11.5.2007

Höfnum vinstri stjórn.

Grein í Morgunblaðinu 11. maí 2007.

 

Síðustu sólarhringa hafa línur skýrst að nýju milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Markmið Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er að mynda hér sameiginlega stjórn. Þráðurinn hefur verið tekin upp frá því í haust, þegar Steingrímur J. Sigfússon sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á alþingi:

Það er gleðiefni að stjórnarandstaðan mætir nú samhentari og einbeittari til leiks en hún hefur gert að undanförnu. Hvers vegna gerum við það? Við gerum það vegna þess að við eigum okkur eitt mjög mikilvægt sameiginlegt markmið, einn sameiginlegan ásetning og það er að fella ríkisstjórnina og það er að taka við.

Þarna talaði Steingrímur J. fyrir munn eigin flokks, Samfylkingar og frjálslyndra, sem voru í þann mund að stofna kaffibandalagið um nýja ríkisstjórn að kosningum loknum, kaffibandalagið, sem ég naut 2% fylgis, þegar kjósendur voru nýlega spurðir um óskastjórn eftir 12. maí.

Morgunblaðið vekur réttilega athygli á því á forsíðu sinni í gær, að í sjónvarpsumræðum í Stöð 2 á miðvikudagskvöld, biðlaði Steingrímur J. sterklega til Samfylkingarinnar í anda ræðu sinnar á þingi. Hann sagði: „Við erum samherjar í því að fella þessa ríkisstjórn og vonandi leiðir það til farsæls samstarfs.“

Flokkarnir tveir keppast um það, hvor þeirra sé lengra til vinstri, hvor þeirra hafi betur í því að boða hér ríkisafskipti og útgjöld. Þau koma ekki til sögunnar nema með hækkun skatta, þegar tekið er mið af stefnu þeirra í efnahags- og atvinnumálum, en hún byggist á samdrætti.

Skilaboð flokkanna til fjárfesta heima og erlendis eru skýr: Nú er nóg komið, við þurfum að draga saman seglin. Stóriðja er skotspónninn, af því að flokkarnir telja hana best fallna til að draga fram græna litinn, en hjá báðum glittir í hinn rauða, hina sósíalísku forræðishyggju, sem síðast var hafnað með eftirminnilegum hætti í forsetakosningum í Frakklandi.

Flest störf hafa orðið til í fjármálageiranum á íslenskum vinnumarkaði síðustu misseri, 1000 ný störf á árinu 2006. Hér sést ávöxtur stefnu ríkisstjórnarinnar, sem leysti þessa starfsemi úr viðjum ríkisrekstrar við litla gleði stjórnarandstöðunnar. Hún var ekki heldur hrifin af því, þegar sjónarmið einkarekstrar voru kynnt til sögunnar í háskólastarfi, rannsóknum og vísindum. Þar hafa einnig orðið til hundruð nýrra starfa eins og í fjármálageiranum.

Líklega vill enginn gera sér í hugarlund, hvernig þjóðfélag væri hér, ef vinstri flokkarnir hefðu stjórnað landinu undanfarin ár, þegar tækifæri alþjóðavæðingar og einkarekstrar hafa verið nýtt með glæsilegum árangri. Tækifæri, sem flokkarnir hafa viljað hafa að engu.

Eða hvernig halda menn, að staðan væri í öryggis- og varnarmálum, ef þessir flokkar hefðu ráðið ferðinni? Reynsla mín af því að flytja tillögur um eflingu löggæslu segir mér, að innan flokkanna er mjög takmarkaður skilningur á nauðsyn árvekni á þessu sviði. Þar hefðu menn að minnsta kosti ekki átt frumkvæði að neinum tillögum um að styrkja lögreglu eða laga störf og tækjabúnað landhelgisgæslu að nýjum kröfum. Ráðandi sjónarmið hafa verið: Aukinn viðbúnaður okkar kallar aðeins á meiri hættu!

Ég skora á kjósendur, að hafna vinstri stjórn. Hún yrði stjórn afskiptasemi, ríkisútgjalda, skattheimtu og öryggisleysis. Hún yrði einfaldlega tímaskekkja miðað við sterka stöðu íslenska þjóðfélagsins og sókn þess á öllum sviðum.