Everest-förum fagnað
Móttaka Everest-fara á Ingólfstorgi
3. júní 1997.
Ágætu Everest-farar!
Ég óska ykkur innilega til hamingju með sigurgönguna á hæsta tind veraldar. Hún hefur fyllt okkur öll stolti og hrifningu.
Á meðan á ferðalagi ykkar stóð var ég einn af hinum fjölmörgu, sem fylgdust með því á vefsíðu ykkar hjá Morgunblaðinu, hvernig ykkur miðaði. Var ómetanlegt að geta þannig kynnst því frá fyrstu hendi fyrir tilstilli hinnar nýju tækni. Af þeim kveðjum, sem ykkur bárust eftir þessari nútímalegu boðleið, hljótið þið að hafa ráðið, hve margir voru með hugann hjá ykkur. Frásögnin sýndi okkur, sem sátum í makindum heima fyrir framan tölvuskjáinn, að það þurfti hugrekki, dugnað og vænan skammt af þrautseigju til að láta ekki bugast.
Þið létuð síður en svo hugfallast og snúið nú heim sem sannar hetjur.
Sjálfir hafið þig sagt, að tölfræðin sýni, að af hverjum tíu, sem komast á tindinn farist tveir til þrír. Þetta er ógnvekjandi hátt hlutfall og ætti að fæla hvern venjulegan mann, ef ég má orða það svo, frá því að taka áhættuna. Það þarf þess vegna engan að undra, þótt aðdáendur ykkar hafi á stundum verið með öndina í hálsinum. Raunar næst takmark eins og þetta ekki án þess að eiga öfluga bakhjarla bæði í einkalífi og til að leggja fjármuni af mörkum. Þess hafið þið einnig notið og jafnframt þess að hafa stuðning Hjálparsveita skáta.
Um þessar mundir er hér efnt til Smáþjóðaleika í íþróttum, fjölmennasta alþjóðlega íþróttamóts, sem við Íslendingar höfum skipulagt. Þar munu keppendur okkar vafalaust og vonandi ná góðum árangri ekki síður en hið sigursæla handboltalið, sem kemur heim í kvöld frá heimsmeistarakeppninni í Japan.
Það er því víða mikið um að vera, þar sem reynir á krafta kappsamra Íslendinga. Stórafrek ykkar sannar okkur enn og öðrum smáþjóðum, að fjöldinn og stærðin skiptir ekki höfuðmáli heldur viljinn og atorkan. Þið hafið sannað í eitt skipti fyrir öll, að enginn tindur er svo hár á jörðunni, að Íslendingar geti ekki sigrast á honum.
Nöfn ykkar verða skráð á spjöld Íslandssögunnar og þeirra jafnan getið, þegar rætt er um sönn stórvirki.
Bið ég ykkur að taka hér við tákrænum virðingarvotti fyrir afrek ykkar.