Mannlífsmyndir af Norðurströndum
Morgunblaðið, laugardagur 17. janúar 2026.
Um bók Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, Síðasti formaðurinn
Sumarið 2023, í byrjun júlí, fór ég í stutta rannsóknarferð með Hlédísi Sveinsdóttur um Kaldrananeshrepp og Árneshrepp til að kanna og ræða leiðir til að stuðla að byggðafestu þar.
Á Svanshóli í skógi vöxnum Bjarnarfirði skoðuðum við meðal annars algjörlega sjálfbært gróðurhús með 40 gráðu heitu jarðvatni og fengum heimaræktuð kirsuber hjá Finni Ólafssyni, bónda og oddvita Kaldrananeshrepps.
Þegar ekið var þaðan norður eftir Strandavegi rigndi mikið. Það sást til hafs en lág ský huldu fjöllin. Í Norðurfirði þar sem vegurinn endar birti aðeins. Úrhelli var í Trékyllisvík þegar við funduðum með heimafólki á Finnbogastöðum og heimsóttum byggðasafnið Kört undir leiðsögn Valgeirs Benediktssonar í Árnesi. Hann reisti safnið og rekur. Þar fengum við nasasjón af lífinu á Ströndum á árum áður.
Skammt frá Árnesi voru niðurrigndir vélhjólamenn á landsmóti bifhjólafólks á Íslandi. Var það örugglega nokkur þrekraun fyrir fólkið að aka hjólum sínum á leðjukenndum þjóðveginum eftir að bundið slitlag var að baki í Bjarnarfirði.
Ég naut aðstoðar greiðvikinna manna á Selfossi við að skafa leirinn af hjólabúnaði jeppans míns svo að ég kæmist klakklaust austur í Fljótshlíð eftir aksturinn á Strandavegi.
Draumur rætist
Hugurinn hvarflaði oft að þessari ferð við ánægjulegan lestur nýrrar, fróðlegrar bókar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, Síðasti formaðurinn. Ferðin um Strandir í fylgd höfundar hefði gagnast betur áður en lagt var í hann um árið. Birt hefði yfir örnefnum og bæjarheitum þrátt fyrir drungalegt veður. Samtölin við heimafólk hefðu orðið dýpri með allan fróðleik Ásgeirs í farteskinu.

Fyrstu 11 ár ævi sinnar ólst Ásgeir (f. 1970) upp í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit á Snæfellsnesi þar sem afi hans, Bjarni Jónsson (1908-1990) og amma, Laufey Valgeirsdóttir (1917-2007) bjuggu frá árinu 1951. Þau giftu sig í ágúst 1936 og eignuðust níu börn en 15 ára hafði Laufey eignast dóttur sem Bjarni ættleiddi. Laufey var yngst 18 systkina frá Norðurfirði á Ströndum og lifði systkini sín öll.
Foreldrar Bjarna, afa Ásgeirs, voru Jón Kjartansson og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir. Þau bjuggu í nokkur ár á Svanshóli í Bjarnarfirði og þar fæddist Bjarni. Börn þeirra urðu alls ellefu talsins. Vorið 1915 fluttist fjölskyldan í Asparvík og þar átti hún heimili sitt til vorsins 1951 að Bjarni og foreldrar hans fluttu í Bjarnarhöfn.
Í formála segir Ásgeir að allt frá því að hann var stráklingur hafi hann langað til að skrifa sögu afa síns og ömmu og ættmenna sinna á Norðurströndum.
Draumurinn rætist í þessari bók. Ásgeir setur endapunkt frásagnar sinnar árið 1939 þegar afi hans var 31 árs og amma 22 ára. Hann segir að þá hafi líf þeirra eiginlega verið rétt að byrja og nýr uppgangstími hafi einnig verið að hefjast á Ströndum með hraðfrystihúsum og sölu á ísfiski. Boðar Ásgeir framhald sögu þeirra Bjarna og Laufeyjar (8-9).
Heiti bókarinnar vísar til þess að Bjarni, afi Ásgeirs, var síðasti hákarlaformaðurinn á Ströndum. Hann var aðeins 16 ára árið 1924 þegar hann axlaði þá miklu ábyrgð að verða formaður á báti föður síns sem fól honum verkefnið þegar þrek hans leyfði ekki meira erfiði á hafi úti. Hákarlaveiðinni lauk sem „stóriðju“ þess tíma árið 1933.
Bjarni eignaðist eigið skip, sexæringinn Síldina frá Bolungarvík, árið 1929 og má nú sjá það í Hákarlasafninu í Bjarnarhöfn. Síldin gagnaðist Bjarna vel og reyndist happaskip. Hann missti aldrei neinn og var oft kallaður til að flytja fólk sjóveg þegar veður var illt og brimrót.
Leitar fanga víða
Frásögn Ásgeirs er margbrotin og teygir sig langt út fyrir Norðurstrandir og mannlífið þar þótt það sé jafnan þungamiðja bókarinnar og allar leiðir liggi þangað. Íslandssagan er sögð og sambandinu við Danakonung lýst meðal annars með heimsókn Friðriks 8. hingað árið 1907.
Kápumynd bókarinnar er hluti af skissu sem konunglegi danski hirðmálarinn gerði þegar 80 vélbátar sigldu til móts við skipalest konungs á Ísafjarðardjúpi. Þótti konungi svo mikið um fögnuð sjómannanna að hann tárfelldi. Skissuna fann Ásgeir á netinu „fyrir slysni“ og keypti „fyrir lítið verð“ (100).
Hann leitar þannig víða fanga í efnisöflun við ritun þessarar sögu og fræðir lesandann jafnt um báta- eða skipasmíði, seglbúnað og innleiðingu skipsmótora og dans og söngva á Norðurströndum. Þar var slegið upp fordyrum við hús, enda nægur rekaviður, til að efna mætti til „bæjardyraballa“. Skemmti ungt fólk sér þar við hringdans og leiki. Eftir að Norðmenn fóru að salta síld í Ingólfsfirði 1915-1920 kom harmónikan til sögunnar með samkvæmisdönsum. „Og þessar tvær danshefðir runnu saman í Árneshreppi þar sem vals, ræll og polki voru stignir undir harmonikuspili á milli þess sem farið var í hringdansa og leiki“ (200-202).
Þá er skáldið Stefán frá Hvítadal leitt fram á glæsilegan hátt og ljóðum hans gerð falleg skil. Lýsingin á baráttunni um völdin innan Framsóknarflokksins árið 1934 þegar Hermann Jónasson sótti gegn formanninum og forsætisráðherranum, Tryggva Þórhallssyni, þingmanni Strandamanna, sýnir að átök innan og milli flokka núna ná varla máli.
Höfundurinn er hagfræðingur og leiðir lesandann í allan sannleika um áhrif sveiflna viðskipta- og atvinnumála heima og að heiman á kjör fólks á Norðurströndum.
Í frásögn Ásgeirs ber þó fólkið sjálft hæst, líf þess í stöðugri nálægð við dauðann. Karlarnir, fyrirvinnurnar, sóttu björg í bú á litlum opnum bátum á mörkum byggilega heimsins. Landsins forni fjandi, hafísinn, lagðist við bæjardyrnar í orðsins fyllstu merkingu.
Almenna bókafélagið gefur út bókina sem er 317 blaðsíður í níu hlutum auk formála og heimildaskrár, tilvísanir eru neðanmáls. Í bókinni eru ljósmyndir með lesmálinu. Mikill ávinningur hefði verið af kortum sem sýndu staði og fjarlægðir á landi og gæfu hugmynd um hvert væri haldið til veiða. Nafnaskrá hefði auðveldað eftirfylgni við lykilpersónur. Höfundur ritar undir formála fyrsta vetrardag 2025 sem sýnir verulegan hraða við frágang bókarinnar. Sjást hans merki í nokkrum prentvillum og umbrotsmistökum á bls. 299.
3.995 afkomendur
Í timburhúsinu í Asparvík voru árið 1936, þegar Bjarni og Laufey giftust, tvö herbergi uppi á lofti. Jón langafi Ásgeirs og Guðrún langamma höfðu annað þeirra en Bjarni og Laufey hitt fyrir sig og börn sín. Þá segir:
„Guðrún langamma tók heldur ekki annað í mál en að þau hefðu aðskilið mötufélag sem var erfitt þar sem aðeins var eitt eldhús í húsinu og maturinn soðinn í sömu pottum. En einhvern veginn gekk þetta. Guðrún stakk eldspýtum í kjötbitana áður en þeir fóru í pottinn til að merkja þá fyrir sitt heimilisfólk“ (297).
Ásgeir segir að líklega hafi ekki verið auðvelt fyrir ömmu hans að ganga inn í þetta verkefni. Það tókst henni hins vegar og kom vel saman við tengdamóður sína.
Guðrún Guðmundsdóttir, langamma Ásgeirs, var frá Kjós í Reykjarfirði fyrir norðan Asparvík og Svanshól. Þegar hún kom þangað með Jóni mannsefni sínu árið 1902 gerði hún honum grein fyrir því að hún ætlaði ekki að vera ráðskona fyrir föður hans og bróður sem bjuggu einnig á Svanshóli. Þeir yrðu að sjá sjálfir um sig með eigin bústýru (80).
Guðrún 18 ára (f. 1884) hafði alist upp í sambýli föður hennar með tveimur konum og átti hann börn með báðum. Alls átti Guðmundur Pálsson, langalangafi Ásgeirs, 23 börn með þremur konum og á hann nú alls 3.995 afkomendur á lífi samkvæmt Íslendingabók (72).
Hafi karlarnir verið harðgerir voru konurnar það ekki síður. Á sjó lutu karlarnir forsjá formannsins. Konurnar gættu barna og heimilis og réðu innan dyra. Lýsir Ásgeir vel jafnvæginu í hjónabandi afa síns og ömmu. Mikil reisn var yfir þeim báðum og lýsir sagan einlægri virðingu og kærleika.
Þegar við Hlédís vorum þarna á ferð voru íbúar í Árneshreppi 47 og 116 í Kaldrananeshreppi. Viðhorf viðmælenda okkar bar ekki vott um neina uppgjöf.
Síðan hefur Baskasetur verið opnað í tönkum síldarverksmiðjunnar í Djúpavík skammt frá Kjós í Reykjarfirði. Ný alþjóðleg menningarleg tengsl hafa verið hnýtt. Bók Ásgeirs gæti lagt grunn að enn meiri sagnamiðlun og sögufylgd um Norðurstrandir. Þangað eiga margir ættir að rekja og römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til.
Mestu skiptir að ekki sé lagður steinn í götu mannaferða eða búsetu með hálfófærum vegum, lélegum fjarskiptum, skorti á raforku og óvinsamlegu regluverki. Nú á byggðafesta meira undir því sem manngert er en á þeim tíma sem Ásgeir lýsir.