22.7.2006

Skálholt í 950 ár.

Skálholtshátíð, 22. júlí, 2006.

 

 

Fyrir nokkrum dögum var ég á gangi í Fossvogskirkjugarði. Á móti mér kom maður, ávarpaði mig og sagðist vilja spyrja um margra ára gamalt atvik. Hann sat í sal Norræna hússins með fjölmörgum öðrum við upphaf athafnar. Þá voru dyr opnaðar fyrir aftan áheyrendur og ég gekk fram salinn með Kristján Albertsson rithöfund sjóndapran við hönd mér og settumst við á fremsta bekk. Þetta stæði sér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, hann hefði lesið allar bækur Kristjáns og hrifist af honum en aðeins séð hann í þetta eina skipti. Síðan sagði þessi nýi göngufélagi minn: En ég man bara ekki, hvaða athöfn þetta var og því langar mig að spyrja, manst þú það.

 

Ég varð að viðurkenna, að ég gerði það ekki. Síðan hef ég velt spurningu hans fyrir mér og tel mig nú hafa áttað mig á því, hvaða stund það var, sem við áttum þarna saman. Það skiptir í raun ekki máli, heldur hitt, að þetta augnablik í Norræna húsinu skuli lifa svona sterkt í minningu þessa manns.

 

Við getum rétt ímyndað okkur, góðir áheyrendur, öll ógleymanlegu augnablikin hér í Skálholti á árunum níu hundruð og fimmtíu, sem liðin eru frá vígslu fyrsta íslenska biskupsins, Ísleifs Gissurarsonar. Mörg þeirra standa allri þjóðinni fyrir hugskotssjónum og eru svo greipt í sögu hennar, að þau verða aldrei afmáð.

 

Fyrir hinu er þó ekki frekar trygging en hjá okkur göngumönnunum í Fossvogskirkjugarði, að við áttum okkur á allri umgjörðinni, þegar atvikið gerðist eða hvers vegna það gerðist. Skálholtsstaður hefur raunar mátt þola það, að verða næstum gleymdur þjóðinni, þrátt fyrir söguna miklu og atburðina alla, sem hér hafa gerst.  

 

Á fyrstu Skálholtshátíðinni, sem haldin var 21. ágúst 1949 prédikaði séra Sigurbjörn Einarsson síðar biskup og sagði: „Skálholt er rúst, ekki steinn yfir steini.“ En þeir séra Sigurður Pálsson og aðrir velunnarar Skálholts létu það ekki aftra sér. Með þá sannfæringu að leiðarljósi, að farsæld þjóðar, lífshæfni hennar og lífsheill væri að verulegu leyti undir því komin, hvernig hún rækti minningar sínar hófu þeir baráttu fyrir endurreisn Skálholts.

 

Og enn er haldin hátíð í Skálholti í dag til að fagna stórafmæli og glæsilegum árangri síðustu 50 ára við að koma staðnum í það horf, sem við nú þekkjum.

 

Mér þykir sérstaklega vænt um að fá tækifæri til að flytja þessi fáu orð og kveðju, þegar formlega er tekið á móti bókum og nótum frá hjónunum Agnesi og Jaap Schröder.

 

Þau ágætu hjón eru í raun lifandi vitnisburður um einstök áhrif Skálholts. Ég hef átt þess kost að heimsækja unaðsreit þeirra í franskri sveit tvö hundruð kílómetra fyrir sunnan París. Í stað þess að njóta sumarblíðunnar þar hafa þau um langt árabil heimsótt Skálholt. Jaap Schröder hefur lagt einstaklega mikið af mörkum til tónlistar hér með túlkun sinni og leiðsögn – auk þess sem hann ber hróður staðarins víða um lönd með Skálholtskvartettinum. Mér er ógleymanlegt, þegar ég hlýddi á kvartettinn leika í þéttsetinni klausturkirkjunni í franska bænum Massey nú í vor.

 

Í hinum góða hug Schröder-hjónanna til Skálholts og virðingu þeirra fyrir tónlistarstarfinu hér felst mikil viðurkenning - hún er ekki minna virði en gjöfin sjálf, sem seint verður að fullu metin.

 

Já, Skálholt höfðar ekki aðeins til okkar Íslendinga. Skírskotun staðarins virðir engin landamæri nú frekar en fyrr á öldum. Miklu skiptir að kynning á Skálholti haldi í við kröfur tímans. Ég er viss um, að einhver hefur spurt við komuna hingað: Hvers vegna er ég hér? Hvað er svona merkilegt við þennan stað?

 

Herra Sigurður Sigurðarson vígslubiskup skýrði mér frá því í bréfi síðastliðinn vetur, að hann teldi Skálholt vera dragast nokkuð aftur úr í þjónustu við ferðamenn miðað við húsakynni til fræðslu og sýninga, sem reist hafa verið á ferðamannastöðum hér í kring. Þætti sér sannarlega fara vel á því, að í Skálholti mætti stofna til sýningar um staðinn og sögu kirkjunnar í landinu, auk sýninga um bókmenntasögu og fleiri þætti menningarlífsins. Og í bréfi vígslubiskups segir: „Raunar virðist líka blasa við, að hinar yngri kynslóðir Íslendinga þurfa sýnilegri hluti til að skynja sögu staðarins en hinir eldri, sem kunna söguna og finna hana jafnvel anda upp úr grænum sverði.“

 

Þessi tilvitnuðu orð víkja að hinu sama og ég sagði frá í upphafi, að eitt er að eiga ógleymanlegt augnablik og annað að vilja einnig setja það í rétt samhengi til að njóta þess enn betur. Við þurfum að tryggja að þetta hvoru tveggja verði, þegar fólk kemur hingað í Skálholt. Um leið og það hrífst af staðnum gefist færi á að tengja hann minningu aldanna – svo að ég vitni að nýju í predikun séra Sigurbjörns frá fyrstu Skálholtshátíð: „Það er staðreynd, sem sagan staðfestir með mörgum, órækum dæmum, að þar sem tengslin voru traust milli feðra og niðja, milli farinna og komandi kynslóða, þar var þjóðlíf traust og þjóð sterk.“

 

 

Góðir áheyrendur!

 

Á fundi sínum þriðjudaginn 18. júlí síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um, að gengið yrði til samninga við stjórn Skálholtsstaðar undir forystu vígslubiskups og kirkjuráð um hlut ríkisins, ef í það verður ráðist að reisa hér byggingu í tengslum við Skálholtsskóla, sem verði til þess, að hér sé í senn unnt að taka á móti ferðamönnum og kynna þeim sögu staðarins og búa sómasamlega að bókakosti hans.

 

Í tilefni þessa stóra afmælis, sem við fögnum sérstaklega á Skálholtshátíð 2006, er ríkissjóður með öðrum orðum tilbúinn að skuldbinda sig á þann veg, að unnt verði að ráðast hér í fyrirhugaða og nauðsynlega framkvæmd til að styrkja enn frekar sess Skálholts í huga þjóðarinnar og þeirra, sem hingað leggja leið sína.

 

Ég færi Skálholti og öllum, sem staðnum unna, innilegar hamingjuóskir í tilefni þessa merka afmælis í vissu þess, að Skálholt á aðeins eftir að vaxa enn og dafna í samræmi við sögu sína og helgi.