3.7.1996

Vesturfararsetur opnað á Hofsósi - ávarp

Ávarp á Hofsósi
7. júlí 1996.

Vesturfarasetur opnað.

Í huga okkar Íslendinga jafngildir það að nokkru leyti að snúa til baka að líta til Evrópu. Þótt við séum Evrópumenn og sækjum styrk okkar til menningar, sem byggist á evrópskum grunni, erum við í raun einnig Vesturfarar.

Forfeður okkar héldu af stað út í óvissuna og fundu þetta blessaða, fagra eyland okkar. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að þessi þrá til að leita í vestur blundi enn með þjóðinni og ráði því meðal annars, að hér er minni vilji en víðast annars staðar til að gerast hluti af þeim pólitíska og efnahagslega samruna, sem að er stefnt í Evrópu. Reynsla okkar af nánu samstarfi við stærsta ríki Vesturheims er einnig á þann veg, að hún spillir ekki fyrir vinarhug í þess garð.

Við erum þó ekki komin saman hér í dag til að velta fyrir okkur slíkum meginstraumum í íslensku þjóðareðli. Við erum hér vegna nýmælis í starfsemi safna á Íslandi, þegar opnuð er þessi einstæða upplýsingamiðstöð og sýning er tengist því fólki er fluttist frá Íslandi til Ameríku á 19. öld og eftir síðustu aldamót. Þessir Vesturfarar töldu sér ekki vært hér lengur vegna harðbýlis og óblíðrar náttúru.

Hér er um lofsvert samvinnuverkefni einkafyrirtækisins Snorra Þorfinnssonar og safna að ræða.

Framtakið er ekki aðeins innlent heldur er það hluti af sameiginlegu evrópsku átaki um að kalla á afkomendur Vesturfara hingað til að finna rætur sínar og setrið, sem hér verður opnað er liður í að auðvelda þeim þá leit. Í mínum huga hefur setrið þó einnig skírskotun til okkar, sem hér höfum ávallt búið.

Með því að draga upp mynd af sögulegum, efnahagslegum og umhverfislegum aðstæðum á þeim tíma þegar flestir fluttu vestur um haf, er lögð rækt við þátt í Íslandssögunni, sem ekki má falla í gleymsku. Þannig á setrið vafalaust eftir að auðvelda kennurum og skólum að fræða nemendur sína.

Hér verður einnig aðstaða fyrir fræðimenn til að rannsaka ættfræði, sögu og menningu.

Síðast en ekki síst er sérstök ástæða fyrir menntamála-ráðherra að fagna þessu setri vegna þess, að tilvist þess sannar gildi menningar- og safnastarfsemi hvers konar fyrir vöxt ferðaþjónustu.

Hér á Hofsósi er einstök aðstaða, sem hefur verið hugvitssamlega nýtt. Er í raun ævintýralegt að fylgjast með því, hve vel hefur gengið að gera Hofsós að ferða-mannastað. Þar á Ferðaþjónusta bænda miklar þakkir skilið. Athafnasemin hér kallar á framtak annars staðar.

Ég óska Hofsósbúum til hamingju með Vesturfarasetrið og aðstandendum þess heilla í störfum.