13.7.2022

Leiksoppar Þjóðverja og Breta

Bækur - Sagnfræði, Morgunblaðið, 13. júlí 2022.

Örlagaskipið ARCTIC ****-

Eft­ir G. Jök­ul Gísla­son, Kilja, 251 bls. mynd­ir. Útg. Sæmund­ur, Sel­fossi 2022.

Fyr­ir nokkr­um árum (2019) gaf banda­rísk­ur fræðimaður, Magn­us Nor­d­enman, út bók und­ir heit­inu: Nýja orr­ust­an um Atlants­haf . Þá hafði banda­rísk­ur flota­for­ingi, James Foggo, skrifað tíma­rits­grein (2016) und­ir fyr­ir­sögn­inni: Fjórða orr­ust­an um Atlants­haf. Alþjóðaher­mála­stofn­un­in í London (IISS) sendi í vor frá sér fræðilega út­tekt eft­ir Nick Childs um end­ur­nýjað hernaðarlegt mik­il­vægi GIUK-hliðsins, hafsvæðanna frá Græn­landi um Ísland til Skot­lands, fyr­ir varn­ir Atlants­hafs­ins og þar með tengsl­in milli Norður-Am­er­íku og Evr­ópu.

Bæk­urn­ar og fræðigrein­in eru skrifaðar áður en Vla­dimir Pútín Rúss­lands­for­seti réðst inn í Úkraínu. Þær snú­ast all­ar að veru­legu leyti um hætt­una af her­flota Rússa. Hvað sem líður óför­um land­hers Pútíns í Úkraínu á hann enn rúss­neska flot­ann til að sýna mátt sinn. Skip rúss­neska Norður­flot­ans á Kóla­skag­an­um, fyr­ir aust­an Nor­eg og norðan Svíþjóð og Finn­land, sækja út á heims­höf­in um Norður-Atlants­haf og brjóst­vörn lang­drægra kaf­báta hans er tal­in ná að norðaust­ur horni Íslands.

Þessi sam­tíma­mynd kem­ur í hug­ann við lest­ur bók­ar­inn­ar Örlaga­skipið ARCTIC – ís­lensk­ir sjó­menn í ólgu­sjó seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Þar er lýst at­b­urðum sem sýna hlut­lausa ís­lenska sjó­menn drag­ast inn í átök styrj­ald­ar­inn­ar vegna ferða sinna um Norður-Atlants­haf, lífs­nauðsyn­legra sigl­inga fyr­ir af­komu þjóðar­inn­ar og flutn­inga til og frá land­inu. Höf­und­ur bregður einnig upp mynd af skipalest­un­um úr Hval­f­irði um Bar­ents­haf með bjarg­ir til Rússa og af árás­um Þjóðverja á tog­ar­ann Reykja­borg­ina og línu­veiðar­ana Fróða og Pét­urs­ey í mars 1941. Hættu­legra hetju­dáða ís­lenskra sjó­manna á stríðsár­un­um er minnst.

G. Jök­ull Gísla­son rann­sókn­ar­lög­reglumaður hef­ur sent frá sér þrjár bæk­ur. Önnur bóka hans er á ensku, Ice­land in World War II – A blessed war (útg. 2019 og 2021). Einn les­enda henn­ar, Hol­lend­ing­ur­inn Jos Odijk, hafði sam­band við Jök­ul og sendi hon­um 367 bls. af leyniskjöl­um Breta sem gerð voru aðgengi­leg fyr­ir nokkr­um árum. Skjöl­in bera fyr­ir­sögn­ina: The Nati­onal Archi­ves: Jens Pals­son: Icelandic. Pals­son was a wireless operator.

Jens Páls­son var loft­skeytamaður á Arctic í ör­laga­ríkri ferð skips­ins til Vigo á Spáni í des­em­ber 1941.

GB517P6D6Op­in­bera fiski­mála­nefnd­in, eig­andi skips­ins, sendi Arctic til Spán­ar með fryst hrogn og til að sækja ávexti. Skipið var of hæg­gengt til að sigla með skipalest­um og naut því ekki vernd­ar fylgd­ar­skipa. Þá mátti það sín lít­ils ef á móti blés vegna afl­lítill­ar vél­ar. Ferðin til Vigo var löng og erfið, hreppti skipið af­taka­veður í sex sól­ar­hringa. Frá Reykja­vík hélt skipið 6. des­em­ber og kom til Vigo 20. des­em­ber 1941 þar sem það beið eft­ir ávöxt­un­um til 14. fe­brú­ar, til Reykja­vík­ur var komið aft­ur 2. mars 1941. Ferðin var ör­laga­rík og ljúfa lífið á Spáni dró dilk á eft­ir sér. Kynni stjórn­enda skips­ins af Þjóðverj­um þar mörkuðu djúp spor í líf áhafn­ar­inn­ar og margra fleiri.

Frá­sögn­in er bein­skeytt og án mála­leng­inga henni er skipt í stutta kafla og flakkað fram og til baka í tíma. Vef­ur­inn er stund­um flók­inn. Í eft­ir­mála seg­ir höf­und­ur að Arctic-sag­an hafi legið í „bak­grunni ís­lenskr­ar sögu“ í um 80 ár en nú fyrst séu henni „gerð full skil“.

Ný­lega fengu fé­lags­menn í öld­unga­deild Lög­fræðinga­fé­lags­ins boð um fund um bók­ina í sept­em­ber og voru þeir hvatt­ir til að velta fyr­ir sér þess­um spurn­ing­um: Voru skip­verj­arn­ir á Arctic landráðamenn? Frömdu Bret­ar stríðsglæpi?

Spurn­ing­arn­ar snúa beint að drama­tísku efni bók­ar­inn­ar. Bret­ar gengu hart fram við að knýja áhöfn­ina svara um hvað hún hafði fyr­ir stafni í Vigo. Voru aðfar­ir við yf­ir­heyrsl­ur úr öllu hófi. Þær end­ur­spegluðu ótt­ann og óviss­una sem setti svip á orr­ust­una um Atlants­haf á þess­um tíma. Þá tor­tryggðu bresku for­ingjarn­ir Íslend­inga og sýndu þeim fjand­skap.

G. Jök­ull nýt­ir heim­ild­ir sín­ar til að setja efnið fram að eig­in skapi með sam­töl­um og lýs­ingu á hug­ar­ástandi ein­stak­linga. Hann dreg­ur þar ekk­ert und­an í njósna­sögu­stíl. Hann skap­ar sér svig­rúm með því að hverfa frá „línu­legri“ frá­sögn. Les­and­inn er minnt­ur á að um sann­sögu­legt efni er að ræða með ljós­mynd­um og ljós­riti af blaðaúrklipp­um.

Til að auðvelda les­and­an­um að halda utan um efnið hefði átt að hafa nafna­skrá í bók­inni. Próf­arka­lest­ur henn­ar er ekki nógu góður.

Það er feng­ur í þessu fram­lagi til ís­lenskr­ar sögu í síðari heims­styrj­öld­inni. Frá­sögn­in sýn­ir að ís­lensk­ir sjó­menn urðu ekki aðeins að tak­ast á við hætt­ur á hafi úti held­ur einnig að sýna þraut­seigju gagn­vart hernaðar­yf­ir­völd­um á landi.

At­b­urðir sam­tím­ans minna okk­ur á að enn kunna að verða háðar orr­ust­ur um Atlants­haf. Þá verður ekki und­an því vikist frek­ar en áður að Ísland, ís­lensk­ir sjó­menn og Íslend­ing­ar all­ir verða fyr­ir barðinu á því. Sá er mun­ur­inn nú og þá að við höf­um tekið skýra af­stöðu á friðar­tím­um og vilj­um leggja okk­ar af mörk­um til að hindra átök en ekki bíða sem leik­sopp­ar þess sem verða vill.