8.11.1996

Ávarp við upphaf sýningar á verkum Edvards Munchs í Listasafni Íslands

Ávarp við upphaf sýningar á verkum
Edvards Munchs í Listasafni Íslands.
8. nóvember 1996.

Sumardaginn fyrsta hafði ég þann heiður að opna hér hina glæsilegu sýningu Lífið er saltfiskur. Kjarni hennar var veggmynd meistara Kjarvals í Landsbankanum, sem máluð var um miðjan þriðja áratuginn. Sýnir hún konur við vinnu á stakkstæði.

Mér kom þetta verk Kjarvals í hug, þegar dró að þeirri sýningu eftir Edvard Munch, sem opnuð verður hér í kvöld og hlotið hefur hið skáldlega heiti: Á vængjum vinnunar.

Tvær ástæður eru fyrir þessum hugrenningum. Í fyrsta lagi viðfangsefni listamannsins, verkamenn við störf sín. Og í öðru lagi, að Kjarval sigldi í kjölfar Munchs með múrmálverki á opinberum stað, þar sem almenningur átti að geta notið þess. Árið 1916 fékk Munch það verkefni að skreyta háskólasalinn í Ósló og 1921 var honum falið að mála myndir á veggi í mötuneyti súkkulaðigerðarinnar Freiu. Eigendur hennar vildu geta notið ljómans af frægð Munchs en hann setti sem skilyrði, að verkafólk yrði viðfangsefni myndanna.

Sú spurning vaknar, hvort saltfiskmyndirnar i Landsbankanum eða mesta verk Jóns Stefánssonar, freskan af engjafólki í afgreiðslusal bankans, eigi beina fyrirmynd í afrekum Munchs í Noregi. Hvað sem svarinu líður er hitt víst, að Munch þótti æskilegt, að almenningur gæti notið listaverka á stórum flötum á opinberum stöðum.

Viljinn til að færa listina nær almenningi var eðlilegt framhald menningarlegrar þróunar á Norðurlöndum á nítjándu öld. Þá jókst þjóðernisvitund og frelsisþrá, sem leysti mikinn sköpunarmátt úr læðingi. Edvard Munch ber hæst, þegar litið er til listmálara á Norðurlöndum um aldamótin. Þeir August Strindberg beittu listrænum hæfileikum sínum til að kanna skuggahliðar mannshugans en stuðluðu einnig að því, að norrænt þjóðlíf losnaði úr gömlum viðjum. Dregur nú enginn í efa mikil áhrif þeirra í Evrópu og utan hennar, þegar litið er til rithöfunda og myndlistarmanna.

Fyrstu myndir sínar af verkafólki málaði Munch á árunum 1902 og 1903. Viðfangsefnið kallar á, að minnt sé á þá staðreynd, að hann var ekki sósíalisti, enda fer það síður en svo ætíð saman að hafa áhuga á kjörum og störfum verkamanna og aðhyllast sósíalisma. Raunar hefur það gerst í þeim ríkjum, sem um tíma báru nöfn alþýðu og sósíalisma, að óorð hefur komist á listsköpun kennda við sósíal-realisma, en hún tengist meðal annars störfum og lífi verkafólks.

List Munchs hefur verið lýst á þann veg, að hún sýni einstaklingsbundin viðbrögð við kröfum nútímasamfélags. Á sýningunni, sem hér er verið að opna fáum við tækifæri til að kynnast öðrum viðbrögðum en þeim, sem felast í sálarangist.

Vil ég ljúka máli mínu með því að þakka Munch-safninu í Ósló fyrir að senda sýninguna hingað og fagna því samstarfi, sem tekist hefur um hana milli safna í Noregi, Danmörku og hér á landi.

Loks óska ég Listasafni Íslands til hamingju með að geta boðið gestum sínum jafnstórbrotnar sýningar og nú er að finna hér í glæsilegum húsakynnum þess.