6.9.2025

Lyftum íslensku lambakjöti

Morgunblaðið, laugardagur 6. september 2025,

Íslenskt lamba­kjöt er ein­stakt. Það hef­ur sér­stöðu í bragði og upp­runa, er fram­leitt í hreinu um­hverfi og hef­ur sterka teng­ingu við menn­ingu og bú­setu þjóðar­inn­ar. Lömb sem ganga á af­rétti eru merk­is­ber­ar líf­rænn­ar rækt­un­ar.

Samt er staðan sú að þessi afurð, sem ætti að vera flagg­skip ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu, er of oft seld sem ódýr frysti­vara. Það er aug­ljóst að lamba­kjötið skip­ar ekki þann sess sem það á skilið, hvorki inn­an­lands né utan. Hér er stuðst við efni í Bænda­blaðinu 28. ág­úst. Þar ræða þeir sem til þekkja stöðuna. Þörf er á sam­eig­in­legu átaki til um­bóta, seg­ir í leiðara blaðsins, þar sem vitnað er í Hafliða Hall­dórs­son, fram­kvæmda­stjóra Icelandic Lamb.

1071354

Íslensk slát­ur­hús flokka lamba­skrokka í allt að fjöru­tíu gæðaflokka en flokk­un­in hverf­ur þó áður en var­an nær til neyt­enda. Bænd­ur fá greitt eft­ir gæðum en veit­ingastaðir og stór­ir kaup­end­ur geta ekki valið sér fyrsta flokks kjöt.

Michel­in-veit­ingastaðir á Íslandi hafa enga leið til að tryggja sér besta hrá­efnið úr slát­ur­hús­un­um. Þetta er í hróp­legu ósam­ræmi við það sem tíðkast í ná­granna­lönd­um okk­ar, þar sem gæði og verð tengj­ast beint. Með því að gera gæðaflokk­un sýni­lega mætti hækka afurðaverð til bænda, auka tekj­ur vinnslu­stöðva og gefa neyt­end­um raun­veru­legt val. Íslensk­ir neyt­end­ur og er­lend­ir kaup­end­ur eru til­bún­ir að greiða meira fyr­ir staðfest gæði og upp­runa. Það sem nú er í boði er al­mennt óaðgreind frysti­vara.

Vöruþróun á lamba­kjöti er langt á eft­ir því sem ger­ist í öðrum grein­um. Ungt fólk sem kaup­ir sér í mat­inn á miðjum virk­um degi leiðir ekki hug­ann að heilu læri á beini. Það vill litla skammta sem má elda á ör­fá­um mín­út­um, án fyr­ir­hafn­ar og með skýr­um leiðbein­ing­um.

Vöruþróun á fiski sýn­ir hvernig hægt er að snúa þessu við. Fyr­ir nokkr­um ára­tug­um var hann að mestu seld­ur sem heilfryst hrávara til vinnslu er­lend­is. Nú er öld­in önn­ur þótt óvissa hafi að vísu skap­ast vegna auðlinda­skatt­heimtu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Með rekj­an­leika og gæðavott­un­um hef­ur fisk­ur­inn umbreyst í hágæðavöru sem nýt­ur alþjóðlegr­ar eft­ir­spurn­ar. Það sama þarf að ger­ast með lamba­kjötið.

Viðskipta­vin­ir er­lend­is, til dæm­is í Jap­an, hríf­ast af bragði ís­lenska lambs­ins. Þar er það tvö­falt dýr­ara en kjöt frá Ástr­al­íu og Nýja-Sjálandi og selt að mestu á veit­inga­stöðum sem leggja áherslu á sér­stöðu. Inn­flytj­end­ur segja þó að þeir lendi í vand­ræðum vegna gæða og frá­gangs. Kjötið beri stund­um með sér ull­ar­meng­un, sam­ræmi vanti í úr­bein­ingu og pakkn­ing­arn­ar séu gam­aldags.

Ísland hef­ur aug­ljóst for­skot þegar kem­ur að líf­rænni vott­un á lamba­kjöti: hreina nátt­úru, hreina orku, fá mein­dýr og hent­ug­an jarðveg. Samt er líf­rænt vottað lamba­kjöt nán­ast ekki í boði. Ástæðan er sú að vott­un er kostnaðar­söm, flutn­inga­leiðir að fáum afurðastöðvum lang­ar og stuðning­ur stjórn­valda lít­ill. Þetta er dap­ur­legt þegar spurn eft­ir líf­ræn­um mat­vör­um vex ár frá ári.

Framtíðin ligg­ur í nýrri tækni. Með bálka­keðju­merk­ing­um væri hægt að gefa neyt­end­um full­an ra­f­ræn­an rekj­an­leika um: upp­runa lambs­ins, gæðaflokk, fram­leiðslu­bónda og kol­efn­is­spor. Neyt­andi í Berlín eða Tókýó gæti með ein­föld­um QR-kóða séð sög­una á bak við kjötið í hendi sér. Nýt­ing þess­ar­ar tækni eyk­ur traust, styrk­ir ímynd og auðveld­ar sölu ís­lensks lamba­kjöts á háu verði.

Þegar fyr­ir ligg­ur vott­un um kol­efn­is­bind­ingu beit­ar­lands verða til ný og ótrú­lega öfl­ug sölurök sem ber að nýta. Nýj­ustu rann­sókn­ir sýna að út­hag­ar og af­rétt­ir eru oft nettóbind­andi í kol­efni. Með því að viðhalda beit­ar­landi í góðu ástandi er ekki aðeins fram­leitt lamba­kjöt held­ur einnig stuðlað að lofts­lags­mark­miðum. Ger­ir þetta kannski ís­lenskt lamb ein­stakt meðal dýra­af­urða?

Kjötið má kynna sem kol­efn­i­svæna vöru: hrein nátt­úra, sjálf­bær beit og kol­efn­is­bind­ing. Þótt vís­inda­menn verði ef til vill seint sam­mála um vægi beit­ar ann­ars veg­ar og skóg­rækt­ar hins veg­ar breyt­ir það ekki niður­stöðum viður­kenndra og vottaðra mæl­inga. Sé beit­ar­land und­ir réttri stjórn já­kvætt í lofts­lags­bók­haldi er það plús fyr­ir lamba­kjötið. Þess vegna er mik­il­vægt að stilla skóg­rækt og beit ekki upp sem and­stæðum held­ur sam­verk­andi þátt­um. Skóg­rækt get­ur bundið jarðveg á illa nýttu landi, beit get­ur haldið út­hög­um grón­um og sam­an mynda þess­ar grein­ar styrk­an grunn fyr­ir kol­efn­is­sögu Íslands.

Lambið hef­ur í stuttu máli alla burði til að verða það sem fisk­ur­inn er orðinn – eft­ir­sótt hágæðavara á alþjóðleg­um mörkuðum. Ekk­ert ger­ist þó án aðgerða. Það þarf að gera gæðaflokk­un sýni­lega, laga vöruþróun að nú­tíma neyslu­venj­um, bæta pökk­un og gæðastjórn­un, efla líf­ræna fram­leiðslu, nýta bálka­keðju­merk­ing­ar og tengja kol­efn­is­bind­ingu beit­ar­lands inn í markaðssetn­ing­una. Tryggja verður byggðafestu sauðfjár­bænda og svig­rúm til sjálf­stæðrar vinnslu þeirra.

Slát­ur­húsið í Brákarey við Borg­ar­nes hef­ur sýnt að hægt er að veita þjón­ustu sem lyft­ir lamba­kjöti úr fjölda­fram­leiðslu yfir í hágæðavöru. Þar er lögð áhersla á lengri hangi­tíma kjöts, fersk­leika, upp­runa­vott­un og jafn­vel líf­ræna vott­un, sem ger­ir bænd­um kleift að markaðssetja eig­in vör­ur með sér­stöðu. Afurðastöðvarn­ar al­mennt hafa hins veg­ar boðið eins­leita þjón­ustu sem ýtir kjöt­inu inn í frysti­kist­una frem­ur en á gæðamarkað. Nú þegar geta þeirra til ný­sköp­un­ar og sér­hæf­ing­ar hef­ur auk­ist þurfa þær að laga þjón­ustu sína í þessa veru. Með því ættu afurðastöðvarn­ar að verða burðarás­ar í þeirri umbreyt­ingu sem ís­lenskt lamba­kjöt þarf á að halda.