30.3.1996

Norðulandamót í áhaldafimleikum - ávarp

Ávarp á Norðurlandamóti í áhaldafimleikum
í Laugardalshöll, 30. mars 1996

Farsæl framtíð hverrar þjóðar byggir á heilbrigðu og dugmiklu æskufólki. Það er því sérstaklega ánægjulegt að geta stuðlað að því að fimleikafólk frá öllum Norðurlöndum fái tækifæri til þess að sameinast í hollum og heillandi leik hér í Laugardalshöllinni. Þjóðir, sem eiga slíku ungu fólki á að skipa, þurfa ekki að óttst um framtíð sína.

Fimleikar eru ekki aðeins fögur íþrótt, heldur eru þeir að ýmsu leyti uppistaðan í skólaíþróttum sem allir nemendur geta stundað.

Ég bið velkomna þá fjölmörgu erlendu þátttakendur og forystumenn íþrótta, sem hingað eru komnir til að sækja Norðurlandamót í fimleikum og minni um leið á að íþróttir geta, eiga að vera og eru boðberi friðar og vináttu í samskiptum þjóða.

Í alþjóðlegum samskiptum á sviði íþrótta, á hið sama við og um aðra þætti þjóðlífs, að mikils er um vert að hafa samstarf og náin kynni af forystufólki og samtökum, sem að sömu markmiðum vinna, og er því mikilsvert fyrir íþróttahreyfinguna, að forseti Alþjóða fimleikasambandsins, Yuri Titov, skuli heimsækja okkur nú og býð ég hann sérstaklega velkominn.

Það er einlæg ósk mín að fimleikamót þetta megi vel takast og að erlendir gestir okkar eigi góðar og eftirminnanlegar minningar um leikana og dvölina hér á Íslandi.

Norðurlandamót karla og kvenna í áhaldafimleikum er hér með sett.