24.11.2025

Leiðin til þjóðhátíðardags

Morgunblaðið, mánudagur 24. nóvember 2025.

Á 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins 17. júní 1994 flutti fjallkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona ljóð Snorra Hjartarsonar skálds sem hefst á þessum orðum:

Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,/ þér var ég gefinn barn á móðurkné;/ ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,/ þú leiddir mig í orðs þíns háu vé.

Ljóðinu lýkur á þessum orðum: Ísland, í lyftum heitum höndum ver/ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.

Gildi þessa sígilda boðskapar minnkar ekki þegar um 20% íbúa landsins eru erlendir ríkisborgarar. Þá verður brýnna en ella að finna og skilgreina orð, tákn og daga sem sameina þjóðina. Nú er óumdeilt að 17. júní, fæðingardagur Jóns forseta Sigurðssonar, sé tákn þjóðarsameiningar.

Download-17

Leitar víða heimilda

Í bókinni Dagur þjóðar. Þróun 17. júní hátíðarhalda á 19. og 20. öld rekur sagnfræðingurinn dr. Páll Björnsson, prófessor í nútímafræði við Háskólann á Akureyri, hvernig samstaða þróaðist úr grasrótinni um að gera 17. júní að þjóðhátíðardegi Íslendinga.

Bókin er gefin út sem smárit Sögufélags og 15. ritið í syrpunni. Þar birtast ýmist rannsóknir í sagnfræði eða frumheimildir. Hér er um ritrýnda sagnfræðirannsókn að ræða og verða henni ekki gefnar stjörnur. Í textanum er talsvert um endurtekningar í skýrslustíl til að öllu sé til haga haldið.

Meginmáli textans fylgir útdráttur á ensku, tveir viðaukar, þakkir og skrár yfir myndir, heimildir og nöfn.

Höfundur leitar víða heimilda hérlendis og erlendis. Í byggðum Vestur-Íslendinga var sterkur hljómgrunnur fyrir því að velja 2. ágúst sem þjóðhátíðardag til minningar um að þann dag árið 1874 afhenti Kristján IX. Danakonungur Íslendingum fyrstu stjórnarskrána. Hátíðarhöld tengd 2. ágúst lifa enn sem þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og Íslendingadagurinn í Gimli í Manitobafylki í Kanada.

Í bók Páls segir frá ágreiningi í Vesturheimi um þjóðhátíðardag Íslendinga. Um hann var enn deilt á ársfundi Íslendingadagsins þar í apríl 1920 og í atkvæðagreiðslu var tekist á um hvort velja ætti 17. júní eða 2. ágúst fyrir Íslendingadaginn í Kanada.

Nefnd hafði verið skipuð um málið og lagði hún til að Íslendingadagurinn yrði 17. júní meðal annars vegna þess að á Íslandi héldu menn ekki lengur 2. ágúst hátíðlegan auk þess sem hann hefði aldrei náð þjóðhylli enda hefði stjórnarskráin frá 1874 „aldrei verið vinsæl“ meðal Austur-Íslendinga. Annað gilti um 17. júní, fæðingardag „frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar“, sem hefði verið og „væri hjartfólginn hinni íslenzku þjóð“.

Þessi tillaga naut ekki stuðnings fundarmanna því að rétt rúmur meirihluti þeirra samþykkti að halda sig við 2. ágúst.

Páll vitnar í einn fundarmanna, Sigurð Vilhjálmsson, sem sagði það vera „háðung og heimska að fara að halda hátíðlegan fæðingardag nokkurs manns, slíkt viðgengist ekki um víða veröld“ (100).

Hvort þetta stenst kann að vera álitamál en árið 1996 ákvað ríkisstjórnin að Dagur íslenskrar tungu yrði ár hvert 16. nóvember, á fæðingardegi listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar. Hér eru því tveir þjóðminningar- og menningardagar tengdir fæðingardögum manna á 19. öld, til heiðurs þjóð og tungu.

Það var aldrei greitt formlega atkvæði um það á innlendum þjóðarvettvangi hvort velja ætti 17. júní sem þjóðhátíðardag og ekki voru heldur gefin opinber fyrirmæli um það.

Höfundur minnir á að ungmennafélag Akureyrar, stofnað 1906, sé elsta ungmennafélag landsins. Eitt af baráttumálum þess hafi verið að 17. júní yrði gerður að hátíðisdegi. „Á fundi í félaginu í lok maí 1907 urðu síðan þau tímamót í íslenskri sögu að samþykkt var tillaga um að gera 17. júní að þjóðhátíðardegi,“ segir á bls. 50. Á næstu síðu segir: „Akureyringar urðu fyrstir til að skipuleggja 17. júní hátíðardagskrá af þeim toga sem átti eftir að breiðast út um landið á næstu áratugum.“

Drottning í norðanstreng

Eftir að fullveldi fékkst 1. desember 1918 er því stundum hreyft að þann dag ætti að halda sem þjóðhátíðardag. Það er niðurstaða höfundar að slíkar hugmyndir hafi ekki náð neinu flugi og muni ekki gera það, þó að ekki sé nema vegna veðurfars.

Þeir sem minnast fréttamyndanna af Margréti 2. Danadrottningu þar sem hún sat berhöfðuð fyrir framan Stjórnarráðshúsið í norðanstreng 1. desember 2018 fá í sig kuldahroll við það eitt og afskrifa daginn til útihátíða.

Það er niðurstaða höfundar að frá og með hátíðarhöldum á Akureyri 17. júní 1907 verði ekki til baka snúið. Í bókinni er rakið af sagnfræðilegri nákvæmni hvernig hátíðin hefur mótast síðan í tímans rás og hve íþróttahreyfingin átti þar mikinn hlut að máli.