1.12.2003

Spegill, spegill....

Fréttablaðið, 1. desember, 2003.

 

 

Fréttablaðið fer mikinn þessa daga vegna ákvörðunar meirihluta útvarpsráðs um að nefnd innan Ríkisútvarpsins skuli búa þannig um hnúta, að fréttareglur gildi um fréttatengda þætti þess.

Fréttablaðið kýs að ræða málið á þeirri forsendu, að um aðför að starfsmönnum útvarpsins sé að ræða, þegar þess er óskað, að þeir starfi í samræmi við landslög og reglur, sem eiga að tryggja óhlutdrægni og að tekið sé tillit til þeirra, sem telja á sig hallað á ómálefnalegan hátt.

Í Fréttablaðinu hefur Friðrik Páll Jónsson, ritstjóri Spegilsins, talið þessa ákvörðun útvarpsráðs beinast sérstaklega að sér og eigi hún rætur í því sem hann kallar rógsherferð á hendur sér, sem stunduð sé af útvarpsstjóra, formanni útvarpsráðs og mér.

 

Þessi yfirlýsing er sérkennileg, þegar ég lít til þess,  sem ég hef sagt um Spegilinn. Er það að finna á vefsíðu minni bjorn.is. Fyrstu ummæli mín féllu hinn 23. ágúst 2003 og þá sagði ég:

 

“Af fréttabréfi vinstri/grænna er ljóst, að ánægja er í þeirra hópi með fréttastofu hljóðvarps ríkisins og Spegillinn á þar skilningsríkan markhóp. Raunar er sá þáttur oft eins og kennslustund í því, hvernig fréttir eru matreiddar frá vinstrisinnuðum sjónarhóli.... Gæðastimpill fréttastofunnar kemur frá þeim, sem eru lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Hið sérkennilega er, að þetta þykir engum sérstökum tíðindum sæta, vera bæði sjálfsagt og eðlilegt. Segjum sem svo, að frjálshyggjumenn hrósuðu fréttaflutningi hljóðvarps ríkisins eða teldu skoðanamótandi þátt á vegum þess sér mjög að skapi. Ætli það þætti ekki sérstökum tíðindum sæta? Jafnvel á fréttastofunni sjálfri?”

Hinn 5. október 2003 sagði ég:

“Þráinn Bertelsson, sem á sínum tíma var ritstjóri Þjóðviljans, er nú meðal dálkahöfunda Fréttablaðsins. Hann skrifar meðal annars um fjölmiðla í það blað og sagði þar hinn 3. október: „Spegillinn er vinstrisinnað fréttaskýringarprógramm sem yfirleitt er gaman að hlusta á.“

Fagnaðarefni væri, ef stjórnendur fréttastofu hljóðvarps ríkisins tækju af skarið og kynntu Spegilinn með þessum formerkjum, svo að  hlustendum þáttarins væri ljóst, að í Speglinum gæfist þeim kostur á að líta atburði í vinstrisinnaðri skuggsjá. Flaggskip eiga að sjálfsögðu að hreykja sér af fána sínum.”

Mér þykir helst til langt seilst, ef því er haldið fram, að þetta sé rógur af minni hálfu um útvarpsþáttinn Spegilinn. Frá mínum bæjardyrum séð er það ákvörðun stjórnenda Ríkisútvarpsins að heimila mönnum að matreiða fréttir að hætti vinstrisinna. Að líta á það sem róg að hafa þessa skoðun er til marks um sérkennilega ályktun.

Víða tíðkast á fjölmiðlum að leyfa fleiri en einni rödd að heyrast við fréttaútlistun og skýringar. Til dæmis réð hið heldur vinstrisinnaða The New York Times, sem gefur tóninn í bandarískri fjölmiðlun, nýlega David Brooks sem dálkahöfund, vegna þess að hann gagnrýnir vinstrisinna og sjónarmið þeirra. Fyrir er á blaðinu dálkahöfundurinn William Safire, sem er orðinn 73 ára, en hefur í mörg ár haldið uppi andófi gegn vinstrimennsku á síðum þess.  Um grundvallarskoðanir þessara manna og viðhorf þeirra til manna og málefna er rætt, án þess að þeir telji um róg að ræða, enda hika þeir ekki við að standa við orð og skoðanir og vilja ekki fara í felur með þær.

Umræðurnar um Spegilinn á síðum Fréttablaðsins eru því marki brenndar, að þar er í fyrsta lagi hallað réttu máli, þegar rætt er um hlut minn í nýlegri ákvörðun útvarpsráðs. Ég kom þar hvergi nærri og heyrði fyrst um málið í fjölmiðlum. Í öðru lagi er hvað eftir annað látið í veðri vaka, að áhugi minn á vinstri slagsíðu Spegilsins sé sprottinn af einhverri óvild í garð þeirra, sem þar starfa, þegar ég geri ekki annað en vekja athygli á sjónarmiðum þeirra, sem telja það þættinum til framdráttar, að hann sé vinstrisinnaður.

Það yrði vissulega skemmtilegt nýmæli og til fjölbreytni, ef Ríkisútvarpið færi að dæmi The New York Times við val á þeim, sem hafa það verkefni að leggja út af fréttum og matreiða þær með ákveðin sjónarmið í huga.

Björn Bjarnason.