29.1.2008

Slysavarnafélagið 80 ára.

Listasafni Íslands, 29. janúar, 2008.

 

Ég flyt Slysavarnafélagi Íslands og arftaka þess Slysavarnafélaginu Landsbjörgu heillaóskir og þakkir fyrir hið ómetanlega starf, sem þúsundir manna hafa unnið undir merkjum félagsins frá stofnun þess.

 

Félagið olli þáttaskilum í björgunarsögu þjóðarinnar og Slysavarnafélagið Landsbjörg er nú stærsta sjálfboðaliðshreyfing landsins.

 

Þorsteinn Þorsteinsson, skipstjóri, hvatti með grein í Morgunblaðið 29. janúar 1928 til þátttöku í stofnfundi félagsins. Hann taldi, að ganga mætti að því sem vísu, að hugur margra landsmanna væri nú að hneigjast að því að gera eitthvað til að draga úr sjóslysum og væri stofnun eins allsherjarfélags sjálfsagt réttasta leiðin til þess.

 

Vísaði Þorsteinn sérstaklega til hvatningar frá Guðmundi Björnssyni landlækni, sem taldi sjóslys sárasta banamein Íslendinga.

 

Þorsteinn sagði brýnast að setja byssu um borð í hvert skip, svo að skjóta mætti mjórri línu í land, ef skip strandaði. Nefndi hann til marks um hættuna hið hörmulega Ingvarsslys við Viðey 1906, þegar allir skipverjar drukknuðu við bæjardyr bjargarlausra Reykvíkinga.

 

Nú eru þessar byssur kallaðar fluglínutæki og er talið, að um 2.200 manns hafi verið bjargað úr strönduðum skipum hér við land með þessum tækjum.

 

Næst á eftir byssunni taldi Þorsteinn að stofna ætti björgunarbátastöðvar og nefndi fjóra staði til sögunnar utan Reykjavíkur.

 

Björgunarsveitir eru nú meira en 100 talsins um land allt og eiga fjórtán björgunarskip auk á annað hundrað slöngubáta og langflestar sveitirnar ráða fyrir fluglínutæki.

 

Auðvelt er að fullyrða að markmið stofnenda slysavarnafélagsins hafi náðst með miklum glæsibrag á undanförnum áratugum.

 

Hér á þessari stundu vil ég sérstaklega færa þakkir fyrir gott samstarf slysavarnafélagsins við stofnanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

 

Öflugur stuðningur félagsins leiddi til  þess, að Landhelgisgæsla Íslands eignaðist björgunarþyrlu fyrr en annars hefði orðið. Það liggur í hlutarins eðli, að öryggi sjófarenda við Ísland er ekki tryggt nema með góðu samstarfi gæslunnar og björgunarsveitanna.

 

Björgunarsveitir eru boðnar og búnar til að aðstoða lögreglu, þegar til þeirra er leitað. Ég tel brýnt, að hið góða samstarf þessara aðila fái viðurkenningu alþingis með ákvæði í lögum um varalið lögreglu.

 

Í samvinnu þessara aðila hefur orðið til öflug og virk björgunarmiðstöð við Skógarhlíð hér í Reykjavík. Nú liggur fyrir alþingi frumvarp til almannavarnalaga, þar sem lagt er til að umgjörð samhæfingar- og stjórnstöðvar miðstöðvarinnar verði lögfest.

 

Gott björgunar- og slysavarnafólk!

 

Þið sækið ekki værð í unna sigra. Starf ykkar hefur í áttatíu ár einkennst af fórnfýsi, dugnaði og ósérhlífni. Íslenska þjóðin hefur getað reitt sig á vilja og getu ykkar til að svara kallinu um hjálp, hvenær sem það berst og hvernig sem aðstæður eru.

 

Í fyrradag, sunnudaginn 27. janúar, sinntu til dæmis 170 björgunarsveitarmenn á áttunda tug útkalla um land allt vegna óveðurs.

 

Þið spyrjið hvorki um tíma né fyrirhöfn heldur gangið skipulega og óhikað til verks.

 

Hinn mikli árangur í starfi slysavarnafélagsins hefur ekki komið af sjálfu sér. Hann á upphaf í þrotlausu starfi ykkar, sem hefur áunnið ykkur og félagi ykkar einlæga virðingu og þökk allra Íslendinga.

 

Góðir áheyrendur!

 

Mér er heiður að lesa eftirfarandi bréf forsætisráðherra:

 

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun Slysavarnafélags Íslands hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að koma að uppbyggingu sögusafns félagsins og verja 2 m.kr. af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til undirbúnings verkefnisins.

 

Stofnun Slysavarnafélags Íslands markar upphaf skipulagðs björgunar- og slysavarnastarfs á Íslandi. Stórbrotin starfsemi félagsins varðveitir fjölmörg atvik þar sem öflugur hópur sjálfboðaliða hefur komið í veg fyrir slys og bjargað mannslífum og verðmætum á nóttu sem degi.

 

Ég færi félaginu á þessum tímamótum hugheilar hamingjuóskir ríkisstjórnar Íslands og þakkir fyrir fórnfúst og óeigingjarnt starf í 80 ár.

 

Geir H. Haarde

 

Vil ég biðja Sigurgeir Guðmundsson, formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar, að taka við bréfi forsætisráðherra þessu til staðfestingar.