14.5.2004

Minningarorð um Harald Guðmundsson.

Morgunblaðið, 14. 05. 04

Nú eru tæp 34 ár, frá því að Haraldur Guðmundsson ók foreldrum mínum í ráðherrabílnum í síðasta sinn. Það var áður en við Rut eignuðumst okkar börn, en þau hafa engu að síður alist upp við, að Haraldur og Valdís, hans ágæta kona, væru þátttakendur í stórum stundum fjölskyldunnar og nutu vináttu þeirra hjóna og góðvildar.

Við kveðjum því öll Harald með söknuði á þessari stundu og þökkum góð kynni undanfarin 45 ár eða frá því að hann kom inn í fjölskylduna í Háuhlíð við myndun viðreisnarstjórnarinnar árið 1959, þegar hann varð bílstjóri hjá föður mínum og auðveldaði honum síðan störfin allt til dauðadags. Var með þeim góð vinátta og gagnkvæm virðing, sem aldrei féll á skuggi, þótt þeir væru ekki endilega sammála í stjórnmálum.

Haraldur var lipur og greiðvikinn auk þess að vera einstaklega traustur bílstjóri, sem aldrei tók neina áhættu og skilaði farþegum sínum af öryggi á leiðarenda. Á þessum árum var bílaeign ekki eins almenn og nú á tímum og hjá okkur var ekki aðgangur að öðrum bíl en þeim, sem Haraldur ók, svo að hann sinnti af ljúfmennsku ýmsum snúningum fyrir móður mína og oft fengum við systkinin að sitja í á milli staða.

Haraldur bjó mig undir bílpróf á sínum tíma, þannig að hjá honum fékk ég þá leiðsögn í akstri, sem hefur dugað mér vel alla tíð síðan. Við Hrafn, mágur minn, keyptum af honum gamlan og virðulegan bíl, sem var einstaklega vel með farinn og vakti athygli fyrir glæsileika. Við vissum, að ekki þurfti að kvíða því, að fyrri eigandi bílsins, hefði ekki hugsað vel um gripinn.

Haraldur naut elliáranna vel ef marka má gleði hans og veldvildina frá honum í hvert sinn, sem við hittumst. Á kveðjustundu þökkum við honum góða og langa samfylgd og sendum Valdísi, Guðrúnu, dóttur þeirra, Guðlaugi manni hennar og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Haralds Guðmundssonar.