Sögn í sjón - Listasafn Íslands
Sögn í sjón
Listasafni Ísland
7. júní 1997.
Við komum hér saman í dag til að opna sýninguna Sögn í sjón, sem í raun er þríþætt og nær til þriggja sýningarsala í Listasafni Íslands, Norræna húsinu og Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Hér í Listasafni Íslands kynnumst við málverkum, grafík og höggmyndum, sem byggðar eru á íslenskum fornritum.
Tilefni þessara sýninga er, að hinn 19. júní næstkomandi afhenda Danir okkur síðasta handritið í samræmi við samninginn góða um flutning íslensku handritanna frá Kaupmannahöfn hingað til Íslands. Ég segi samninginn góða, vegna þess að hann ætti að vera fleirum fyrirmynd um það, hvernig leysa má ágreining um ómetanlega þjóðardýrgripi á einstaklega farsælan hátt.
Við fáum Dönum aldrei fullþakkað í þessu efni. Á hinn bóginn ætti það að vera okkur Íslendingum metnaðarmál að draga athygli sem flestra að því, sem í handritunum er að finna. Með því styrkjum við ekki aðeins hið besta í þjóðernisvitund okkar sjálfra heldur beinum athygli að styrkri stoð í vestrænni menningu.
Fyrir nokkru tókst samkomulag um það milli Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Árnastofnunar og Cornell-háskóla í Bandaríkjunum að fyrir styrk frá bandaríska Mellon-sjóðnum, úr ríkissjóði og frá einkaaðilum skuli á næstu þremur árum unnið að því að setja 500.000 blaðsíður af íslenskum handritum fram til ársins 1900 inn á veraldarvefinn eða upplýsingahraðbrautina.
Gangi þetta eftir hefur verið stigið stærsta skrefið nokkru sinni til að gera öllu mannkyni kleift að kynnast þessum fjársjóði af eigin raun. Hann er listaverk í sjálfu sér og raunar aldrei unnt að endurbæta hann í annarri mynd.
Oft má ráða af umræðum erlendra manna um íslenska nútímamenningu, að þeir telja hinn forna glæsta menningararf eiga að vera leiðarljós allra skapandi listamanna á Íslandi. Hingað eigi menn að geta komið til að kynnast veröld, sem var, eða veröld, sem byggist alfarið á því, sem var.
Málum er auðvitað ekki þannig háttað. Íslendingar leggja ekki rækt við eigin menningu með því að vera í sama farinu heldur með því að virkja alla strauma til að skapa eitthvað nýtt.
Sverrir Tómasson, sérfræðingur við Stofnun Árna Magússonar, hefur bent á, að við lestur fornra frásagna eigi menn að láta sjálft ímyndunaraflið kalla fram myndir, önnur myndskreyting virðist hafa verið talinn munaður. Þetta átti við á miðöldum og við búum ef til vill að þessu enn, því að bent er á í skrá þeirrar sýningar, sem hér verður opnuð, að fornsögurnar gegni minna hlutverki í myndlistarsögu þjóðarinnar en margur hefði ætlað. Þeim mun fróðlegra og meira virði ætti að vera að kynnast verkum, sem sækja efnivið þangað og sjá þau á einum stað.
Við endurheimt síðasta handritsins er vel við hæfi að efna til sýninga á myndlist í handritum, miðaldabókum og hvernig listamenn lífs og liðnir hafa unnið myndefni úr fornri frásagnarlist. Ég óska Listasafni Íslands, Norræna húsinu og Stofnun Árna Magnússonar til hamingju með framtakið. Okkur ber hiklaust að halda hinum forna menningararfi fram og sýna hann í ljósi kynslóðanna hverju sinni.
Ég lýsi sýninguna Sögn í sjón opna.