6.11.2004

Kristniboðsfélag kvenna 100 ára.

Breiðholtskirkju, 6. nóvember, 2004.

 

 

Það er mér sérstök ánægja að færa Kristniboðsfélagi kvenna hamingjuóskir mínar á aldarafmæli þess.

 

Eitt hundrað ár eru langur starfstími eins félags, en verkefnið sem konurnar í Kristniboðsfélagi kvenna hafa stutt af svo mikilli trúmennsku allan þennan tíma, er engin dægurfluga.

 

„Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum“, bauð sá sem allt vald var gefið á himni og jörðu. „Skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið

þeim að halda allt sem ég hef boðið yður“, sagði Jesús Kristur.

 

Í þessum anda hefur verið starfað í íslenskri kristniboðshreyfingu um langan aldur.

 

Kristniboðsfélag kvenna hefur stutt við bakið á íslenskum kristniboðum, jafnt með gjöfum sem fyrirbænum og hvatningu.

 

Félagið hóf að styðja Ólaf Ólafsson og starf hans í Kína á öðrum áratug síðustu aldar og eftir að Kína

var lokað kristniboðum, beindist starfið til Afríku.

 

Íslenskir kristniboðar hafa unnið glæsilegt starf bæði í Eþíópíu og Kenýju og Guðs orð berst þar sífellt fleirum til eyrna.

 

Víða hefur mikil trúarvakning orðið og segja má með sanni, að árangur kristniboðanna í Afríku sé gleðilegt dæmi um það hvernig feiknarstórt tré getur vaxið af smáu frækorni.

 

Sá vinnur gott verk sem kynnir Jesúm Krist fyrir öðrum manni; á sinn hátt getur það orðið nokkurs konar andleg lífgjöf.

 

Íslenskir kristniboðar og íslenskir kristniboðsvinir að baki þeim, geta glaðst yfir mörgu slíku verki.

 

Kristniboðsfélag kvenna getur horft stolt til sögu sinnar um leið og það lítur til framtíðar í þeirri von að því megi lengi auðnast að leggja sitt af mörkum við útbreiðslu Guðs orðs.

 

Ég færi félaginu innilegar þakkir og hamingjuóskir á þessum merku tímamótum og bið starfi þess blessunar enn um langa framtíð.