24.4.1996

Lífið er saltfiskur - Kjarvalssýning, ávarp

Ávarp við upphaf sýningarinnar Lífið er saltfiskur á veggmyndum Kjarvals í Landsbanka Íslands Listasafn Íslands
25. apríl 1996.

Við komum hér saman að kvöldi sumardagsins fyrsta í Listasafni Íslands til að kynnast nýjum en þó um sjötíu ára gömlum listaverkum eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval. Listaverkin minna með sínum hætti á sumarkomuna eða að minnsta kosti á gildi sólarinnar við þurrkun saltfisks.

Nokkrar umræður hafa orðið um Listskreytingarsjóð ríkisins á síðustu misserum. Sjóðurinn hefur það hlutverk að fjármagna kaup á listaverkum í opinberar byggingar. Í stjórn hans sitja meðal annarra fulltrúar listamanna. Líta þeir á það sem hlutverk sitt að tryggja faglegt og listrænt mat við val á listaverkum og listamönnum. Ástæðan fyrir umræðum um sjóðinn undanfarið er gamalkunn, menn telja, að ekki renni nægilegt fé til hans. Þá hefur einnig verið á döfinni að breyta lögum um sjóðinn og er nauðsynlegt að ljúka því verki á nýjum forsendum fyrr en síðar.

Þegar stjórnendur Landsbankans fengu Jóhannes Sveinsson Kjarval til að mála þau verk, sem hér eru sýnd, var enginn Listskreytingarsjóður starfandi. Raunar kreppti sannarlega að í fjármálum, þegar þeim Jóni Stefánssyni og Kjarval var treyst fyrir því að listskreyta hið nýreista Landsbankahús við Austurstræti.

Sýningin hér í dag er ekki aðeins einstakur listrænn viðburður - hún ætti að verða öllum þeim, sem ráðast í smíði opinberra bygginga og annarra stórhýsa hvatning til að gleyma ekki myndlistinni við hönnun og lokafrágang. Slíkt tillit er listinni til framdráttar og njótendum hennar til ánægju. Þá er það til marks um stórhug og menningarlegan áhuga, hvernig staðið er að því að prýða mannvirki listaverkum.

Þriðji áratugurinn var Kjarval að ýmsu leyti erfiður. Hann vantaði meðal annars vinnuaðstöðu undir þaki. Engin herbergi hleyptu dagsbirtunni nægilega greiða leið inn á vinnustaðinn. Kaupgeta manna leyfði ekki kaup á listaverkum. Við þessar aðstæður fékk Kjarval þetta einstæða verkefni hjá Landsbankanum.

Í greinarflokki, sem Guðbrandur Magnússon, náinn vinur Kjarvals, ritaði í Tímann árið 1961 og kallaði Hugleiðingar á sýningu Kjarvals 75 ára, kemst hann þannig að orði, að það hafi orðið að happi fyrir sjávarútveginn, að Kjarval var fenginn til þessa verks. Og Guðbrandur segir einnig: "Það var árið, sem við misstum Spánarmarkaðinn, að mér varð laus tungan og sagði við Kaaber bankastjóra: "Þetta verður vísast sá eini saltfiskur, sem ekki fellur í verði". Og benti á mynd Kjarvals!"

Saltfiskur Kjarvals hefur síður en svo fallið í verði. Nú hefur Listasafn Íslands áréttað mikilvægi hans í list meistarans á veglegan og eftirminnilegan hátt eins og þið munuð sjá, ágætu gestir.

Raunar má segja, að það sé ævintýri líkast að við fáum notið sumra þeirra verka, sem hér eru sýnd. Þau fundust árið 1994 eftir að hafa verið í nálægt hálfa öld gleymd á lofti gamla Stýrimannaskólans í Reykjavík. Nú eru þau komin hér í fallega og hugvitsamlega umgjörð öllum til sýnis, sem áhuga hafa á að kynna sér þennan merka þátt í ævistarfi meistara Kjarvals.

Ég óska Listasafni Íslands til hamingju með sýninguna og lýsi hana opna með óskum um gleðilegt sumar.