Minningarorð um Gylfa Þ. Gíslason
Morgunblaðið, 27. ágúst, 2004.
Gylfi Þ. Gíslason komst þannig að orði, þegar hann ávarpaði Dani við afhendingu handritanna vorið 1971, að með lausn þessa síðasta deilumáls í aldalangri sambúð Dana og Íslendinga þætti okkur Íslendingum, að við værum að stíga spor í áttina til himanríkis - og hann bætti því við, að við hefðum sannarlega ekkert á móti því, að Danir kæmust þangað líka.
Til þessara orða vitnaði ég á hátíðarsamkomu til heiðurs Gylfa Þ. Gíslasyni áttræðum og geri það á ný í hinstu kveðju til hans. Þegar Gylfi tók á móti handritunum var komið að lokum 15 ára farsæls ferils hans sem menntamálaráðherra. Í því embætti stuðlaði hann mjög að hinni farsælu lausn handritamálsins.
Dr. Gylfi Þ. Gíslason sameinaði fortíð, samtíð og framtíð, flutti með sér hið góða og skilaði því heilu til sporgöngumannanna. Faðir hans Þorsteinn Gíslason fæddist árið 1867 og starfaði við blaðamennsku og ritstjórn samfellt í 43 ár. Hinir áhrifamiklu feðgar hafa með ævistarfi sínu sett svip sinn á Íslandssöguna í meira en heila öld, og víða lagt gott lóð á vogarskálina.
Enginn hefur lengur verið menntamálaráðherra á Íslandi en Gylfi. Var flest í föstum og traustum skorðum í skólakerfinu, þar til undir lok ráðherratímans, þegar viðhorf, sem síðan eru kennd við umrótið '68, fóru að gera vart við sig.
Áhugi Gylfa á menningu og fögrum listum hefur verið öllum ljós. Glæsileg framganga hans á þeim vettvangi hefur orðið mörgum góðum listamanni hvatning til frekari dáða.
Dr. Gylfi var ekki heimóttarlegur einangrunarsinni heldur taldi hann Íslendinga standa menningarlega jafnfætis fjölmennari þjóðum og þyrftu þeir þess vegna ekki að óttast náin samskipti við þær. Á meðan heilsa og kraftar leyfðu var hann óþreytandi við að kynna íslenska menningu á erlendum vettvangi og rækta fjölbreytt tengsl við aðrar þjóðir.
Sem viðskiptaráðherra vann dr. Gylfi markvisst að því, að íslenskt hagkerfi þróaðist til þátttöku í alþjóðlegu fríverslunarsamstarfi, hvort heldur á vettvangi GATT eða EFTA. Var á þann hátt lagður grunnur að þeirri efnalegu hagsæld, sem frjáls heimsviðskipti hafa skapað okkur Íslendingum eins og öðrum þjóðum.
Öll mótunarár mín í framhaldsskóla og háskóla ólst ég í foreldrahúsum upp við náið pólitískt samstarf föður míns og Gylfa. Voru þau til dæmis ófá símtölin, sem þeir áttu, utan hins hefðbundna vinnutíma.
Hefur Gylfi gefið þá réttu meginskýringu á langlífi viðreisnarstjórnarinnar, hve gott persónulegt samstarf tókst með ráðherrum hennar. Eða eins og hann orðaði það, að „þá beri samstarf flokka og manna beztan árangur, ef það mótast af heiðarleika og gagnkvæmum trúnaði. Vinni einn stjórnmálamaður með öðrum, verður að ríkja traust milli þeirra. Þá mega engin brögð vera í tafli.“
Minning mín um þetta farsæla, langvinna samstarf ólíkra manna úr ólíkum flokkum er á þennan veg. Fjölskyldur okkar tengdust einnig öðrum böndum og vil ég enn á kveðjustundu þakka Gylfa og Guðrúnu Vilmundardóttur, eiginkonu hans og stoð hans og styttu, þá samfylgd alla, sem á stundum hefur snortið okkur mjög djúpt.
Ég flyt frú Guðrúnu, sonum þeirra hjóna og öllum ástvinum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Gylfa Þ. Gíslasonar.