Landritari lýsir samtíð sinni
Morgunblaðið, fimmtudagur, 4. desember 2025
Sjálfsævisaga Klemensar Jónssonar (1862-1930) landritara kemur út í flokknum smárit Sögufélags. Þeim lýsir félagið sem ritum þar sem ýmist eru birtar rannsóknir í sagnfræði eða frumheimildir. Eru bækurnar kiljuútgáfur, að jafnaði stuttar og fjalla um afmörkuð efni úr sögu Íslands. Er sjálfsævisagan 14. ritið í syrpunni sem hóf göngu sína árið 2005. Sonardætur Klemensar, Anna Agnarsdóttir og Áslaug Agnarsdóttir, ritstýrðu og bjuggu ævisöguna til prentunar.
Handrit sjálfsævisögunnar hefur legið óbirt frá andláti höfundar í 95 ár. Sonur hans Agnar Kl. Jónsson (1909-1984), ráðuneytisstjóri og sendiherra, taldi ekki tímabært að gefa söguna út í sinni tíð. Minnist ég samtala okkar um það fyrir rúmum 50 árum þegar ég vann við útgáfustörf á Almenna bókafélaginu og fékk að handleika handritið.
Í formála bókarinnar segja þær Anna og Áslaug að einmitt um þetta leyti hafi faðir þeirra vélritað handritið en sjálft frumrit þess hafi ekki fundist fyrr en 2019. Þá var loks ákveðið að koma því fyrir sjónir almennings, eins og var vilji Klemensar á sínum tíma.
Sagan nær frá uppvexti hans fram til 1919. Klemens er sá eini sem gegnt hefur embætti landritara (1904-1917). Landritari stjórnaði skrifstofu stjórnarráðsins eftir að ráðherra Íslands fékk aðsetur á Íslandi. Hann var staðgengill ráðherra væri hann erlendis. Landritaraembættið var lagt niður árið 1917 þegar ráðherrum fjölgaði og til varð hér ríkisstjórn undir forsæti Jóns Magnússonar.
Systurnar Anna og Áslaug auðvelda nútímalesendum að skilja „sögulegt og samfélagslegt samhengi þess sem Klemens er að segja“ með skýringum við textann sem birtur er orðréttur en með nútímastafsetningu. Þá hefur Anna ritað ítarlegan inngang til að setja sjálfsævisöguna í stærra sögulegt samhengi.
Allt er það vel og skipulega af hendi leyst eins og skrár sem meginmálinu fylgja um rit og greinar Klemensar, heimildir, myndir og nöfn í bókinni. Þá er stuttur útdráttur á ensku. Smárit Sögufélags eru í litlu, handhægu broti, stílhrein og fáguð. Bókin er alls 310 blaðsíður.
Vissulega hefði mátt ímynda sér að Sögufélag gæfi sjálfsævisögu fyrrverandi stjórnarmanns og heiðursfélaga félagsins út í íburðarmeiri búningi. Klemens hafði hins vegar ekki lokið við frágang verksins þegar hann féll frá og í því eru gloppur sem rýra þó síður en svo gildi þess sem frumheimildar. Sagan fellur vel inn í ramma smáritanna.

Palladómar Klemensar
Í formála eru leiddar líkur að því að hefði Klemens hreinritað endurminningarnar hefði hann mildað harða dóma sína um menn og málefni í textanum. Um það er ekkert unnt að fullyrða en í huga lesenda rúmum 100 árum eftir skrásetningu textans veita palladómar Klemensar lesandanum sýn sem er sjaldgæf þegar hann varpar ljósi á marga sem koma við sögu. Vegna þess að dómarnir koma frá grandvörum embættismanni hafa þeir meira heimildargildi en ella hefði verið. Fram hjá bókinni verður ekki gengið sem marktækri heimild um viðhorf æðsta embættismanns landsins til samtíðarmanna sinna, landsins gagns og nauðsynja.
Lýsingar Klemensar á skólabræðrum og þeim sem hann átti samstarf við sýna mikinn áhuga hans á mannfræði og hæfileikum þeirra sem hann kynntist, kostum og löstum. Versta dóminn fá Björn Jónsson sem var ráðherra eftir Hannes Hafstein og þeir sem stóðu næst Birni:
„Aldrei lenti okkur [Birni] samt saman; á yfirborðinu sýndum við alltaf hvor öðrum kurteisi en svo fór hann að hann kvaddi hvorki mig né aðra og ég hef síðan aldrei talað orð við hann og ætla mér ekki að gera óneyddur“ (221).
Vekur athygli hve oft Klemens sér ástæðu til að nefna drykkjuskap þeirra sem nefndir eru til sögunnar. Má ráða að hann hafi verið landlægur meðal sýslumanna. Sjálfur hafði hann mikla ánægju af að taka þátt í mannfagnaði. Honum þótti hins vegar áfengisneysla úr hófi alls ekki sæma neinum og hann lætur þess óspart getið.
Upphaf nútímans
Sjálfsævisaga Klemensar er markvert framlag til skilgreiningar á upphafi nútímans á Íslandi hvort heldur snýr að þróun þjóðfélagsgerðarinnar, innleiðingu nýrra stjórnarhátta, grunni stjórnmálahreyfinga eða verklegum framkvæmdum. Þá settust fyrstu erlendu stjórnarerindrekarnir hér að í landritaratíð hans og sjálfur gætti hann hagsmuna þjóðarinnar út á við.
Í sögu Klemensar er að finna lýsingar á fyrstu skrefum íslenskra stjórnvalda til sjálfsbjargar á alþjóðavettvangi.
Skömmu eftir upphaf fyrstu heimsstyrjaldarinnar (28. júlí 1914 – 11. nóvember 1918), stríðsins mikla, kallaði hann 10. ágúst 1914 alla heildsala og aðalkaupmenn Reykjavíkur á fund og spurði þá hvort þeir treystu sér til að annast innflutning áfram á nauðsynjum upp á eigin hönd en þeir neituðu því allir í einu hljóði. „Þar með var gefið að landið eða stjórnin þyrfti að taka verslunina að meira eða minna leyti í sínar hendur.“ Innflutningshöft hurfu ekki fyrr en með Viðreisnarstjórninni 1960.
Haustið 1914 fengust miklar matarbirgðir, einkum hveiti frá Ameríku, betra að gæðum en fyrr hafði þekkst hér (233). Við gerð EES-samningsins um 1990 var mikil áhersla lögð á að halda í þessi gæðakaup á hveitivörum frá Ameríku. Þá segir Klemens: „Aldrei vantaði neitt hér, það var meira að segja talsvert flutt héðan til Danmerkur af kaffi (234).“
Ástandið átti hins vegar eftir að versna eftir því sem stríðið varð lengra. Fyrri part ársins 1917 komst kafbátahernaður á Norður-Atlantshafi á hæsta stig og gæta varð að matvælabirgðum og skömmtun þeirra.
Klemens undi hag sínum illa eftir að embætti hans var aflagt en fékk þó fljótlega fasta daglega vinnu sem formaður matvælanefndar Reykjavíkur frá 1917 til 1919 þegar nefndin var lögð niður.
Í ársbyrjun 1918 var honum falið að leiða samninganefnd við Breta og fleiri um gagnkvæm vöruskipti og var breskt herskip sent til að sækja nefndarmenn hingað og flytja þá á 57 tímum til bæjarins Thurso, nyrst í Skotlandi. Þaðan voru þeir 23 tíma að fara landveg til London (255).
Nefndinni gekk illa að selja síld og hesta. Þá heimsótti Klemens virtan breskan lögfræðing sem hafði verið sendiherra Breta í Bandaríkjunum, Viscount James Bryce „sem var alþekktur Íslandsvinur frá því að hann hafði komið til Íslands 1872“ og segir síðan: „Ég er ekki í neinum vafa um að þessi gamli Íslandsvinur hefur átt drjúgan, ef til vill drjúgastan, þátt í að við fengum leyfi til að senda til útlanda um sumarið 1000 hesta og 50.000 tonn af síld (259).“
Allt til þess að Ísland gerðist aðili að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, árið 1970 máttu tengsl við Íslandsvini sín mikils við að opna íslenskum útflutningsvörum farveg. Nú á tímum tollastríðs verða slíkir útverðir ef til vill nauðsynlegir að nýju.
Fagnaðarefni
Í bókarlok segir Klemens frá áhuga sínum á virkjun fallvatna og forystu sinni fyrir norska fossafyrirtækinu Títan hér á landi. Hann taldi aðeins tímaspursmál hvenær farið yrði „að taka afl fossanna til notkunar“ og það yrði sér til mikillar gleði ef hann mætti „lifa að sjá fossana lýsa og hita upp allt Suðurland og reka verksmiðjur“. Hann lifði það þó ekki.
Klemens segir að hræðsla þingmanna við tvennt standi í vegi fyrir að þetta rætist: „útlent fé og innflutning útlends skríls“ (266). Ekki tókst að yfirvinna þessa hræðslu fyrr en á sjöunda áratugnum með stofnun Landsvirkjunar, virkjun Þjórsár við Búrfell og álverinu í Straumsvík í eigu Svisslendinga.
Hér verður ekki vitnað meira í einstæða sjálfsævisögu Klemensar Jónssonar. Skautað er fram hjá einlægum frásögnum af einkahögum og ástvinamissi höfundarins sem sýna viðkvæma hlið landritarans. Það er fagnaðarefni að þessi merka þjóðlífslýsing komi loks fyrir sjónir almennings.