28.5.1995

Ávarp menntamálaráðherra á Akureyri 28. maí 1995 við upphaf Landshreyfingar'95

Ávarp menntamálaráðherra við upphaf Landshreyfingar '95
- flutt við Sundlaug Akureyrar í ausandi rigningu.
Akureyri, 28. maí 1995

Góðir áheyrendur!

Tilefni þess að við hittumst hér í dag er að minna okkur sjálf og raunar alla landsmenn á gildi hreyfingar og heilbrigðis lífernis.

Við, sem sitjum við störf okkar allan daginn eða beitum huganum meira en vövðunum, þurfum ekki hreyfingu til þess eins að þjálfa líkamann, heldur einnig til að vernda sálarheill okkar. Án líkamsræktar og hreyfingar getum við ekki tekist á við þann illræmda kvilla, sem herjar mjög á okkur marga, streituna eða stressið. Í hraða og kröfuhörku samtímans hefur hið fornkveðna: Heilbrigð sál í hraustum líkama öðlast nýtt inntak. Við þurfum ekki öll að stefna að því að verða eins og grísk goð, hins vegar er það beinlínis skylda okkar að gleyma ekki gildi líkamsræktar og hreyfingar.

Við erum hér í dag til að hefja Landshreyfinguna '95. Orðið hefur tvíþætta merkingu, það minnir okkur hvert og eitt á mikilvægi hreyfingar og vísar einnig til þess, að nú er að því stefnt með markvissum hætti í annað sinn undir svipuðum merkjum að fá sem flesta um land allt til þátttöku. Þótt rigni mikið á þessari stundu, skulum við ekki láta það aftra okkur. Raunar myndu menn ekki leggja stund á útiveru á Íslandi, ef þeir létu veðurguðina ráða ferðinni.

Með þetta í huga er mér ánægjuefni að vera hér í dag. Fer sérstaklega vel á því að hefja þetta verkefni, Landshreyfing '95 hér á Akureyri, þar sem fyrsta ungmennafélagið var stofnað.

Samvinna Ungmennafélags Íslands, Sundsambands Íslands og Frjálsíþróttasambands Íslands um Landshreyfingu '95 er til fyrirmyndar. Samstarf þessara aðila minnir okkur enn á, að hér er um víðtækt átak að ræða, sem skírskotar til margra. Aðeins með slíkri skírskotun er unnt að skapa jarðveg almenns áhuga á líkamsrækt, sem síðan er öruggasta leiðin til að finna þá, sem líklegir eru til afreka í keppni heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Með Landshreyfingu 95 er höfðað til eldri sem yngri, til einstaklinga og allrar fjölskyldunnar. Allir geta tekið þátt í leik, sem miðar að samveru, ánægju og hollri hreyfingu.

Á síðasta ári, fimmtugasta afmælisári lýðveldisins, tóku um 25.000 manns þátt í Lýðveldishlaupinu. Stefnum að því, að þátttakendur verði enn fleiri í Landshreyfingu '95.

Ég lýsi því hér með yfir, að Landshreyfing '95 er hafin.