit. Nefndin var sammála um alla meginþætti málsins. Síðan komu flokkar með sérstök álit og þar vorum við sammála vinstri-græn og við sjálfstæðismenn um ákveðna pólitíska punkta. Þannig að ég hef aldrei hræðst ef að menn geta á annað borð náð saman um málefni. Það sem mig hefur undrað í þessu öllu saman er það hvað vinstri-grænir halda sig til baka og hvað virðist vera erfitt fyrir þá að fara yfir þann þröskuld að [hætta að] vera í þessari stöðu að hrópa og kalla og hins vegar að fara yfir þröskuldinn og axla ábyrgð. Og mér finnst t.d. ja tökum Svandísi Svavarsdóttur hvernig hún lét í byrjun október þar til hún fór í meirihluta og hvernig hún byrjar síðan að tala þegar hún er kominn úr meirihlutanum og svo þögnina sem var meðan hún var í meirihlutanum. Það er eins og þetta fólk treysti sér ekki í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það er hins vegar sjónarmið Styrmis Gunnarssonar og mitt sjónarmið og annarra manna sem eru nú taldir svona frekar haukarnir í Sjálfstæðisflokknum að það sé ekkert hættulegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að eiga samstarf við þetta fólk ekki frekar heldur en að það er hættulegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sjálfu sér að eiga samstarf við Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna eða frjálslynda.

Egill: Hefði Sjálfstæðisflokkurinn, ja hefðu vinstri-grænir átt að reyna að vinna með Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík?

Björn Bjarnason: Ja ég tel að það hafi verið grundvöllur fyrir slíku samstarfi. Ég spyr, af hverju eru vinstri-grænir svona hræddir við samstarf við Sjálfstæðisflokkinn? Meira að segja þegar þeir þora að eiga samstarf við okkur um jafnviðkvæm mál og utanríkismál í Evrópunefndinni. Af hverju þegar kemur að stjórn borgarmála eða landsmála af hverju halda þeir sig alltaf svona til baka? Ég held að þú ættir frekar að spyrja vinstri-græna eða þetta fólk um það heldur en mig því að ég hef oftar en einu sinni lýst þeirri skoðun minni að ekkert sé að því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að taka upp samstarf við  þetta fólk ef  málefnin leyfa.

Egill: En Morgunblaðið boðar þetta nánast á ja eiginlega á hverjum degi að hérna.

Björn Bjarnason: Nei ég myndi nú ekki segja það.

Egill: Ansi eða svona oft og mörgum sinnum. Það er mjög andsnúið þessari ríkisstjórn og hefði ...

Björn Bjarnason: Ég myndi nú ekki segja það heldur að það sé andsnúið þessari ríkisstjórn. Hins vegar hefur það sína skoðun og blaðið má hafa sína skoðun. Og ég er nú alveg undrandi á því að heyra blaðamenn sem voru hér í þættinum hjá þér áðan og aðra tala um að það sé eitthvað undarlegt að Morgunblaðið hafi skoðun. Morgunblaðið hefur alltaf haft skoðun en kveinstafirnir yfir skoðunum Morgunblaðsins eru meiri núna heldur en maður gæti vænst í þessu opna þjóðfélagi þar sem við lifum. Þeir eru jafnvel meiri heldur en á tímum kalda stríðsins. Ég skrifaði Staksteina í mörg ár og ég man ekki eftir að menn hafi veinað svona eins og þeir láta núna og eins og það sé bara himinn og jörð að farast þótt það sé einhver aukasetning í Staksteinum. Mér finnst það alveg ótrúlegt, einhver pempíuháttur í umræðunum líka.

Egill: Já nú er talað um að þeir hafi ráðist að Arnbjörgu Sveinsdóttur.

Björn Bjarnason: Ja ráðist á hana, ég man nú ekki eftir þessu atviki sem þarna er sagt frá. Vandi Arnbjargar Sveinsdóttur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins núna er það að eins og kom fram hjá Ólöfu Nordal[fyrr í þættinum] með breyttum þingsköpum  er meira svigrúm fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að láta að sér kveða í umræðum hvernig á að skipta verkum.

Egill: Sagt er að Geir Haarde, forysta Sjálfstæðisflokksins, hafi gefið Samfylkingunni nýtt líf í pólitík.

Björn Bjarnason: Ég er alveg sammála því mati Morgunblaðsins og Styrmis Gunnarssonar sem er náttúrulega höfundurinn að þessum kenningum sem eru ágætar og eru, eins og ég segi, margra áratuga gamlar. Ég er alveg sammála honum um það að myndun þessarar ríkisstjórnar blés nýju lífi í Samfylkinguna. Ef  Samfylkingin hefði ekki komist í stjórn að þá væru þar hjaðningavíg.

Egill: Var þetta ekki þá mistök hjá Sjálfstæðisflokknum?

Björn Bjarnason: Af hverju eru það mistök? Hvað eru mistök í því? Við berum ábyrgð á því að mynda ríkisstjórn í landinu til þess að leiða landið áfram og þjóðina áfram og hafa skýra stefnu. Og við gerum það í samvinnu við þá sem við við náum málefnalegri samstöðu með. Ég tel að það þurfi breiðari samstöðu í Reykjavík til þess að borginni sé almennilega stjórnað og ég harma það að það skuli ekki hafa tekist að skapa breiðari samstöðu um stjórn Reykjavíkurborgar.

Egill: Hefði kannski bara átt að fara eftir módelinu, ríkisstjórnarmódelinu í Reykjavík, Samfylking-Sjálfstæðisflokkur?

Björn Bjarnason: Ja, ég held raunar að það sé miklu erfiðara í borgarstjórn Reykjavíku.  Þar virðast andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa einhverja sérstaka nautn af því að lemja á Sjálfstæðisflokknum og sérstaklega Samfylkingin og líka vinstri-græn. Þannig að það virðist vera mjög erfitt að brúa þetta bil á milli ...

Egill: En er ekki hættan bara að það sé að verða þá til nýr R-listi?

Björn Bjarnason: R-listi ...

Egill: Eða einhvers kona, að þessir flokkar muni þá bjóða fram saman gegn Sjálfstæðisflokknum og ...

Björn Bjarnason: Æi ég veit það ekki ég held þau séu svo innbyrðis ósammála eins og kom fram þegar þau höfðu[völdin í] þessa 103 daga. Þau gátu ekki einu sinni komið sér saman um málefnasamning. Svo er sagt, það hafi ekki verið nein málefnástæða fyrir Ólaf F. Magnússon að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig gat maðurinn haft einhverja afstöðu í málum þegar það var enginn málefnasamningur fyrir hann til að deila um? Þannig að þetta er náttúrulega alveg stjórnlaust.

Egill: Björn það hefur verið fabúlerað talsvert um það á þessu kjörtímabili að þú sért á leiðinni út úr pólitík. Er það raunin?

Björn Bjarnason: Allir hætta í pólitík og ég sagði nú fyrir síðustu kosningar að þetta yrðu líklega síðustu kosningarnar sem ég færi í. Nú við sjáum  mann eins og John McCain, 71 árs allt í einu kemur hans tími í stjórnmálunum í Bandaríkjunum. Það er aldrei, ég er alveg tilbúinn að taka þá slagi sem mig langar til að fara í einhvern tímann en ég veit ekki hvað ég, hvar þeir verða.

Egill: Hefur eitthvað verið ákveðið um það að þú hættir sem ráðherra?

Björn Bjarnason: Ekkert verið ákveðið.

Egill: Það hefur ekkert verið ákveðið?

Björn Bjarnason: Nei.

Egill: Það er ekki satt sem að t.d. var haldið fram í hvað, tímaritinu ...

Björn Bjarnason: Hvað eru margir búnir að skrifa greinar um það að ég ætti að vera orðinn sendiherra fyrir mörgum árum. Ég sit hérna núna og tala við þig sem dómsmálaráðherra. Þessir álitsgjafar þeir hafa ekki rétt fyrir sér. Það er vandinn.

Egill: Mannlíf þóttist hafa heimildir fyrir þessu.

Björn Bjarnason: Já, Mannlíf er ekki sá pappír sem taka ber trúanlegan þegar verið er að fjalla um mína afstöðu.

Egill: Nei. En þú býst við að sitja allt kjörtímabilið.

Björn Bjarnason: Ég verð þingmaður allt kjörtímabilið það er alveg klárt.

Egill: En ekki víst að þú verðir ráðherra.

Björn Bjarnason: Nei, það er undir mér sjálfum komið hvort að ég ákveð það eða ekki.

Egill: Hefurðu ennþá ánægju af þessu?

Björn Bjarnason: Ég hef ánægju af þvíþ Á ég að segja þér það, ég er búinn að fara í gegnum svo marga slagi að ég er eiginlega kominn á það stig að ég er farinn að skemmta mér meira yfir því heldur en ég gerði. En ég er hins vegar að takast á við mjög alvarleg viðfangsefni sem dómsmálaráðherra og það eru mál sem eru ekki alltaf ánægjuleg. Því að viðfangsefnin sem við okkur blasa hjá lögreglunni og þeim sem eiga að gæta öryggis borgaranna  þau eru ekki alltaf ánægjuleg og því miður stöndum við frammi fyrir aukinni hörku á þessu sviði og stöndum frammi fyrir því að við þurfum líklega að gera tillögur um aukinn viðbúnað líka af hálfu lögreglunnar.

Egill: Erum við þá að tala um vopnabúnað?

Björn Bjarnason: Í lögum hér á Íslandi hefur alla tíð verið heimild fyrir lögregluna til að bera vopn. Og menn geta lesið ævisögu Agnars Kofoeds-Hansens sem var lögreglustjóri hér á stríðsárunum þegar hann var með menn á Laugarvatni og var að æfa lögreglumenn í vopnaburði og öðru slíku. Þannig að það er í sjálfu sér ekkert nýtt að lögreglumenn hafi heimild hér til að bera vopn. Sérsveitin er vopnuð, lögreglumenn í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli eru vopnaðir. Þurfum við að ganga lengra. Ég útiloka það ekki en ég hef ekki tekið neina ákvörðun í því heldur.

Egill: Erum við þá að tala um, hvað, erum við að tala um erlendar glæpaklíkur sem ógna okkur?

Björn Bjarnason: Já.

Egill: Telurðu að þær séu vandamál?

Björn Bjarnason: Já. Ég er þeirrar skoðunar.

Egill: Hvernig þá?

Björn Bjarnason: Ja ég ætla nú ekki að fara nákvæmlega út í það hér að útlista það hvers vegna ég tel þetta, ég tel að svo sé og það eru dæmi, nýlegt dæmi um atvik á Laugaveginum þegar ráðist var á óeinkennisklædda lögreglumenn við störf. Það voru útlendingar sem gerðu það. Og tilefnislaus árás af þessu tagi segir okkur að hér er að gerast eitthvað sem við þurfum að taka mjög alvarlega.

Egill: Það er aukin harka.

Björn Bjarnason: Aukin harka.

Egill: Og hún tengist að miklu leyti því að það eru að koma erlendir ...

Björn Bjarnason: Það eru erlendir menn sem koma hér og eru greinilega að beita öðrum aðferðum heldur en við höfum kynnst áður já.

Egill: Já en er ekki, er þetta ekki eitthvað sem við buðum heim þegar við gengum í Schengen?

Björn Bjarnason: Nei það er ekki Schengen, það er aðildin að evrópska efnahagssvæðinu sem veldur því að við opnum landamæri okkar með þessum hætti. Svo eruð þið sem viljið fara í Evrópusambandið, það þýðir ekkert fyrir ykkur að vera að tala um þetta sem eitthvað afsprengi einhverra ákvarðana sem voru teknar þegar [af ástæðulausu], þessar ákvarðanir voru teknar þegar við gengum í evrópska efnahagssvæðið. Schengen snýst um landamæraeftirlitið að framvísa passa en það snýst um miklu meira og ef að við værum utan Schengen þá hefðum við ekki aðgang að þeirri lögreglusamvinnu sem gerir okkur kleift að sinna þessu betur en ella væri.

Egill: En Björn, varalið lögreglunnar er mál sem að hefur verið á þínu borði. Ertu tilbúinn með frumvarp um það?

Björn Bjarnason: Ég er alveg tilbúinn með hugmyndir um það hvernig það á að útfærast og það hefur verið afflutt og ég vona bara að það frumvarp komi fram svo að það komi í ljós að menn eins og þú og aðrir hafið haft rangt fyrir ykkur þegar verið er að tala um þetta.

Egill: Viltu segja mér hvað er í frumvarpinu?

Björn Bjarnason: Frumvarpið gengur út á það að lögreglan hafi heimildir til þess að kalla til liðsafla  það er við mannfjöldastjórnun, við almannavarnaástand og við slíkar sérstakar aðstæðu. Þá geti hinir venjulegu lögreglumenn, hefðbundnir lögreglumenn, fastaliðið farið í að sinna hinum erfiðu verkefnum en til sé liðsafli sem geti komið og sinnt þessum daglegu störfum sem lögreglan þarf að halda gangandi líka. Og tökum dæmi t.d. eins og leiðtogafundurinn 1986. Hann bar að með svo skömmum fyrirvara að það var ekki hægt að setja einkenni á björgunarsveitarmennina sem voru kallaðir til að gæta öryggis þar. Ef að varalið væri og alveg sérstakar og skýrar reglur um það þá gætu björgunarsveitarmenn komið, fengið sína búninga og tekið þátt í þessu með þeim heimildum sem lögin myndu heimila þeim og þeir gætu sinnt þessum verkefnum. Björgunarsveitunum er ekkert vel við það að þeirra menn séu annan daginn að bjarga fólki á sjó eða á landi í sömu búningum og þeir þurfa síðan kannski að fara í einhverja mannfjöldastjórnun ef að það þarf að halda einhverju fólki í skefjum. Þetta er mjög skiljanlegt og það er líka fyrir vikið erfitt að kalla út þessa menn við þessar aðstæður, hvernig eru tryggingar, hvaða heimildir hafa þeir og svo framvegis. Þetta gengur nú út á þetta, það gengur ekki út á einhverja óeirðabíla, einhverjar vatnsbyssur eins og þið eruð að tala um. Það sýnir bara hvað álitsgjafarnir geta farið langt út um víðan völl.

Egill: En hvað á liðið á vera fjölmennt?

Björn Bjarnason: Það stendur ekki í frumvarpinu. Það er ekki, það fer eftir því væntanlega hverju sinni hvað þurfi marga men. Við höfum hér héraðslögreglumenn, þetta yrðu fyrst og fremst björgunarsveitarmenn, slökkviliðsmenn, fyrrverandi lögreglumenn og slíkir menn sem væri hægt að kalla til, þeir vissu um réttarstöðu sína ef á þyrfti að halda og gætu sinnt ...

Egill: En eru engir bílar inni í myndinni?

Björn Bjarnason: Ekki bílar.

Egill: Engir óeirðabílar?

Björn Bjarnason: Engir óeirðabílar. Við myndum vafalaust geta fengið afnot af björgunarsveitarbílum og slíkum tækjum en þá þyrftum við kannski að setja á þá einhver einkenni.

Egill: En erum við að tala um vopn, að þetta sé vopnað lið?

Björn Bjarnason: Nei þetta er nú svipað eins og héraðslögreglumenn sem hægt er kalla út um þá  gilda sambærilegar  reglur, valdheimildareglur sem gilda um lögregluna. Og ef það stigmagnast eitthvað þannig að menn þurfi að fara að grípa til vopna, að vopna slíka menn, þá er ástandið hér okkar þjóðfélagi orðið þannig að það myndu allir telja það sjálfsagt og væri furðulegt ef þeir væru ekki vopnaðir ef að það kæmist á það stig. Þá myndu menn ekkert ver að vera að spyrja, þá myndu menn frekar koma til stjórnvalda og segja, af hverju gerið þið ekki meira.

Egill: En er þetta heimavarnarlið eða eitthvað svoleiðis?

Björn Bjarnason: Nei, nei, nei.

Egill: Myndirðu vilja stofna heimavarnarlið líka?

Björn Bjarnason: Heyrðu það er allt önnur umræða.

Egill: Já ég spyr.

Björn Bjarnason: Hermálin er allt önnur umræða og ég er sammála því frumvarpi sem utanríkisráðherra hefur lagt fram um varnarmálastofnun og í því frumvarpi, 1. grein er tekið fram að það frumvarp komi ekkert inn á starfssvið lögreglu eða landhelgisgæslu. Þannig að það eru alveg skil þarna á milli. Hitt er allt önnur umræða. Viljum við þjálfa menn til þess að stjórna loftvarnarkerfinu á Keflavíkurflugvelli eða viljum við bara hafa menn á Keflavíkurflugvelli sem sjá um að tengingarnar séu í lagi og ratsjárskermarnir sýni einhverjar myndir eða viljum við ef á þarf að halda hafa menn sem geta sest við tækin og farið að stjórna þeim. Ef við viljum slíka menn þá þurfum við að fara að þjálfa menn til hernaðarstarfa.

Egill: En ykkur hefur tekist að leysa þessi mál þið Ingibjörg Sólrún?

Björn Bjarnason: Já, eins og ég segi samkomulagið er gott, efnislega er niðurstaðan skynsamleg sem við erum að komast að en auðvitað er ágreiningur á milli flokkanna og það er ágreiningur og áherslumunur og ég er ekki alltaf sáttur við allt sem kemur frá okkar ágæta samstarfsfólki. En það er bara ...

Egill: Þá förum við aðeins yfir í Evrópu. Samfylkingin talar mikið um Evrópu og manni finnst það frekar magnast upp. Ingibjörg Sólrún er að tala um að, og það er náttúrulega, krónan kemur inni í þetta. Ingibjörg Sólrún talar um að krónan sé viðskiptahindrun. Finnst þér ekki Samfylkingin ganga full langt í þessum gælum sínum við Evrópusambandið?

Björn Bjarnason: Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, það er tekið kannski meira mark á því núna af að þeir eru í ríkisstjórn. En þetta hefur nú gerst í áranna rás að alltaf fyrsta árið eftir kosningar og svona fram á mitt kjörtímabilið er talað svona svo þegar menn fara að nálgast kosningar þá fara þeir kannski að koma meira niður á jörðina. Það er algjörlega fráleitt að láta eins og að stjórnmálamenn fjalli ekkert um Evrópumálin. Heyrðu við sátum í nefnd og gáfum út skýrslu, á annað hundrað blaðsíður um Evrópumálin þar sem við segjum: Við skulum bara sinna því sem við okkur blasir og nýtum okkar tækifæri til þess. Nei, nei þá fara menn að tala um eitthvað allt annað og eru á einhverju allt öðru plani og  vita ekkert hvar þeir ætla að lenda.

Egill: Nú er komin önnur Evrópunefnd nú er búið að setja aðra Evrópunefnd.

Björn Bjarnason: Ja það er svona vaktstöð.

Egill: Vaktstöð Evrópu.

Björn Bjarnason: Vaktstöð Evrópu sem á að fylgjast með því sem er að gerast. Hún hefur ekki sama hlutverk og Evrópunefnd hafði. Varðandi evruna, þá er það bara praktískt úrlausnarefni. Við höfum verið mjög pragmatískir Íslendingar í samskiptum okkar við Evrópusambandið og við njótum virðingar í Brussel og í aðildarríkjunum og í stjórnkerfi aðildarríkjanna fyrir það hvað við höfum leyst okkar samskiptamál við Evrópusambandið á praktískan og pragmatískan hátt. Ef við teljum að við þurfum að leysa einhver vandamál varðandi okkar krónu og að krónan sé orðin of lítil fyrir hin risastóru fyrirtæki sem eru að þenja sig út um allan heiminn þá verðum við bara að finna  leið og koma okkur niður á hana en ekki tala um það endalaust eins og þetta sé eitthvað óleysanlegt. Menn verða þá að setjast yfir það. Við héldum í Evrópunefndinni fundi með sérfræðingum um evruna. Það var mjög erfitt að henda reiður á því hvað þeir voru að fara. Sumt skildi ég nú bara ekki.

Egill: En þér finnst það vera, er möguleiki að sem sagt breyta þessari stefnu í gjaldmiðilsmálum með þennan fljótandi, þessa fljótandi ...?

Björn Bjarnason: Ég skrifaði grein í Þjóðmál um þetta og get nú vísað til hennar þar sem  rek ég þetta fram og til baka og ég hef verið þeirrar skoðunar að við þyrftum að fara inn í Evrópusambandið ef við ætlum að taka upp Evruna. Það hafa komið menn hér sem segja að það sé hægt [að taka hana upp utan ESB]. Hér var einhver sérfræðingur á vegum seðlabanka Evrópu fyrir einu eða tveimur árum og flutti erindi og sagði, það er brot á EES-samningnum ef þið takið einhliða upp evruna. Og þá spyr maður sig ef það er brot á EES-samningnum að taka upp einhliða evru er þá unnt með einhverju samkomulagi á grundvelli EES-samningsins að ná einhverri niðurstöðu um tengingu við evruna ef samningurinn gerir ráð fyrir því að við þurfum að taka eitthvað tillit til evrópskra stofnana í því efni. Þetta verða menn að skoða og menn verða að komast einhvern veginn í gegnum umræðurnar. Og svo veltir maður fyrir sér, hafa umræðurnar í raun og veru snúist um evru, snerust þær um evru af því að menn voru að beina athygli frá umræðum um þennan stóra hollenska banka sem reyndist of stór fyrir okkur? Hvað er raunveruleiki og hvað er svona umræða bara umræðunnar vegan?

Egill: Jæja. Það er nú samt sagt að menn séu farnir að trúa því í Brussel að við séum á leiðinni inn í Evrópusambandið.

Björn Bjarnason: Ég held að það ...

Egill: Þetta segir frændi þinn Bjarni Benediktsson að skilaboðin frá utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra sem hafa með þessi mál að gera, eru svo sterk.

Björn Bjarnason: Það finnst mér mjög óráðlegt að koma því inn því að við yrðum ekkert aðilar að Evrópusambandinu fyrr en eftir mörg ár og eins og Ólafur Stephensen sagði hér[þá þarf að breyta stjórnarskránni], ég hef aldrei setið í stjórnarskrárnefnd en ef að menn ætla að fara í gegnum þetta þá verða þeir að breyta stjórnarskránni fyrst og þeir verða að ganga skref fyrir skref og gera einhverja áætlun og koma sér saman um hana og ég á eftir að sjá það gerast hér. Ég sé ekki neina stjórnmálalega forsendu fyrir því að þetta sé aktúelt mál fyrir stjórnmálamenn og ef það á að setja það á oddinn þá munu stjórnmálaflokkarnir klofna hver á eftir öðrum. Og þurfum við á því að halda hér í þessu landi miðað við hvað við höfum góða stöðu gagnvart Evrópusambandinu? Hvaða tal er þetta?

Egill: Þú telur að stjórnmálaflokkarnir munu klofna.

Björn Bjarnason: Já, já.

Egill: Sjálfstæðisflokkur og Samfylking.

Björn Bjarnason: Já, já. Ég tel að það verði og heldur þú að stjórnmálamenn sem hafa ekki einhverja raunverulega skýra hagsmuni að verja til þess að fara inn í Evrópusambandið muni stíga þessi skref vitandi það að baklandið þeirra muni bara splundrast ef þeir fara af stað?

Egill: Ég ætla að klára þetta. Ég verð að nefna eitt mál. Það er skipun dómara í Norðurlandi eystra. Telurðu að þetta mál hafi skaða flokkinn, Sjálfstæðisflokkinn?

Björn Bjarnason: Mér sýnist nú ekki í sjálfu sér kannanir sýna það. Ég tel í grunninn sé þetta mál deila á milli framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Í grunninn er það þannig að dómararnir vilja ráða því hverjir eru dómarar og þeir sætta sig illa við að ráðherrar komi að því og þeir eru að finna alls konar formúlur til þess að binda hendur ráðherrans. Stjórnskipunin bara gerir ekki ráð fyrir því. Stjórnskipunin gerir ráð fyrir að þeir geti sagt álit sitt um hæfi en það er ráðherrans að taka ákvörðun og ráðherrann getur haft aðrar upplýsingar heldur en þessi dómnefnd hefur og þegar hann fer inn í ráðuneytið og skoðar málið þá getur hann komið að málinu með öðrum hætti, haft aðrar upplýsingar heldur en nefndin sem segir álit sitt og þess vegna haft mjög skýr rök fyrir sinni niðurstöðu.

Egill: Held ég að mönnum beri saman um að ráðherrann hafi mátt gera þetta en það er spurning síðan hvort að það hafi verið siðlegur gjörningur ...?

Björn Bjarnason: Jú auðvitað var þetta siðlegt og löglegt en menn geta deilt um þetta pólitískt og það hefur verið reynt að deila um þetta pólitískt í einn mánuð. Mig minnir að þetta hafi gerst, hvað 20. desember nú er kominn 3. febrúar.

Egill: Menn eru ekki alveg búnir að gleyma þessu strax.

Björn Bjarnason: 3. febrúar og reynt að halda þessu vakandi allan janúarmánuð í von um að draga úr fylgi Sjálfstæðisflokksins örugglega því að það er ekki ...

Egill: Er þetta bara notað, eitthvað sem er notað til þess að koma höggi á ykkur?

Björn Bjarnason: Mér sýnist að pólitískir andstæðingar okkar hafi gert það. Hvað gerist þegar skoðanakönnun kemur um fylgi flokkanna? Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt. Þannig að ef við ætlum að ...

Egill: Pétur Hafstein og Sigurður Líndal eru ekki pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins.

Björn Bjarnason: Heyrðu Sigurður Líndal skrifaði þannig um þetta að hann skrifaði sig út úr umræðunni með því að fara að líkja gjörðum Árna Mathiesens við nasisma. Það var verið að víkja þingmanni á Evrópuþinginu, Daniel Hannan, úr EPP eða hægri flokknum, þingflokknum á Evrópuþinginu, af því að hann í þingræðu fór að vísa til þess að þingflokksforsetinn væri að beita einhverjum nasískum aðferðum. Af því að það er nefnilega staðreynd að þegar menn fara út í þann forarpytt að líkja andstæðingum sínum við nasista  þá eru þeir komnir út af borðinu, þá er þeim vikið úr þingflokkum og þá er eiginlega ekki hægt að ræða sjónarmið þeirra lengur. Þetta gerði Sigurður Líndal í Fréttablaðinu.

Egill: Daniel Hannan var reyndar einu sinni í Silfri Egils.

Björn Bjarnason: Jú, jú gott. Og ég er hérna líka.

Egill: Heyrðu, ég hef víst ekki meiri tíma á þig. Við höfðum getað setið hérna lengur, Björn, það er gaman að fá þig í þáttinn. Við sjáumst vonandi seinna á þessum vettvangi.

Tími: 25:25

Fréttamaður: Egill Helgason

JÓV

Síður: 17

 


Handrit eru gefin út af Fjölmiðlavaktinni ehf.
Höfðabakka 9, 110 Reykjavík. Sími 550 9600, Fax 550 9601.
http://www.fmv.is
Ósamningsbundin dreifing er óheimil.
Fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið
fmv@fmv.is