2.6.1996

MR 150 ára - sögusýning opnuð

Ávarp við upphaf sögusýningar Menntaskólans í Reykjavík
2. júní 1996.

Eitt hundrað og fimmtíu ár eru langur tími í sögu allra íslenskra stofnana. Rætur Menntaskólans í Reykjavík og forvera hans Lærða skólans eða Reykjavíkurskóla ná hins vegar allt aftur til latínuskólanna á biskupssetrunum, sem stofnaðir voru á elleftu öld. Saga skólans er einn af meginþráðum Íslandssögunnar. Ríkisstjórnin hefur því til viðurkenningar lagt nokkurt fé af mörkum til þeirrar sögusýningar, sem er að hefjast hér í dag.

Á síðasta ári voru 150 ár liðin frá því að endurreist Alþingi kom saman til síns fyrsta fundar. Í 35 ár var þingið haldið í hátíðarsal hins nýreista húss Lærða skólans. Ákvarðanir um að endurreisa Alþingi í Reykjavík og flytja skólann frá Bessastöðum hingað á þennan stað skiptu sköpum fyrir framtíð bæjarins.

Um þær mundir hafði Reykjavík verið kaupstaður í tæp 60 ár. Bæjarbúar voru aðeins tæplega 2% þjóðarinnar. Bærinn var að komast yfir verstu erfiðleika í sögu sinni en tók nú að vaxa og varð með réttu höfuðstaður landsins og þjóðlegur bær, eins og Klemens Jónsson landritari orðar það. Lærði skólinn og embættismenn hans urðu meðal annars til þess, að danska fór á undanhald meðal bæjarbúa. Hinn „andlegi uppgangur" Reykjavíkur hófst og úti á landi komust menn þannig að orði: „Reykjavík er sá partur landsins, sem þenkir og ályktar."

Fáar ef nokkrar opinberar stofnanir hafa í tímans rás reynst íslensku þjóðinni happadrýgri en Reykjavíkurskóli. Hann er að mótast á þeim tímum, þegar straumar 19. aldar byltinganna í Evrópu berast til landsins. Þjóðfélagsgerð gamla tímans, sem rekja má allt aftur til upphafs Íslandsbyggðar, stefndi í vaxandi kreppu um miðja öldina. Þegar skólinn er að slíta barnsskónum tekur þjóðinni að fjölga og undir lok síðustu aldar hefst þróun, sem fræðimenn hafa kallað „flugtak til nútímalegra þjóðfélagshátta."

Nú blasir við öllum, að íslenska þjóðin stendur ekki jafnfætis öðrum nema vel sé hlúð að menntun hennar. Þar skipta mótunarár æskufólksins mestu, að dugmiklu ungu fólki sé beint inn á brautir, sem gagnast því sjálfu og allri þjóðinni vel.

Af eigin reynslu hef ég eins og þúsundir annarra Íslendinga kynnst því, að í Menntaskólanum í Reykjavík fræðast menn um fortíð og nútíð og fá ómetanlegt veganesti inn í óþekkta framtíð. Fyrir það vil ég þakka og ég fullyrði, að mörgum hér á flötinni er innanbrjósts eins og Jóni Helgasyni biskupi, þegar hann sagði fyrir rúmum 50 árum:

„Hið gamla skólahús er nú senn 100 ára og munu flestir við það kannast, að enn sé það einna sviphreinast allra húsa höfuðstaðar vors. Og trúlegt þætti þeim, er þetta ritar, að þeir séu fleiri en hann, sem finnist þeir staddir á helgum stað, er leið þeirra liggur upp í skólann, svo ljúfar endurminningar, sem vakna í sálu þeirra, þó ekki sé nema við það að ganga eftir skólaganginum glugga á milli, sem er enn í dag eins og skapaður fyrir glaðværð og fjör áhyggjulausrar æsku."

Góðir áheyrendur!

Á 100 ára afmæli Menntaskólans voru þær hugmyndir á kreiki innan hans og í menntamálaráðuneytinu, að skólinn yrði fluttur héðan af þessum stað og hið sviphreina skólahús jafnvel látið víkja. Önnur sjónarmið voru í bæjarstjórn Reykjavíkur og þau sigruðu síðan endanlega fyrir 40 árum. Nú dettur vonandi engum í hug, að skólastarf leggist hér niður. Hin einstæða minningargjöf Davíðs S. Jónssonar og fjölskyldu hans um Elísabetu Sveinsdóttur eiginkonu Davíðs er enn því til staðfestu, að hér verði skólinn áfram. Um leið og þessi vinarhugur er þakkaður, skal gefið fyrirheit um, að með skjótum hætti verði unnið að því að nýta húsið fyrir skólann eftir afhendingu þess.

Nú getum við gengið um húsakynni skólans og fræðst um sögu hans og okkar sjálfra. Enga umgjörð eigum við betri en gamla skólahúsið, því að sjálft angar það af sögu, menntun og endurminningum.

Ég óska Menntaskólanum í Reykjavík heilla á þessum tímamótum og okkur öllum til hamingju með að eiga svo gamlan en síungan, frábæran skóla.

Sögusýning Menntaskólans í Reykjavík 1996 er opnuð.