Líf og launráð ógnvalds
Umsögn í Morgunblaðinu 30. júlí 2018.
Ævisaga
Stalín ævi og aldurtili
Eftir Edvard Radzinskíj – þýðandi Haukur Jóhannsson.
708 bls., kilja, Sæmundur 2018
Bókin Stalín ævi og aldurtili er kynnt á ensku með undirtitli þar sem segir að í henni birtist fyrsta ítarlega ævisaga Stalíns sem reist sé á sprengifimum nýjum gögnum úr rússneskum leyniskjalasöfnum. Höfundurinn Edvard Radzinskíj hefur ritað rúmlega fjörutíu bækur um sögulegt efni meðal annars í flokknum Leyndardómar sögunnar. Nokkrar bóka hans hafa verið þýddar á ensku t.d. um Rússlandskeisarana Nikulás II. og Alexander II., Raspútín og um Stalín.
Íslenska útgáfu bókarinnar hefur Haukur Jóhannsson verkfræðingur þýtt úr rússnesku. Þetta er mikill og ekki árennilegur texti (708 bls.). Að þýða verkið og skila á þann hátt sem Haukur gerir er stórvirki.
Til eru opinberar íslenskar ritreglur um umritun nafna úr rússnesku á íslensku og er þeim fylgt í bókinni. Haukur kýs að nota íslenskar beygingareglur og skrifar Stalíni, Molotovi, Zinovjevi, Trotskiji þegar hann fjallar um þessa karla eða aðra í þágufalli. Þetta er óvenjulegt en venst við lesturinn.
Í textanum eru nokkur leiðarorð eins og „beygur“ sem lýsir hræðslunni sem Stalín magnaði meðal samstarfsmanna sinna og þjóðarinnar allrar til að tryggja sér völd og treysta sig í sessi. Þá kemur „djúpa tungumálið“ oft við sögu. Að fyrirmælum Stalíns var af hálfu flokksins fundið að einhverju opinberlega sem virtist smávægilegt, í raun var um að ræða viðvörun um allt annað og miklu verra.
Yfir verkinu svífur óhugnaður sem tengist söguhetjunni, einræðisherranum og harðstjóranum Jósep Stalín ( 21.12. 1879 – 05.03.53). Allt líf hans einkenndist af launráðum og grimmdarverkum. Hann heillaðist af þessum orðum Karls Marx: „Aðeins ein leið er fær til að stytta og lina þjáningar gamla samfélagsins: blóðugar fæðingarhríðir hins nýja – ógnarstjórn byltingarinnar.“ Stalín orðar þetta á sinn hátt: „Ógnarstjórn – skjótasta leiðin til nýs samfélags.“ (Bls.184.) Þetta var leiðarljós hans.
Ekki hlífði hann þeim sem stóðu honum næst. Af þeim fær Svjetlana, dóttir hans, ein mannúðlegan blæ. Nadja, móðir hennar, er sögð hafa stytt sér aldur. „Hann gerði Svjetlönu litlu að húsmóður í stað þeirrar látnu. Og fyrir bragðið fékk hann það sem hann sóttist eftir – aðdáun og undirgefni. Enda var hann býsna hrifinn af henni. Væntumþykjan kom kostulega fram. Hún skrifaði honum – skipanir. Honum, sem enginn dirfðist að segja fyrir verkum! Það var leikur sem honum fannst við hæfi...“ (Bls. 362.)
Bókinni fylgir mannanafnaskrá en því miður ekki venjuleg nafnaskrá þar sem fram kemur hvar í bókinni má finna nafn viðkomandi konu eða karls.
Bókin skiptist í þrjá hluta: Soso: Ævi og uppvöxtur; Koba: Ævi og undanbrögð og Stalín: Ævi, umsvif og andlát. Þessi þrjú nöfn valdi Iosif Vissarionovitsj Dzjúgasvhvílí, sem fæddist í Gorí, Georgíu, sér á ólíkum skeiðum ævi sinnar og tengist saga hverju þeirra. Bókarhlutarnir þrír skiptast í 25 kafla og hver kafli síðan í einstaka þætti. Hluta- og kaflaheiti eru birt í efnisyfirliti en ekki heiti einstakra þátta. Fyrir lesandann er því ekki auðvelt að nota bókina sem uppflettirit. Þetta er skaði vegna þess mikla magns upplýsinga og fróðleiks sem þar er að finna.
Orðið „draumsýn“ er eitt af leiðarorðum bókarinnar. Það lýsir áformum Stalíns um að færa út yfirráða- eða áhrifasvæði sitt í nafni byltingarinnar 1917 eftir að hann hafði gert foringjann Lenín að „Guð-Lenín“. Til að ná þessu markmiði taldi hann hreinsanir í flokknum óhjákvæmilegar og þær framkvæmdi hann af kaldlyndi og nákvæmni.
Höfundur styðst ekki aðeins við trúnaðarskjöl heldur er frásögn hans reist á eigin reynslu, minningum föður hans og viðtölum sem hann tók við ýmsa sem urðu vitni að því sem frá er sagt, til dæmis dauða Stalíns. Þótt undarlegt sé hefur verið gerð gamanmynd um dauða Stalíns. Ekki er þó öllum hlátur í huga sem hana sjá. Frásögnin í bókinni sýnir að ekkert var hlægilegt við að öryggisverðir Stalíns fundu hann á gólfinu í litlu borðstofunni í dötsju hans með lífsmarki að morgni 1. mars 1953.
Deilt hefur verið um aðdraganda þess að Stalín féll. Radzinskíj birtir frásögn sem sýnir að ekki er óhugsandi að Lavrentíj Bería, yfirmaður sovésku öryggislögreglunnar, hafi látið eitra fyrir Stalín.
Stalín hannaði ógnarferli sem þar sem „beygurinn“ og „djúpa tungumálið“ skiptu miklu. Kalda stríðið hóf hann í krafti sigurs Rússa á Hitler, að hann hefði í fullu tré við forystumenn Bandaríkjanna og Bretlands og forskotsins sem hann taldi vetnissprengjuna veita sér til að sigra óvini utan Rússlands og Austur-Evrópu. Í bókinni segir að Stalín hafi eignast vetnsissprengjuna árið 1953 á undan Bandaríkjamönnum. Raunar var gerð tilraun með bandaríska vetnissprengju árið 1952. Samhliða því sem alið var á ótta frá Moskvu með sovéskum gereyðingarvopnum var lagður grunnur að nýjum gyðingaofsóknum.
Stalín skilgreindi að þessu sinni eins og áður óvini í eigin flokki og innan Kremlar. Tveimur forstjórum öryggis- og leyniþjónustunnar á undan Bería hafði verið fórnað fyrir „draumsýnina“. Sá Bería eigin sæng uppreidda og ákvað að gera út af við Stalín?
Lesandinn fær ekki endanlegt svar við þessari spurningu. Ekki heldur við spurningum um hvort Stalín hafi átt hlutdeild í dauða Nödju, konu sinnar, eða morðinu á Sergeij Kírov, flokksleiðtoga í Leníngrad, sem var náinn Stalín á meðan hann nýttist honum lifandi. Dauði Kírovs árið 1934 varð Stalín tilefni blóðugrar aðfarar að valdahópnum innan flokksins sem hafði komið að byltingunni árið 1917. Lýsingar á þessum hreinsunum innan flokksins og aðferðunum sem beitt var í fjörgur ár til að gera út af við alla „óvini flokksins“ eru þungamiðja bókarinnar. Árið 1937 breiddist ógnarbylgjan um þjóðfélagið allt og á árinu 1938 hafði Stalín náð markmiði sínu, öll völd voru í höndum hans.
Edvard Radzinskíj segir: „En mér hefur verið hugleikið eitt atriði: Hvað átti Stalín mikinn þátt í réttarhöldunum? Það er fyrst núna þegar ég hef lesið fjölda skjala að ég get fullyrt – að hann stjórnaði sjálfur réttarhöldunum. Og hvernig hann stjórnaði! Af hvílíkri natni hann stjórnaði þessu leikhúsi skelfingarinnar! Og skipaði jafnvel í hlutverk...“ (Bls. 288.)
Hér er lýst harðstjóra sem nýtti sér kenningar Marx. Hann sat sem nýr einvaldur Rússlands 21 ári eftir að Rússlandskeisara var steypt af stóli. Hann stefndi að heimsyfirráðum. Valdakerfið sem hann mótaði hrundi árið 1991. Níu árum síðar náði ný klíka völdum í Kreml, fyrst með auðsöfnun að leiðarljósi en nú útþenslu í krafti endurreists herafla. Líklegt er að Vladmír Pútín stjórni af sömu natni og Stalín, hvað sem grimmdinni líður.
Vegna þess hve frásögnin er þrúgandi er góður kostur að sitja ekki of lengi hverju sinni yfir textanum. Kynni af ævi Stalíns eru hins vegar öllum nauðsyn sem vilja átta sig á grimmd 20. aldarinnar sem ól hann af sér auk Hitlers, Maós og Pols Pots.