Mennta- og barnamál í ólestri
Morgunblaðið, laugardagur 20. desember 2025.
Mikil óvissa ríkir um yfirstjórn mennta- og barnamála í ríkisstjórninni þegar hún fagnar eins árs afmæli. Embætti málaflokksins féll í hlut Flokks fólksins við stjórnarmyndunina. Ásthildur Lóa Þórsdóttir sat í embættinu til 20. mars þegar hún ákvað að segja af sér við lítinn orðstír. Hvarf hún af þingi í nokkra mánuði.
Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður Flokks fólksins, varð þá mennta- og barnamálaráðherra þar til hann fór í veikindaleyfi 9. desember. Gegnir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra embættinu í fjarveru Guðmundar Inga.
Umræður um þennan mikilvæga málaflokk sýna að ríkisstjórnin á engan stefnumótandi málsvara í honum. Látið er reka frá degi til dags eða stjórnað í hjáverkum.
Morgunblaðið hefur vakið athygli á gagnrýni á nýsamþykkt lög um rýmkun innritunarkrafna í framhaldsskóla. Nýlega voru lögfest ákvæði um huglægar og óljósar kröfur sem tengjast ekki námsárangri nemenda eða þekkingu.
Mánudaginn 15. desember var á forsíðu vitnað í harða gagnrýni Sigríðar Ólafsdóttur, dósents á menntavísindasviði Háskóla Íslands, á að námsárangri væri ýtt til hliðar. Það fæli í sér mismunun gagnvart samviskusömum nemendum, þrengt væri að möguleikum þeirra til að komast inn í framhaldsskóla og umbun fyrir dugnað minnkaði. Þetta gerðist þegar staða íslenska skólakerfisins í alþjóðlegum samanburði væri mjög alvarleg. Í PISA-niðurstöðum væri Ísland í frjálsu falli og fjarlægðist sífellt meðaltal OECD-ríkja. Ekki ætti að minnka áherslu á námsárangur samhliða óljósu námsmati, þvert á móti skipti mestu að tryggja að börn útskrifuðust úr grunnskóla með traustan námslegan grunn.
Í Hlöðunni, bók Bergsveins Birgissonar, sem geymir þanka til framtíðar og úttekt á samtíðinni segir á einum stað: „Eitt einkenni okkar tíma er visst hlaðborðs-uppeldi sem gefur börnum og ungmennum almennt það sem þau vilja fremur en það sem þau þurfa. Slíku hættir til að enda með pítsu og frönskum á jólunum, vissu menningarrofi …“
Þetta gefur mynd af þankanum að baki nýju og lögfestu leiðinni milli grunnskóla og framhaldsskóla. Vitneskjan um námsárangur í grunnskóla hefur auk þess verið sveipuð dulúð með brottfalli talna við einkunnagjöf og upptöku bókstafa. Þar var um skýrt menningarrof að ræða.
Könnun Maskínu sem gerð var í september 2025 sýndi að ríflega 88% svarenda telja að einkunnir í íslenskum skólum eigi að vera birtar í tölustöfum. Innan við 10% finnst það ekki skipta máli og aðeins 2,6% segjast vilja hafa einkunnir í bókstöfum. Á aldrinum 18-29 ára vilja 93% sjá einkunnir í tölustöfum.
Ráðherrar sitja fyrir svörum á barnaþingi 2025 (mynd:mbl.is).
Á barnaþingi 21. nóvember 2025 sátu sex ráðherrar fyrir svörum og spurði 15 ára grunnskólanemi, Aníta Líf Magnúsdóttir, þá hvers vegna einkunnir væru gefnar í bókstöfum en ekki tölum. Henni brá þegar ráðherrarnir hlógu að spurningunni. Hafði hún átt von á meiri fagmennsku og virðingu hjá ráðherrum.
Guðmundur Ingi Kristinsson, barna- og menntamálaráðherra, svaraði í samræmi við frumvarp sitt sem nú er orðið að lögum: Stjórnvöld vildu að menntaskólar litu ekki einungis til lokaeinkunna heldur einnig annarra atriða. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að nemendur ættu „að mótmæla þessu harkalega, að þið viljið ekki þetta A-B-C-D, og segja bara hingað og ekki lengra“.
Þegar Aníta Líf sagði að börnin 140 á barnaþingi væru að mótmæla þessu sagði Inga: „Það verða að vera svona, já … 500 krakkar fyrir utan menntamálaráðuneytið hjá Gumma og segja: Ekki A-B-C-D.“
Framganga formanns Flokks fólksins staðfestir skortinn á pólitískri forystu og stefnu í mennta- og barnamálum. Við bætist að teknar hafa verið rangar ákvarðanir á undanförnum árum um uppbrot menntamálaráðuneytisins og útvistun menntamála úr því.
Misheppnuð stofnanavæðing, brotthvarf samræmdra prófa og óskiljanlegar einkunnir leiða til þess að námsárangri er einfaldlega ýtt til hliðar við innritun í framhaldsskóla. Næst er ætlunin að vega að fullveldi þessara skóla með því að svipta þá fjárforræði. Aðför er skipulögð gegn starfsöryggi skólameistara til að brjóta öll andmæli þeirra á bak aftur.
Barnamálin eru ekki síður illa sett í stjórnarráðinu. Þrátt fyrir að nú skuli starfað eftir nýjum lögum um farsæld barna blasir við þekkingar- og úrræðaleysi. Vímuefnaneysla barna og unglinga hefur aukist síðastliðin tvö ár, þvert á það sem Guðmundur Ingi, mennta- og barnamálaráðherra, hélt fram á alþingi. Biðlistar lengjast og foreldrar grípa til örþrifaráða í þágu barna sinna.
Jón Pétur Zimsen þingmaður Sjálfstæðisflokksins vakti í vikunni máls á banvænum fíkniefnavanda barna. Það yrði að bregðast við honum með skjótum hætti ekki síður en heimsfaraldrinum, covid-19, á sínum tíma. Þá hefðu markviss viðbrögð í þágu barna borið árangur.
Þegar Jón Pétur beindi spurningum um þetta efni til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra 15. desember brást hún við að hætti teknókratans:
„Við erum með ráðherranefnd um málefni barna þar sem verið er að fara sérstaklega yfir meðferðarúrræðin, verkaskiptingu, hvort það eigi til að mynda að fara í tilflutning á ákveðnu úrræði varðandi fíknisjúkdóma barna yfir á aðra vettvanga. Það er verið að skoða þetta í grunninn og í kjölinn,“ voru lokaorð Kristrúnar við fyrirspurn og brýningu Jóns Péturs Zimsen.
Kerfislegra verður það ekki. Hvað með farsældarráðin? Nýja kerfið sem átti að tryggja að allir væru alltaf á sömu blaðsíðu? Þarf enn eina ráðherranefndina? Kerfisvæðingin dafnar.