11.1.2007

Skringilegar umræður

Grein í Morgunblaðinu 11. janúar, 2007.

Enn sannast, að umræður hér á landi geta þróast á hinn skringilegasta hátt. Ég ritaði grein í Morgunblaðið laugardaginn 6. janúar og upplýsti lesendur blaðsins um áhyggjur íslenskra og erlendra manna af sovéskum síldarflota í nágrenni Íslands og fimmtu herdeild kommúnista í landinu sjálfu. Vitnaði ég þar í skjöl, sem ég hef í minni vörslu.
 

Morgunblaðið vakti athygli á þessum heimildum mínum og mátti jafnvel draga þá ályktun af skrifum blaðsins, að um skjöl væri að ræða, sem hefðu verið utan seilingar sagnfræðinga og ég byggi yfir einhverju leyndarskjalasafni. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, rann á lyktina, eins og sjá má í grein hans í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann krefur mig sagna um þessi skjöl og þykist hafa gert einhverja athugun á því, hvort þau sé að finna í Þjóðskjalasafninu.

Ég hef ekki skoðað skjöl í Þjóðskjalasafninu frá þessum tíma eða öðrum og veit ekkert um þau. Á hinn bóginn get ég upplýst Mörð og aðra áhugamenn um aðgang að þessum skjölum, að til þeirra er vitnað í bók dr. Vals Ingimundarsonar Í eldlínu kalda stríðsins, sem kom út árið 1996. Valur vísaði hins vegar til annarra atriða í skjölunum en ég geri í grein minni. Bendi ég þeim, sem hafa áhuga á þessum þætti sagnfræðilegra rannsókna, að skoða að minnsta kosti hina gagnmerku heimildaskrá dr. Vals. Vekur raunar nokkra furðu, að Mörður skyldi ekki hafa flett upp í útgefnum bókum, úr því að hann hefur þennan skjalaáhuga.

Á liðnu ári sat ég undir ámæli, þegar gömul skjöl úr dóms- og kirkjumálaráðuneyti voru flutt þaðan lögum samkvæmt í Þjóðskjalasafnið. Var því jafnvel haldið fram, að þar með væri ég að skjóta undan skjölum og útiloka aðgang að þeim! Nú er ég gagnrýndur fyrir að afhenda ekki einkaskjöl í minni vörslu til Þjóðskjalasafns. Þetta er gert á þeirri átyllu, að ég haldi leynd yfir skjölum, sem þegar hefur verið vitnað til af virtum sagnfræðingi.

Hvernig væri, að menn ynnu heimavinnuna sína, áður en þeir rjúka upp til handa og fóta á opinberum vettvangi?