17.4.1997

Kirkjur og krikjuskrúð - ávarp

Kirkja og kirkjuskrúð sýning í Þjóðminjasafni Íslands,
ávarp, 17. maí 1997.


Á líðandi stundu, þegar breytingar eru í senn miklar og örar, megum við ekki missa sjónar á því, sem er varanlegt og hefur í raun eilíft gildi. Sýningin Kirkja og kirkjuskrúð, sem verður opnuð hér í dag, beinir athygli okkar að því, sem hefur varðveist um aldir og veitir okkur jafnframt styrk til að takast á við framtíðina.

Er sérstakt ánægjuefni, að sýningin skuli vera sameiginlegt verkefni Norsk institutt for kulturminneforskning og Þjóðminjasafns Íslands. Til hennar hefði ekki verið stofnað nema vegna höfðinglegrar gjafar norsku ríkisstjórnarinnar í tilefni 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi 1994. Þátttaka Turid Birkeland, menningarmálaráðherra Noregs, í athöfninni hér í dag er enn til staðfestingar á þeim áhuga, sem norska ríkisstjórnin sýnir þessum menningarviðburði og vil ég sérstaklega þakka það.

Hér fáum við að kynnast hluta af hinum sameiginlega menningararfi þjóða okkar.

Hugmynd Íslendinga um hinn forna menningararf mótast af ómetanlegri þýðingu ritaðra heimilda og handrita. Enn þann dag í dag syngjum við í kirkjulegum athöfnum sálm Kolbeins Tumasonar frá banadægri hans árið 1208, þegar skáldið flytur himna smiðnum bæn sína. Í skjóli kirkjunnar í klaustrum sátu skrifarar sagna og kvæða.

Hér á sýningunni sjáum við annan og ekki ómerkari hluta hins kristna menningararfs. Nú er okkur leitt fyrir sjónir, að því fer víðs fjarri, að í löndum okkar hafi búið listamenn án tengsla við alþjóðlega menningarstrauma.

Íslensk list hefur ótvíræð sérkenni, jafnvel á þeim tíma, sem tengslin við menningu, hirð og erkibiskupsstól í Noregi voru sem mest. Þá eins og nú sóttu íslenskir menntamenn til margra landa og hér fjarri meginálfum féll sköpunarstarfið í sinn eigin farveg. Sagnaritunin er til marks um það og önnur sannindamerki sjáum við hér á sýningunni.

Á Íslandi urðu aldrei til sambærilegar valdamiðstöðvar og í Noregi. Við höfðum hvorki konung né erkibiskup, sem gerðu kröfu til áhrifa og aga meðal hirðar sinnar og bræðra. Héðan fóru hins vegar skáld og kappar til að sanna hæfni sína í konungshöllum og dómkirkjum.

Góðir áheyrendur!

Stundin og tilefnið kallar þannig fram margar hugrenningar um það, hvernig náskyldir menn í tveimur fjarlægum löndum unnu úr hinum kristna efnivið og færðu almættinu lof og virðingu með listsköpun sinni.

Við þökkum þeim, sem gera okkur kleift að njóta þessarar listar enn í dag og bera hana fram með fræðilegum skýringum og skírskotun til alls hins besta úr fortíð þjóða okkar.