20.8.2005

Saltið og ljósið.

Setning 10. kirkjulistahátíðar, Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2005.

 

Við setningu 10. kirkjulistahátíðar  Hallgrímskirkju er okkur, sem hingað komum, þakklæti ofarlega í huga. Þakklæti til þeirra, sem hafa af stórhug efnt til hátíðarinnar og skapað henni verðugan sess í menningar- og kirkjustarfi þjóðarinnar.

Listsköpun til heiðurs Kristi innan veggja kirkjunnar breytti Evrópu í vöggu vestrænnar menningar. Stórvirkin, sem unnin hafa verið undir þeim merkjum, eru eilíf og sífelld uppspretta gleði og lotningar.

Kirkjulistahátíð Hallgrímskirkju er einnig stórvirki og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með henni festast í sessi, án þess að horfið sé frá því markmiði hátíðarinnar, að helga hana kristilegri og kirkjulegri list. Að því leyti einu er hún einstök í íslensku menningarlífi.

Kjörorð hátíðarinnar er að þessu sinni: Þér eruð salt jarðar, og þau standa í Matteusarguðspjalli, þar sem guðspjallamaðurinn segir:

„Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“

Þessi orð guðspjallsins ættu í raun öll að vera einkunnarorð kirkjulistahátíðar. Í þeim felst áskorun, sem hvetur til sköpunar í nafni Krists. Orðin minna okkur á nauðsyn þess, að maðurinn setji sér háleit og skapandi markmið, svo að líf hans dofni ekki og verði einskis virði.

Hallgrímskirkja er kennileiti í borginni, sem engum dylst og nú hefst hér enn á ný hátíð, sem lýsir öllum í húsinu.

Hátíð hefur ekki aðeins gildi fyrir þá, sem fá tækifæri til að njóta hennar sem þátttakendur eða áhorfendur, hún leysir nýja sköpunarkrafta úr læðingi og verður þannig varanleg, þótt henni ljúki.

Slík hátíð er nú haldin í tíunda sinn hér í Hallgrímskirkju og fyrir hana erum við þakklát. Hún er ljós meðal manna.

Gleðilega kirkjulistahátíð!