15.2.2006

Gylfi Gíslason - minning.

Morgunblaðið 15. febrúar, 2006.

Á lífsins leið verða einstaklingar, sem kynnst er í dagsins önn, misjafnlega minnisstæðir. Leiðir okkar Gylfa Gíslasonar lágu saman vegna áhuga hans á Þingvöllum og viðgangi þjóðgarðsins þar.

Sumarmorgun fyrir nokkrum árum varð uppi fótur og fit á ráðherraskrifstofunni í menntamálaráðuneytinu, þegar þangað kom sveittur og móður gestur, sem sagðist tafarlaust þurfa að hitta ráðherrann. Þar var Gylfi Gíslason á ferð og taldi sig eiga svo brýnt erindi við mig vegna málefna Þingvalla, að hann hafði hjólað þaðan um nóttina til að ræða við mig, um leið og ég kæmi til starfa.

Samtal okkar varð til að sannfæra mig um einlægan áhuga Gylfa á því, að halda hlut Þingvalla sem best fram og kynna þjóðgarðinn á þann veg, sem sæmdi. Allt, sem Gylfi vann fyrir Þingvallanefnd, gerði hann af einstakri alúð með virðingu og ást á staðnum að leiðarljósi.

Vegna korta og kynningarefnis, sem Gylfi Gíslason vann fyrir Þingvallanefnd, verður nafn hans tengt Þingvöllum um ókomin ár.

Kynni okkar Gylfa snerust ekki aðeins um Þingvelli og hvort sem ég hitti hann á förnum vegi eða hann kom til fundar við mig, skildi ég við hann með nýja hugmynd eða verkefni til umhugsunar. Hann lauk því miður ekki öllu, sem við höfðum á döfinni, en minning hans lifir og mér þykir vænt um, að leiðir okkar lágu saman.