Aldan afhjúpuð á Dalvík - ávarp
Ávarp við afhjúpun listaverksins Öldunnar
Dalvík 22. júní 1996
Í upphafi máls míns vil ég óska Dalvíkurbæ til hamingju með þessa stund, þegar afhjúpað er hér nýtt listaverk Aldan eftir Jóhönnu Þórðardóttur. Jafnframt vil ég þakka fyrir, að okkur hjónum var boðið að taka þátt í þessari menningarlegu hátíð á þessum fagra degi með ykkur.
Undanfarnar vikur hefur listahátíð staðið í Reykjavík. Þótt hún sé kennd við höfuðborgina setur hátíðin svip sinn á umræður um lista- og menningarmál í landinu öllu og vonandi hafa fleiri en Reykvíkingar og næstu nágrannar þeirra haft tækiæri til að njóta þess, sem boðið er á hátíðinni.
Við setningu hátíðarinnar minnti ég á, að nýlega hefði samgönguráðherra kynnt stefnumörkun í ferðamálum. Að mínu mati er ekkert betra til að skapa nýja vídd í íslenskri ferðamennsku og festa hana enn betur í sessi sem öfluga atvinnugrein en aukin áhersla um allt land á listir og menningu. Ætti það ekki að vera erfitt, þegar litið er til hinnar miklu grósku, sem einkennir íslenskt listalíf um þessar mundir. Er gleðilegt, að í hinni nýju ferðamálstefnu setja menn sér markmið að þessu leyti.
Tel ég, að við menningarlegt framtak í ferðamálum megi læra margt af þeim, sem hafa unnið að undirbúningi Listahátíðar í Reykjavík. Hún er nú haldin í fjórtánda sinn og á þeirri vegferð hefur dýrmæt reynsla fengist, sem ætti að geta nýst öðrum.
Við skulum þó ekki gleyma því, að listar eigum við ekki aðeins að njóta til hátíðarbirgða, heldur hefur hún ekki síst gildi til að lyfta huga okkar í grámóðu hversdagsins. Um leið og staðbundin söfn, listaverk og menningarviðburðir vekja athygli gesta má ekki gera lítið úr gildinu fyrir heimafólkið sjálft.
Hið ágæta framtak ykkar Dalvíkinga að efna til samkeppni um útilistaverk hér við Ráðhúsið er til marks um lofsverðan menningarlegan áhuga. Listaverkið á eftir að setja sinn svip á bæjarlífið allt. Slík verk eru til þess fallin að minna okkur á önnur lífsgildi en þau, sem hafa að jafnaði yfirhöndina í daglegum önnum.
Listakonan Jóhanna Þórðardóttir hefur sagt, að hún sé spennt fyrir öllu einföldu og sér finnist skemmtileg glíma að takast á við einfaldleikann. Vilji hún þó myndir, sem séu einfaldar og fjölbreyttar í senn. Er greinilegt, að þetta viðhorf hennar höfðar til fleiri, því að hún hefur ekki aðeins orðið hlutskörpust í samkeppni um útilistaverk hér heldur einnig á Djúpavogi.
Verk eins og það, sem hér blasir við okkur, kemst ekki í endanlega og glæsilega mynd nema fleiri leggi hönd á plóginn en höfundurinn sjálfur. Við gerð svo stórra myndveka úr stáli þurfa að koma listasmiðir og þá eigum við einnig góða í Vélsmiðjunni Orra.
Góðir áheyrendur!
Ég vil færa Dalvíkurbæ þakkir fyrir framtakið og óska bæjarbúum, listakonunni, listasmiðunum og okkur öllum til hamingju með listaverkið Öldu. Megi það lengi standa Dalvíkingum og gestum þeirra til uppörvunar, gleði og ánægju