24.6.2005

Kirkjudagar

Hallgrímskirkju, 24. júní, 2005. 

Ég óska kirkjunni til hamingju með kirkjudagana. Þeir endurspegla hið mikla og fjölbreytta starf, sem unnið er innan vébanda kirkjunnar. Hér fáum við að kynnast því, hve safnaðarstarf kirkjunnar nær til margra þátta og hve mörg viðfangsefni eru á dagskrá þeirra, sem sinna störfum í nafni kirkjunnar.

 

Megintilgangur daganna er að sjálfsögðu að laða sem flesta að starfi kirkjunnar. Þetta er sjálfsagt og gott markmið, án góðra tengsla við söfnuð sinn eru kirkjunnar menn ekki að rækja hlutverk sitt.  Í raun réttri gætu kristnir menn með góðri samvisku efnt til kirkjudaga allan ársins hring.

 

Gleði, tilbeiðsla og kynning á kristninni. Hverjir ættu fremur að gleðjast en þeir sem heyrt hafa og meðtekið þann fagnaðarboðskap sem öllum stendur ofar? Hverjir ættu fremur að tilbiðja en þeir sem eiga orð Guðs með sjálfum sér og játa Jesúm Krist, son hans, sem frelsara sinn? Hverjir ættu fremur að leitast við að kynna starf sitt og trú meðal annarra en einmitt þeir sem hafa hinn mesta fögnuð að boða?

 

Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. Þetta setti Jesús Kristur lærisveinum sínum fyrir hinn fyrsta hvítasunnudag og eftir þessari skipun hefur kirkja hans síðan unnið.

 

Sá maður vinnur gott verk og sjálfsagt betra verk en hann veit, sem kynnir Jesúm Krist fyrir öðrum manni.

 

Með þeim kirkjudögum sem nú hefjast sýnir kirkja Krists á Íslandi starfið í eigin röðum og hvernig hún stendur að málum. Þá er stoðfnað til umræðna um, hvernig mikilvægt starf kirkjunnar verður best unnið, hvað hefur tekist vel og hvað má betur fara.

 

Þessu má fagna, enda skiptir verulegu máli að vel takist til í kirkjulegu starfi. Vitaskuld þarf ekki að taka fram, að kirkjustarf og kristileg boðun hlýtur í öllu að lúta þeim lögmálum einum sem kirkjunni hefur frá öndverðu verið trúað fyrir.

 

Kirkjan veit vel, að sá boðskapur sem hún flytur er ekki hennar eigin heldur að ofan kominn. Sú staðreynd kann af og til að verða til þess, að boðun kirkjunnar og vinsælustu dægurviðhorf fara í sumum efnum heldur á mis. Við því getur kirkjan  ekki brugðist á annan veg en þann að standa fast við þau sjónarmið sem henni hafa verið lögð til, og sjá flestir, að annars og meira verður ekki af henni krafist.

 

Með því er hins vegar ekki sagt að kirkjan eigi ekki að kosta kapps um að ná eyrum allra. Það á hún einmitt að gera. Fyrir kirkjuna var lagt að gera allar þjóðir að lærisveinum.

 

Sú skylda er lögð á okkur kristna menn að bera orð Guðs til þeirra sem ekki hafa kynnst því, færa þeim þá gjöf, sem getur orðið þeim öllum öðrum dýrmætari. Kirkjan hlýtur jafnan að leita bestu leiða til þess að rísa undir sínu mikla hlutverki, að kynna öllum Guðs orð eins og það er og hefur einlægt verið. Aðferðir geta breyst, en Orðið, það breytist ekki.

 

Góðir áheyrendur.

 

Það er von mín að kirkjudagar takist vel og verði öllum, sem þá sækja bæði ánægja og ávinningur. Ég vona, að þeir verði okkur tilefni til að gleðjast yfir þeirri gjöf, sem gefin var og öllum mönnum ætluð, tilefni til þess að tilbiðja Guð, sem er yfir okkur öllum, og vettvangur til þess að kynna hið kristilega starf, sem unnið er um Ísland allt. Ég bið kirkjudögum og öllum, sem að þeim koma Guðs blessunar.