1.6.2018

Norrænir ráðherrar funda með Mattis í Pentagon

Morgunblaðið 1. júní 2018

Undanfarnar vikur hefur Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, átt einkafundi í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, með varnarmálaráðherrum Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur auk utanríkisráðherra Íslands. Allir fundirnir eiga eitt sammerkt: áhyggjur vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa í nágrenni Norðurlandanna og breytinga á stöðunni í öryggismálum eftir að Rússar hrifsuðu Krímskaga frá Úkraínu fyrri hluta árs 2014 í trássi við alþjóðalög.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var í Washington þriðjudaginn 15. maí. Í upphafi sagði Mattis að landafræðinni yrði ekki breytt og nú eins og í síðari heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu væri Ísland mikilvægur útvörður í þágu öryggis og stöðugleika í Atlantshafssamstarfinu. Það væri þakkarvert að um þessar mundir leyfðu Íslendingar bandarískum flugvélum og mannafla að hafa tímabundna viðdvöl með reglulegum hætti í Keflavík. Enn á ný yrðu stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna að finna leiðir til að treysta samstarf sitt vegna GIUK-hliðsins og náinnar samstöðu á komandi árum.

Eftir fundinn sagði upplýsingafulltrúi varnarmálaráðuneytisins að í viðræðunum hefðu ráðherrarnir lýst vilja til að dýpka varnartengslin milli Bandaríkjanna og Íslands. Þeir hefðu rætt leiðir til að auka samvinnu ríkjanna á norðurslóðum og breytingar á herstjórnakerfi NATO.

Allt er þetta í anda þess sem gerst hefur í samskiptum Bandaríkjastjórnar við Evrópuríki í öryggismálum undanfarin misseri. Innan NATO er lögð sífellt meiri áhersla á gildi sameiginlegra varna. Bandaríkjamenn auka herafla sinn í Evrópu. Samgönguæðar yfir Atlantshaf öðlast hernaðarlegt gildi að nýju. Atlantshafsherstjórn NATO í Norfolk í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum hefur til dæmis verið endurvakin. Meginhlutverk hennar er að tryggja öryggi á samgönguleiðunum milli N-Ameríku og Evrópu, fylgjast með og hafa stjórn á umferð um GIUK-hliðið á milli Grænlands, Íslands og Bretlands.

Bandarískir landgönguliðar í Noregi

Um miðjan janúar 2017 komu um 300 bandarískir landgönguliðar flugleiðis til herstöðvarinnar Værnes í Mið-Noregi. Þar voru fyrir tæki og búnaður í öruggum vopnabúrum til afnota fyrir hermennina. Síðan hafa hópar bandarískra landgönguliða skipst á að koma tímabundið til Noregs til að stunda æfingar. Þetta er nýmæli sem tekur mið af óvissunni sem Norðmenn og Bandaríkjamenn telja ríkja í öryggismálum á norðurslóðum.

Varnarmálaráðherra Norðmanna, Frank Bakke-Jensen, var í Washington og hitti Jim Mattis 20. mars 2018. Í tilefni af fundi þeirra var rætt við Magnus Nordenman, sérfræðing hjá hugveitunni Atlantic Council, sem lagði áherslu á að dvöl og æfingar bandarísku landgönguliðanna hefðu ekki aðeins gildi fyrir Norðmenn og Bandaríkjamenn heldur einnig fyrir Svía, Finna og Eystrasaltsþjóðirnar. Efnt væri til sameiginlegra æfinga með liðsmönnum þessara þjóða.

Ekki er talið ólíklegt að bandarískum landgönguliðum í Noregi fjölgi fyrir haustið og fjölþjóðlegu heræfinguna miklu, Trident Juncture, sem þá fer fram. Um 35.000 hermenn taka þátt í henni í Noregi og næsta nágrenni Noregs. Ætlun Norðmanna er að láta þá reyna á viðvörunar- og viðbragðskerfi sín bæði borgaraleg og hernaðarleg með það fyrir augum að þau uppfylli sömu kröfur og alvarnaáætlanirnar í Svíþjóð og Finnlandi.

Þríhliða samningur

Felist breyting á varnarstefnu Norðmanna með því að heimila bandarískum landgönguliðum tímabundna dvöl til æfinga í landi sínu er hún smáræði miðað við skrefin sem Svíar og Finnar, þjóðir utan NATO, hafa stigið til náins varnarsamstarfs við Bandaríkjamenn undanfarin misseri.

Fyrst voru gerðir tvíhliða samningar um heræfingar. Nýtt skref var svo stigið með þríhliða samningi sem Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna, og Jim Mattis rituðu undir í Washington 8. maí 2018.

Í krafti nýja samningsins verða skipulagðar víðtækari og tíðari heræfingar en áður. Stofnað verður til reglulegra þríhliða funda, skipaðir starfshópar, skipst á alhliða upplýsingum og samvinna aukin í fjölþjóðlegu samhengi, þar á meðal á vettvangi norræna varnarmálasamstarfsins, NORDEFCO.

Frekari þróun þríhliða samstarfsins ræðst af úrslitum þingkosninga í Svíþjóð í september 2018 og Finnlandi í apríl 2019. Meiri einhugur er um málið meðal Svía en Finna.

Nýlega sendu sænsk stjórnvöld 20 bls. upplýsingabækling til 4,8 milljón sænskra heimila um viðbrögð á hættu- eða stríðstímum. Bæklingnum, Om krisen eller kriget kommer, er ætlað að veita almenningi leiðbeiningar um viðbrögð vegna „alvarlegra slysa, ofsaveðurs, tölvuárása eða hernaðarátaka“.

Danir og gasleiðslan

Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Danmerkur, hitti Jim Mattis föstudaginn 25. maí. Hann var minntur á að Danir yrðu að ná 2% marki NATO um útgjöld til varnarmála. Jafnframt var þakkað hve mikið Danir hefðu lagt af mörkum til sameiginlegra aðgerða undir merkjum NATO í Afganistan.

Ráherrarnir lýstu áhyggjum vegna þess að kínverskir verktakar sendu tilboð í gerð nýrra flugvalla á Grænlandi. Mattis minnti á framgöngu Kínverja í Suður-Kínahafi þar sem nýjum flugvöllum væri breytt í herstöðvar, líta yrði til öryggishagsmuna.

Danir sæta þrýstingi frá bandarískum stjórnvöldum gegn Nord Stream 2 gasleiðslunni frá Rússlandi á botni Eystrasalts til Þýskalands.

Danska þingið samþykkti nýlega lagabreytingu sem gerir stjórnvöldum kleift að neita að samþykkja leiðslu á dönsku hafsvæði með vísan til öryggis- og geopólitískra hagsmuna. Verði gasleiðslan lögð í efnahagslögsögunni fyrir norðan Borgundarhólm geta Danir þó ekki stöðvað lagninguna.

Kalt norrænt mat

Margt er á döfinni í samskiptum Bandaríkjastjórnar við norræn stjórnvöld um öryggis- og varnarmál. Þetta stafar ekki af þrýstingi og hagsmunum Bandaríkjanna heldur af gjörbreyttri stefnu allra þessara ríkja í öryggis- og varnarmálum undanfarin misseri. Breytingu sem reist er á köldu mati á nýjum aðstæðum.

Fram til ársins 2014 var árum saman ekki minnst á aðgerðir í þágu sameiginlegra varna í ályktunum NATO. Athyglin beindist að ófriðarsvæðum utan sameiginlega varnarsvæðisins. Danir og Svíar skipulögðu varnir sínar á þann veg að ættu þær að duga til að verja eigin landamæri tæki langan tíma að styrkja þær að viðunandi hátt. Þessi umþóttunartími milli varnarleysis og varna líður einmitt núna. Stjórnvöld landanna sjá að viðunandi niðurstaða fæst ekki nema í náinni samvinnu við öflugasta herveldi heims, Bandaríkin. Fundirnir með Jim Mattis í Washington eru til marks um það.

Þjóðaröryggisráð Íslands kom saman til þriðja fundar síns 9. maí og stjórnaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra honum. „Sérstaklega var rætt núverandi hernaðarlegt ógnarmat á Norðurlöndum í heild og hugsanleg áhrif þess á stöðu og ógnarmat Íslands,“ segir í tilkynningu um fundinn.

Þjóðaröryggisráðið tengir öryggi Íslands réttilega inn í þá mynd sem hér er lýst. Ráðið ætlar nú að hefja endurmat á öryggishagsmunum þjóðarinnar, niðurstaða þess hlýtur að falla í norrænu myndina.