Molar úr Grænlandssögu
Morgunblaðið, föstudagur 5. desember 2025.
Grænland og fólkið sem hvarf ★★½·· Eftir Val Gunnarsson. Salka, 2025. Kilja, 268 bls.
Valur Gunnarsson sagnfræðingur þakkar það fyrst og fremst Stefáni Hrafni Magnússyni og fjölskyldu hans í Isortoq í suðurhluta Grænlands að hann skrifaði bókina Grænland og fólkið sem hvarf.
Valur dvaldist á hreindýrabúinu í Isortoq frá 25. maí til 9. júní 2024 en á Grænlandi frá 16. maí til 15. júní 2024. Hann flaug fram og til baka um Narsarsuaq-flugvöll skammt frá Brattahlíð á Suður-Grænlandi og fór þaðan á bátum undir stjórn annarra á milli staða á Grænlandi. Draumur Vals var að komast í Hvalseyjarkirkju sem er ekki langt frá Görðum, fornu biskupssetri Grænlands. Sá draumur rættist rétt fyrir heimflugið.
Valur segist hafa þegið boðið á hreindýrabúgarðinn til að „komast í form“ (30). Frásögn hans í fyrri hluta bókarinnar, Vor með hreindýrum, snýst mikið um öflun fæðu og drykkjarfanga þegar hann er ekki í Isortoq.
Frásögnin hleypur fram og til baka í tíma. Við hlið dagbókarfærslna á Grænlandi segir Valur söguna af Eiríki rauða, landnámi Grænlands og Vínlandsferðum auk þess að stikla á stóru í sögu Grænlands fyrr og nú.

Í hóp kenningasmiða
Í öðrum hluta bókarinnar, Hvað varð af hinum norrænu Grænlendingum?, er rætt um það sem segir í undirtitli hennar: fólkið sem hvarf. Lesandinn veit frá upphafi að Valur hefur ekkert svar við spurningunni. Hann bætist einfaldlega í hóp kenningasmiða um svarið en í 15 tölusettum liðum veltir hann álitaefninu fyrir sér.
Undir það skal tekið með Vali að versnandi veðurfar hafi líklega átt stærstan þátt í að byggð norrænna manna lagðist endanlega af í Grænlandi (241). Inúítar einir kunnu að takast á við yfirþyrmandi ógnarkrafta náttúrunnar á Grænlandi.
Reynslu sína af blaðamennsku nýtir Valur vel við að bregða upp mynd af daglegu lífi vikurnar sem hann dvelst á Grænlandi.
Valur endursegir kafla úr fornsögunum og ýmsum öðrum bókum. Kaflinn um hvarf norrænu Grænlendinganna er best unninn í bókinni.
Valur öðlaðist dýpri skilning á gildi Íslendingasagnanna þegar hann kynntist hrifningu danskra fræðimanna á þeim. Eftir covid innritaði hann sig í miðaldafræði í Háskóla Íslands (98). Agi miðaldafræðanna skapar þráð í bókinni, annað er dálítið út og suður.
Hraðinn við útgáfu bókarinnar bitnar á vandvirkni við textagerð og frágang. Síðasta atvikið sem getið er um í bókinni er frá 24. september 2025 (251).
Þegar rætt er um afstöðu grænlenskra stjórnvalda til annarra ríkja er ekki nefnd stefna Grænlands í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum fyrir árin 2024-2033 frá febrúar 2024. Hún ber heitið: Grænland í heiminum: Ekkert um okkur, án okkar (Grønland i Verden: Intet om os, uden os).
Frásögnin um samskipti Íslendinga og Grænlendinga er sundurlaus. Utanríkisráðuneytið sendi í janúar 2021 frá sér ítarlega skýrslu: Samstarf Íslands og Grænlands á nýjum Norðurslóðum. Ekki er sagt frá henni í bókinni.
Í skrá yfir heimildir er hvorki minnst á grænlenska stefnuskjalið né íslensku samstarfsskýrsluna. Þar er þess ekki heldur getið að árið 2019 sendi Svava Jónsdóttir frá sér ævisögu Stefáns Hrafns Magnússonar: Isortoq – Stefán hreindýrabóndi. Í bók Vals er því miður engin nafnaskrá.
Brotakenndur nútímahluti
Nútímahluti bókar Vals er brotakenndur og reistur á blaðafréttum og lauslegum samtölum hans. Þar eru missagnir og villur.
Strax við komuna til Grænlands segist Valur eiga að sigla með dóttur Stefáns á hreindýrabúgarðinn þar sem hann eigi að bíða í viku eftir komu Stefáns til landsins (12). Þetta er ekki rétt. Valur átti að bíða fjarri búgarðinum eftir komu Stefáns.
Sagt er frá því að særðir bandarískir hermenn hafi verið fluttir úr Kóreustríðinu til Thule til að deyja úr augsýn almennings og fjölmiðla (54). Ekki hefur tekist að sannreyna sögusagnir um flutninga særðra frá Kóreu til Grænlands. Ef til þeirra hefði verið gripið lá beint við að nýta stórt bandarískt sjúkrahús í Narsarsuaq frekar en litla sjúkradeild í Thule.
Á sömu blaðsíðu (54) er sagt frá því þegar skipið Hans Hedtoft fórst með 95 manns í jómfrúarferð sinni árið 1959. Þá segir: „[Þ]að eina af skipinu sem hefur verið endurheimt var björgunarvesti sem rak til Íslands“. Þegar Valur er í bænum Qaqortoq (Julianehåb) 12. júní 2024 skráir hann í dagbókina: „Í kirkjunni er björgunarhringurinn af skipinu Hans Hedtoft, sem hefur verið fenginn hingað frá Íslandi (172).“
Hans Hedtoft rakst á ísjaka og sökk skammt suður af Hvarfi á Grænlandi 30. janúar 1959 á heimleið til Kaupmannahafnar frá Julianehåb. Níu mánuðum eftir að skipið fórst, 7. október 1959, fann Magnús Hafliðason, bóndi á Hrauni við Grindavík, björgunarhringinn á malarkambi í fjörunni við bæ sinn. Vakti fundurinn mikla athygli hér, á Grænlandi og í Danmörku. Mynd Ólafs K. Magnússonar, ljósmyndara Morgunblaðsins, af Magnúsi með hringinn birtist yfir þvera forsíðu Berlingske Tidende og í fleiri dönskum blöðum. Íslendingar afhentu Dönum björgunarhringinn og völdu þeir honum stað í kirkjunni í Qaqortoq.
Í bókinni er sagt ítarlega frá Guðríði Þorbjarnardóttur sem ól son sinn og Þorfinns Karlsefnis í Norður-Ameríku, „fyrsta evrópska barnið sem þar fæddist og þótti síðar merkilegt“. Þau hafi eftir ár í Noregi komið sér fyrir í „Glaumbæ á Skagaströnd“. Þá segir að stytta sé „af Guðríði með syninum Snorra við Glaumbæ á Skagaströnd þar sem hún bjó“ (83). Þegar í fyrra skiptið er sagt að Glaumbær sé á Skagaströnd má ætla að um meinlega ritvillu sé að ræða en þegar þetta er endurtekið ber það merki um meinloku: Glaumbær er í Skagafirði.
Textinn er víða lipurlega skráður af Vali. Hann ákveður hins vegar ekki nægilega skýrt hvernig bók hann ætlar að skrifa, stíll og efnistök bera þess merki. Hroðvirkni einkennir margt sem fyrir lesandann er lagt.