13.10.1995

Írsk listahátíð á Akureyri

Ávarp við upphaf Írskrar listahátíðar á Akureyri
13. október 1995.

Góðir áheyrendur!

Fyrir skömmu bárust fréttir um það, að í þriðja sinn hefði írskt skáld hlotið Nóbeldsverðlaunin. Að allra mati er Seamus Heaney einstaklega vel að verðlaununum kominn og vil ég nota þetta tækifæri hér til að óska honum og írsku þjóðinni innilega til hamingju með þessa miklu viðurkenningu.
Er ekki unnt að hefja Írska listahátíð án þess að fagna þeim glæsilega árangri, sem Írar hafa náð í bókmenntum. Þetta ætti einnig að vera okkur Íslendingum sérstaklega ljúft. Fyrir því liggja nú góð rök, að sagnahefðin, sem hefur gert íslenska menningu að heimsmenningu, á rætur að rekja til gelískra áhrifa, þar er mikill hlutur Íra er ótvíræður.

Í erindi, sem Gísli Sigurðsson þjóðfræðingur flutti við Háskólann á Akureyri á síðasta ári, sagði hann mjög hógvært að áætla, að um 20-30% landnámsmanna á Íslandi hefðu verið af gelískum uppruna og það hlutfall sé meira en nóg til að gera ráð fyrir miklum áhrifum á sagnamenntun og skáldskaparmennt Íslendinga í öndverðu. Gísli telur einnig, að til þessa megi rekja, að íslensk menning er svo frábrugðin þeirri norsku á því sviði, þar sem Íslendingar áttu eftir að skara fram úr, eftir að þeim bættist tækni og þekking úr lærdómshefð kaþólsku kirkjunnar á miðöldum, sem dugði til að skrifa hér frægar bækur.

Jóhann Hjálmarsson kemst þannig að orði um ljóð hins kaþólska Seamus Heaneys í Morgunblaðinu, að hann hafi fært hráan írskan veruleika samtímans inn í ljóð sín og líka dulinn galdur fyrri tíma þar sem írsk þjóðsagnaminni hafa búið um sig. Ljóð hans séu sjaldan hversdagsleg og einföld heldur yfirleitt flókin og kröfuhörð þótt dæmi séu um létt og beinskeytt ljóð hjá honum.

List dróttkvæðanna mótaðist í höndum Íslendinga fyrr á öldum. Á ekki lýsing Jóhann á ljóðum Heaneys einnig við um þau gömlu kvæði? Gísli Sigurðsson bendir á, að list dróttkvæðanna hér á landi hafi mótast í höndum nafngreindra skála, sem komu frá svæðum, þar sem vitað er að Írar og Skotar, gelískt fólk, voru meðal fyrstu landnámsmanna.

Okkur Íslendingum verður oft nóg um, þegar frændur okkar í Noregi eru að eigna sér afrek forfeðra okkar og nú jafnvel líkamsleifar þeirra í Skriðdal. Ekki má skilja orð mín hér þannig, að við Íslendingar getum eignað okkur afrek Íra á sviði bókmennta. Við fögnum því hins vegar, þegar þeir skírskota til þess sagnaheims, sem við teljum íslenskan og er sprottin úr sameiginlegri menningararfleifð okkar. Við eigum sagnahefðinni það einnig að þakka, að íslensk tunga hefur varðveist. Hafi hún borist okkur frá Írum, eigum við þeim mikið að þakka.