8.11.2025

Misbeiting fjölmiðlavalds

Morgunblaðið, laugardagur 8. nóvember 2025,

Hér var fyrir viku rakinn ferill bandarísku fjölmiðlakonunnar Bari Weiss og brugðið ljósi á þróun fjölmiðlunar í Bandaríkjunum. Hún snýst öðrum þræði um að afmá skoðanastimpla af fjölmiðlum með því að gefa fleiri röddum vægi þannig að miðlarnir sjálfir séu ekki taldir málpípur ákveðinna skoðana eða tæki til ýta undir skautun í samfélaginu.ImagesskTil að skýra þetta nánar og færa nær okkur má nefna norrænan sjónvarpsmann til sögunnar: Fredrik Skavlan (f. 1966). Hann er margverðlaunaður norskur fjölmiðlamaður, rithöfundur og teiknari. Hann hóf feril sinn sem blaðamaður og teiknari hjá Morgenbladet, Aftenposten og Dagbladet áður en hann gerði samning við norska ríkisútvarpið NRK árið 1996 um þáttinn Absolutt. Hann sló síðan í gegn með þættinum Først & sist (1998-2007). Þættir um málefni líðandi stundar með tónlist og léttmæti voru þá vinsælt sjónvarpsefni. Sá tími er víða liðinn.

Árið 2009 kom spjallþátturinn Skavlan til sögunnar á sænska ríkissjónvarpinu SVT og varð fljótlega norsk-sænsk samframleiðsla og vinsælasta norræna spjallþáttaröðin. Þátturinn var sýndur í danska ríkissjónvarpinu DR2 utan Svíþjóðar og Noregs. Skavlan hélt þessum þætti úti þar til í Covid 2021.

Nú í haust, 2025, sneri hann aftur á skjáinn með umræðuþáttinn Skavlan och Sverige, sem sýndur er á SVT, NRK og finnska ríkissjónvarpinu, Yle.

SVT leitaði til Skavlans af því að stjórnendur sjónvarpsins vildu endurhanna þetta form í sænskum fjölmiðlum. Umræðuþættir í Svíþjóð höfðu að þeirra mati þróast í átt til átaka og hávaða, þar sem gestir töluðu hver yfir annan og lítið svigrúm gafst til ígrundunar eða hlustunar. Eva Beckman, dagskrárstjóri SVT, sagði við kynningu nýja Skavlan-þáttarins:

„Í samfélagi sem er eins sundrað og okkar græðir enginn neitt á enn einum umræðuþætti þar sem fólk stendur og hrópar hvert á annað. Markmiðið er að hér hlusti allir og reyni að skilja sjónarmið annarra.“

Sjálfur segist Skavlan vilja skapa rólegri og innihaldsríkari umræður, samtal og skilning frekar en átök og slagorð. Þættirnir skilji eftir umhugsunarverðan fróðleik.

Viðmælendurnir lýsa skoðunum sínum fyrir framan áheyrendur og aðra þátttakendur í samtalinu við Skavlan án ótta við að vegið sé að þeim vegna orða þeirra. Auðvitað kann að vera gengið á eftir skýringu en ekki til að lítillækka þann sem krafinn er um hana.

Þarna eru stjórnendur SVT og Skavlan að slá nýjan tón, kannski til að ná til þeirra sem hafa ánægju af hlaðvörpum. Þar bjóða góðir stjórnendur samtalsþætti sem halda hlustendum við efnið jafnvel klukkustundum saman þótt viðmælandinn sé aðeins einn. Fólk leggur ekki við hlustir eftir illmælgi heldur af forvitni. Því betur sem spyrjandinn er undirbúinn þeim mun fróðlegra verður samtalið.

Sænska ríkisútvarpið fetar þarna inn á nýjar brautir í viðleitni til að auka eigin trúverðugleika og skapa jafnframt meiri sátt í samfélaginu með umburðarlyndi í garð ólíkra skoðana.

Ríkisútvörp eru ekki lengur stofnanir um óhlutdrægni. Mál sem sverta djásn ríkisrekinna miðla, BBC, breska ríkisútvarpið, komust í hámæli í vikunni.

Breska blaðið The Telegraph birti leka úr tveimur innri úttektarskýrslum BBC. Skýrslurnar sýna annars vegar að í virta fréttaskýringaþættinum Panorama birtist fölsuð frétt um örlagaríka ræðu Donalds Trumps 6. janúar 2021 fyrir framan bandaríska þinghúsið. Hins vegar gerði arabíska deild BBC lítið úr þjáningum Ísraela til að árétta illmennskuna að baki árásum þeirra á Gasa. Haft er eftir Danny Cohen, fyrrverandi sjónvarpsstjóra BBC, að arabíska deild BBC hafi „dreift Hamas-lygi um heiminn“.

Breskir stjórnmálamenn, þar á meðal menningarráðherrann, Lisa Nandy, sögðu að stjórnendur BBC yrðu að líta í eigin barm vegna úttektarinnar á Trump-fréttinni ef þeir vildu halda trúverðugleika. Formaður menningar- og fjölmiðlanefndar breska þingsins hefur krafið stjórnarformann BBC svara. Vegna Hamas-áróðursins sagði aðstoðarutanríkisráðherra Ísraels að Tim Davie, forstjóri BBC, yrði að segja af sér auk þess sem hann hvatti breska utanríkisráðuneytið til að hætta fjárstuðningi við arabísku deild BBC.

The Telegraph bætir hins vegar við að eins og jafnan feli stjórnendur BBC sig á bak við þagnarmúr og láti sem þeir viti lítið af vaxandi ofviðrinu umhverfis sig.

Þessi lýsing á viðbrögðum stjórnenda BBC minnir á viðbrögð stjórnenda RÚV í Efstaleiti. Því miður er sjaldgæft að alþingismenn eða ráðherrar hvetji RÚV til að huga að eigin trúverðugleika.

Hjartans mál RÚV verða að viðfangsefni í fréttatímum, morgunþáttum, síðdegisþáttum, vikulegum úttektum, Kastljósi, Silfrinu og hjá Gísla Marteini í ríkissjónvarpinu, og í Vikulokunum. Þegar mest liggur við er þess gætt að segja ekki söguna alla svo það sem í raun er títuprjónsstunga birtist hlustendum eins og högg með banvænni sveðju án þess að varnir séu leyfðar.

Þetta verður fljótt gegnsætt og leiðinlegur eltingaleikur. Þá láta stjórnmálamenn draga sig í tíðindasnauð samtöl til þess eins að halda lífi í einhverju hjartans málinu eða blessa það.

Andrúmsloftið eitrast. Ef ekki er loftað út á fjölmiðlunum sjálfum verður umræðan áfram innilokuð og eitrað loftið dreifir sér út í allt samfélagið. Yfir fréttastofu RÚV hvílir skuggi óleystra gruggugra mála sem geymd eru innan þagnarmúrsins.

Í lýðræðissamfélagi sem reist er á ábyrgð og trausti verður fjölmiðill sem nýtur opinbers stuðnings að vera fyrirmynd, ekki undantekning