16.11.1997

Vefsíða Jónasar Hallgrímssonar

Vefsíða um Jónas Hallgrímsson
Akureyri 16. nóv 1997

Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar er nú haldinn hátíðlegur í annað sinn sem dagur íslenskrar tungu. Minnumst við þess, að 190 ár eru liðin frá fæðingu skáldsins.

Héðan frá Akureyri verður nú opnuð vefsíða í bókasafni Wisconsin-háskóla í Madison, háskólaborg í miðvesturríkjum í Bandaríkjanna. Á þessari síðu eru verk Jónasar Hallgrímssonar kynnt með einstæðum hætti. Fullyrði ég, að enginn átti sig á því nema hann skoði síðuna, hvílíkt þrekvirki þeir hafa unnið fyrir Jónas og íslenska menningu, sem að verkinu hafa staðið.

Þar nefni ég fyrst dr. Richard eða Dick Ringler, prófessor í enskum og norrænum fræðum, sem kom hingað til lands fyrst árið 1964 og dvaldist sumarlangt á Hólum í Hjaltadal. Hann hefur sagt, að tvær meginástæður séu fyrir því að hann þýði Jónas Hallgrímsson á ensku. Í fyrsta lagi persónulegar, þar sem þeir Jónas séu á sömu bylgjulengd. Í öðru lagi sé hann sannfærður um, að Jónas sé skáld á heimsmælikvarða en engum utan Íslands sé kunnugt um hæfileika hans, þar sem hann hafi ekki verið þýddur.

Við þetta tækifæri vil ég færa dr. Dick Ringler sérstakar þakkir og lýsa yfir einlægri aðdáun minni á dugnaði hans og elju um langt árabil við að ná því takmarki að koma verkum Jónasar með svo glæsilegum hætti á framfæri við heimsbyggðina alla.

Ljóst er, að ætlun prófessorsins var að kynna þýðingar og fræðilegar skýringar á framlagi Jónasar Hallgrímssonar til heimsmenningarinnar í tímaritsgrein eða bók. Samstarfsmenn hans við háskólann í Madison sannfærðu hann hins vegar um að nota annan miðil, það er að segja netið. Þar hafa þeir Peter C. Gorman og Dennis A. Hill átt hlut að máli og með samvinnu við þá er vefsíðan um Jónas þannig úr garði gerð, að hún er ótæmandi fróðleiksbrunnur um miklu meira en skáldið og verk hans, því að þar eru íslensk menning og landshagir einnig kynntir. Texti er lesinn og ljóð sungin.

Færi ég þessum mönnum þakkir og einnig Kenneth Frazier, yfirbókaverði Wisconsin-háskóla í Madison, sem kom hingað til lands með dr. Ringler í tilefni af þessum atburði og dags íslenskrar tungu í boði menntamálaráðuneytisins.

Vefsíðan er fyrsta markvissa tilraunin til að kynna líf og list Jónasar Hallgrímssonar fyrir enskumælandi fólki. Alúðin og áhuginn við verkið hefur verið mikill. Efumst við Íslendingar ekki um, að ljóð- og ritsnilld Jónasar á erindi til fleiri en þeirra, sem skilja íslensku. Einnig er okkur vel ljóst, hve vandasamt hefur verið að þýða hin viðkvæmu og fögru ljóð Jónasar.

Með verki sínu hefur Dr. Ringler lagt mikið af mörkum til kynningar á íslenskri menningu, sýnt frumkvæði og fordæmi, sem vonandi verður öðrum hvatning, sem glíma við þýðingar á verkum íslenskra höfunda. Það er gott til þess að vita, að Ísland á svo góða vini.

Ég sé í viðtali við Peter C. Gorman samstarfsmann dr. Ringlers, sem birtist í blaðinu Wisconsin State Journal, að vefsíðan um Jónas Hallgrímsson er ekki einungis einstæð vegna þess hvernig efnistökin um skáldið eru heldur einnig vegna hins, að enn er ekki mikið birt á netinu af svo heildstæðu efni um eitt rannsóknarandlag, ef ég má orða það svo. Segir Gorman bókasafnið hafa áhuga á því að reyna nýjar leiðir við útgáfu fræðiverka, vegna þess að tímaritum fækkar og þau verða sífellt dýrari. Er þetta vandamál ekki síður þekkt hér á landi en í Madison. Einnig að þessu leyti er því um merka fyrirmynd um notkun þessarar nýju og takmarkalausu boðleiðar til tug eða hundruð milljóna manna að ræða.

Að svo mæltu opna ég vefsíðuna um Jónas Hallgrímsson við Wisconsin-háskóla í Madison í Bandaríkjunum með þakklæti og hamingjuóskum til þeirra, sem að verkinu hafa komið.