8.2.1997

Yfirlýsing um listnám

Yfirlýsing um listnám
Morgnublaðið 8. febrúar 199


MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra:

"Vegna umræðna um húsnæðismál Myndlista- og handíðaskólans óska ég eftir, að Morgunblaðið birti eftirfarandi:

Skömmu fyrir alþingiskosningarnar 1991 var með hátíðlegum hætti skýrt frá því, að hús hefði verið keypt af Sláturfélagi Suðurlands í Laugarnesi og þar yrði aðsetur listaháskóla.

Sá háskóli er enn ekki kominn á legg en á undanförnum misserum hefur þokast í þá átt á grundvelli hugmynda, sem liggja fyrir í tillögum og miða að því að skólinn verði sjálfseignarstofnum með aðild félags um skólann, ríkisins og Reykjavíkurborgar. Tillögurnar miða að því, að skólinn verði til húsa í Laugarnesi.

Myndlista- og handíðaskólinn flutti inn í SS-húsið fyrir nokkrum árum og hefur allt fram á þennan vetur viljað vera þar með hluta starfsemi sinnar.

Nú hafa nemendur í skólanum gengið fram fyrir skjöldu og lýst húsnæðið óhæft ekki aðeins vegna vankanta, sem úr má bæta, heldur einnig af öðrum ástæðum eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Er þess krafist af þeim að menntamálaráðuneytið sjái skólanum fyrir nýju húsnæði.

Undanfarið hef ég beitt mér fyrir því að kannaðir séu þeir kostir í húsnæðismálum, sem fyrir hendi kunna að vera, yrði tekin ákvörðun um að nýta SS-húsið með öðrum hætti en fyrir listaháskóla. Þar hafa menn sérstaklega haft augastað á gamla Landssmiðjuhúsinu við Sölvhólsgötu.

Listaháskóli Íslands er sjálfstæð stofnun, sem tekur til sín nemendur í listnámi á háskólastigi en ekki nýr rammi utan um óbreytta starfsemi starfandi skóla.

Með þetta í huga er ljóst, að aðrir en stjórnendur Myndlista- og handíðaskólans eða nemendur hans þurfa að koma að ákvörðunum um framtíðaraðsetur Listaháskóla Íslands. Hitt liggur hins vegar skýrt fyrir, að þeir, sem starfað hafa í SS-húsinu telja það ekki henta undir þá starfsemi, sem þar var boðuð fyrir um það bil sex árum.

Nú er unnið að því að setja á laggirnar bráðabirgðastjórn fyrir Listaháskóla Íslands með fulltrúum þeirra þriggja aðila, sem að starfsemi hans koma samkvæmt fyrirliggjandi tillögum. Þegar sú stjórn er komin til sögunnar fæst viðmælandi fyrir hönd skólans meðal annars um framtíðarhúsnæði hans."