29.1.2000

Claudio Parmiggiani - sýning Listasafn Íslands

Claudio Parmiggiani
listsýning,
Listasafni Íslands,
29. janúar 2000.

Þegar við fögnum upphafi menningarársins 2000 og staðfestum, að Reykjavík er ein af menningarborgum Evrópu, er hollt að minnast þess, að í listrænum efnum notum við mælistiku, sem mótuð var af meisturum fyrri alda. Í mörgu tilliti hefur nútímamaðurinn, þrátt fyrir alla tækni hans og þekkingu ekki náð sömu hæðum og þeir, sem risið hafa hæst í sögunni.

Í fáum löndum hefur menningin verið meiri en á Ítalíu. Hvarvetna sjáum við áhrif þaðan og enn í dag eiga Ítalir listamenn í fremstu röð, sem standa á traustum grunni en sækja fram á eigin forsendum. Claudio Parmiggiani er góður fulltrúi þeirra og við fögnum því, að hann skuli vera hér í dag ásamt prófessor Rosellu Bennati frá ítalska menningarmálaráðuneytinu og sendiherra Ítalíu á Íslandi Mochi Onory di Saluzzo og eiginkonu hans.

Menningarleg samskipti Íslendinga við Róm og Ítali má rekja langt aftur í aldir. Við eigum frásagnir af ferðum héðan á miðöldum og vitum að frá Róm var fylgst náið með ýmsu, sem hér gerðist. Án áhrifa kaþólsku kirkjunnar og menningarlegs starfs í klaustrum hennar væri íslensk menning snöggtum fátækari. Í nútímanum eru ítölsk áhrif ekki minni í öllum greinum og góðir íslenskir listamenn eins og Thor Vilhjálmsson rithöfundur hafa lagt sig sérstaklega fram um að treysta menningarleg tengsl þjóðanna.

Það var þó ekki fyrr en fyrir ári eða um miðjan janúar 1999, sem Ítalir og Íslendingar staðfestu samstarf sitt í menningarmálum með formlegum hætti. Þá rituðum við undir samning um samvinnu á sviði menningar, vísinda og tækni, sem hafði verið lengi í undirbúningi.

Í menningarmálum er það markmið samningsins að stuðla að því að efla starfsemi og tengsl menningarstofnana og samtaka, styrkja samvinnu bókasafna og annarra safna í löndunum. Þá skal unnið að samstarfi á sviði tónlistar, danslistar, myndlistar, leiklistar og kvikmyndalistar með skiptiheimsóknum listamanna og þátttöku í stórhátíðum eða öðrum mikilvægum listviðburðum.

Sýningin, sem hér er að hefjast, á verkum Claudio Parmiggiani er fyrsta yfirlitsýning á Íslandi á verkum ítalsks listamanns úr samtímanum. Hún er því löngu tímabær. Hitt er ekki síður ánægjulegt, að í morgun, þegar fyrstu geislar sólar vörpuðu birtu sinni á daginn, var kveikt á Íslandsvitanum, útilistaverki eftir Parmiggiani á Sandskeiði. Vitinn verður varanlegur minnisvarði um daginn og þennan nýja kafla í menningarlegum samskiptum Ítalíu og Íslands.

Ég óska Listasafni Íslands til hamingju með þessa glæsilegu sýningu og framlag til menningarársins 2000. Er það von mín, að íslenskar menningarstofnanir og listamenn nýti sér tækifærin sem menningarsamningurinn við Ítalíu veitir og öll þau miklu tækifæri, sem felast í menningarárinu 2000.

Megi árið verða til að efla íslenska menningu og treysta stöðu hennar heima fyrir og í veröld, þar sem allar leiðir eru opnar fyrir þá, sem hafa eitthvað eftirtektarvert og skapandi fram að færa.