4.7.1997

22. landsmót UMFÍ

Ávarp á setningarhátíð 22. Landsmóts UMFÍ Borgarnesi.
4. júlí 1997

Í upphafi vil ég óska íbúum Borgarbyggðar til hamingju með hina glæsilegu aðstöðu til íþróttaiðkana, sem hér er. Þær þúsundir manna, sem sækja þetta landsmót, munu sannfærast um mikinn stórhug og framtakssemi gestgjafa sinna.

Ungmennafélag Íslands stendur á gömlum og traustum grunni. Í níutíu ár hefur félagið haldið merki háleitra hugsjóna hátt á loft. UMFÍ hefur lagt áherslu á að rækta bæði andlegt og líkamlegt atgervi Íslendinga.

Íslenska þjóðfélagið hefur tekið stakkaskiptum á þeirri öld, sem brátt kveður. Alþjóðasamstarf hefur tekið við af einangrun. Þetta samstarf krefst þess af þjóðum, að þær hugi að rótum sínum og uppruna. Þannig auka þær sjálfstraust sitt til samskipta við aðra.

Þótt öldin hafi einkennst af blóðugum afleiðingum öfgafullrar þjóðernisstefnu, má sú saga ekki fæla þjóðir frá því að rækta hið jákvæða afl, sem felst í friðsamlegri alúð við eigið þjóðerni.


Við börn þín, Ísland, biðjum fyrir þér.
Við blessum þig í nafni alls, sem lifir.
Við erum þjóð, sem eld í brjósti ber,
og börn, sem drottinn sjálfur vakir yfir.

Þannig orti Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi á Alþingishátíð 1930.

Hér hefur verið tendraður eldur. Hann minnir hið glæsilega íþróttafólk, sem hingað kemur til keppni og leiks, og okkur öll á að með eldmóði næst árangur og sigur vinnst. Leikvangseldurinn vísar einnig til baráttuanda í þágu háleitra hugsjóna og eindregins vilja til að láta gott af sér leiða, hvort heldur menn stunda íþróttir eða leggja öðrum góðum málstað lið.

Haldi þjóðin áfram að bera slíkan eld í brjósti vegnar henni vel. Líklega hefur aldrei tekist að skapa jafngóð skilyrði til framfarasóknar á Íslandi en einmitt nú við aldahvörf.

Ég óska Ungmennafélagi Íslands til hamingju með 90 ára afmælið. Ég óska öllum farsældar á landsmótinu. Megi sannur keppnisandi og heilbrigð ættjarðarást blómstra hér á þessu móti og með þjóð okkar enn um langan aldur.