Ýmir, tónlistarhús Karlakórs Reykjavíkur
Ýmir,
hús Karlakórs Reykjavíkur,
vígt 30. janúar 2000.
Ég tek undir með öðrum og óska Karlakór Reykjavíkur innilega til hamingju með daginn, þegar þessum langþráða áfanga er náð og hin glæsilega sönghöll Ýmir er vígð.
Við sem búum hér í nágrenni við Ými höfum fylgst með því, hvernig líf hefur smátt og smátt verið að færast í húsið á undanförnum misserum. Ljóst er, að síðustu vikur hafa menn lagt nótt við nýtan dag til að ljúka framkvæmdum.
Á það hefur verið minnt, að þessi sexhyrnda bygging er fyrsta sérbyggða húsið fyrir tónlist í Reykjavík síðan Lúðrasveit Reykjavíkur reisti Hljómskálann árið 1923.
Ríkisstjórn og borgarstjórn Reykjavíkur hafa nú tekið höndum saman um að reisa tónlistarhús við höfnina, í hjarta Reykjavíkur. Sameiginlega og skipulega er unnið að því að hrinda þeirri ákvörðun í framkvæmd, en ekki er nema rúmt ár liðið síðan ríki og borg staðfestu sameiginlegan vilja sinn í þessu efni. Verður ekki hvikað frá honum.
Að sjálfsögðu liggur það ekki í hlutarins eðli, að karlakórar standi í stórframkvæmdum af því tagi, sem við kynnumst hér. Má ætla, að á þeim tæpa aldarfjórðungi, sem liðinn er frá því að Reykjavíkurborg gaf kórnum þessa lóð á 50 ára afmæli hans, hafi einmitt oft vaknað spurningar um hlutverk Karlakórs Reykjavíkur í þessu efni. Kórfélagar héldu merkinu hins vegar hátt á loft á þessu sviði eins og öðrum og hér stöndum við í dag og þökkum fórnfúst og ómetanlegt starf.
Menningarárið 2000 hófst með formlegum hætti í gær. Er ánægjulegt, að á öðrum degi þess, komi þessi glæsilegi salur til sögunnar. Verður hann strax vettvangur menningarársins með tónleikum undir forsjá Tónskáldafélags Íslands með þátttöku góðra kóra, sem kynna íslenska tónlist frá fyrri hluta 20. aldar.
Vígsla Ýmis í dag minnir okkur á, að við tjöldum ekki til eins árs, þegar við eflum menningarstarf á öllum sviðum árið 2000. Við erum með því að búa í haginn til langrar framtíðar.
Hér í þessu húsi eiga margir eftir að flytja tónlist og njóta hennar. Bætt starfsaðstaða fyrir tónlistarmenn verður til þess, að þeir gera enn betur og fleiri koma til að hlusta á þá. Á það eftir að sannast hér eins og gerðist, eftir að Salurinn í Kópavogi kom til sögunnar fyrir rúmu ári. Hinum skapandi, listræna krafti eru engin takmörk sett.
Ég ítreka hamingjuóskir mínar til Karlakórs Reykjavíkur og allra, sem unna tónlist á Íslandi, þegar við heyrum fyrstu tónleikana í þessum glæsilega sal.
Megi Ýmir verða öllum til heilla og ánægju!