29.11.2025

Kerfisvæðing barnafarsældar

Morgunblaðið, laugardagur, 29. nóvember 2025.

Næsta mánudag, 1. desember, lýkur undirskriftasöfnun á Ísland.is, það er ákalli um tafarlausar aðgerðir vegna barna á biðlistum eftir greiningu, þjónustu og stuðningi. Lokaorð áskorunarskjalsins eru: „Aðgerðir og börnin sjálf verða að komast á dagskrá. Þau geta ekki beðið lengur.“

Tilefni ákallsins fellur alls ekki að fyrirheitum þegar farsældarlögin svonefndu voru samþykkt í sumarbyrjun 2021 en þau tóku gildi 1. janúar 2022.

Lögin eru um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar var boðuð kerfisbreyting. Farsældin átti að verða nýtt leiðarljós, nýr grundvöllur í samskiptum stofnana og ný trygging fyrir því að enginn barnahópur félli á milli kerfa.

Í ljósi ákalls þeirra sem standa að fyrrnefndri undirskriftasöfnun má spyrja hvort hagsmunum barna hafi verið fórnað á altari nýs stjórnkerfis. Þrátt fyrir lögin segir í áskoruninni: „skorið verði á hnútinn um ábyrgð/skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga; foreldrar fái sæti við borðið og á þá sé hlustað“.

Á Bylgjunni var í vikunni rætt við tvær mæður einhverfra barna sem standa að ákallinu, Þuríði Sverrisdóttur og Vigdísi Gunnarsdóttur. Þær bentu á kerfislegt misræmi, þjónusturof og biðlistavanda.

Í stað samþættingar þurfa foreldrar sjálfir að hlaupa á milli ráðuneyta, biðlistar eru óskilvirkir og rödd barna sem ekki geta tjáð sig fellur jafnvel alveg út úr kerfinu. Ef lög sem áttu að tryggja snemmtæka íhlutun, samfellda þjónustu og jöfnuð ná ekki að tryggja grunnþjónustu fyrir alvarlega fötluð börn – hver er þá tilgangur kerfisins?

Einfaldur samanburður við önnur norræn ríki sýnir að nýsmíðaða íslenska farsældarkerfið er einstætt fyrirbæri. Engin önnur norræn þjóð hefur sett eina heilsteypta umgjörð um alla þjónustu við börn og búið til jafn víðfeðmt stjórnsýslunet til að framfylgja því. Í greinargerð frumvarpsins er vísað til skoskrar fyrirmyndar. Skoska leiðin er þó einfaldari en sú íslenska.

Með farsældarlögunum urðu til nýjar einingar innan stjórnkerfisins sem sjást hvergi annars staðar. Það varð í raun til nýtt stjórnsýslulag sem bætt var ofan á öll önnur kerfi. Þar með varð þjónustan ekki aðeins flóknari heldur einnig kostnaðarsamari og tímafrekari. Árangurinn ræðst síðan af því hvort grunnstoðir kerfisins, skólarnir, heilsugæslan og félagsþjónustan, hafi bolmagn til að sinna nýjum ferlum. Stærra kerfi leysir ekki skort á sérfræðingum.

Ákallið um styttingu biðlistanna bendir ekki til þess. Í frétt á Vísi um ákallið til stjórnvalda um „að bregðast við svartholi biðlistanna“ segir að um fimm þúsund börn bíði eftir þjónustu hjá talmeinafræðingi og útlit sé fyrir að mörg þeirra þurfi að bíða í mörg ár. Þar á meðal séu börn sem geti ekki tjáð sig.

UndirskriftAllir-Farsaeldarrad-hofudborgarsvaedisinsFarsældarráði höfuðborgarsvæðisins ýtt úr vör, 18. nóvember 2025 (mynd; mennta- og barnamálaráðuneytið).

Megintilgangur farsældarlaganna var að bæta farsæld barna. Ekkert bendir þó enn til að þessi kerfisbreyting hafi dregið úr þörf barna fyrir sérhæfða þjónustu, stytt biðlista í greiningum, fækkað barnaverndarmálum, aukið viðbragðsflýti skólakerfis eða heilsugæslu eða bætt aðgengi foreldra.

Á hinn bóginn gera lögin ráð fyrir að fagfólk í félagsþjónustu, skólum og heilsugæslu verji meiri tíma en áður í teymisfundi til að gera formlegar stuðningsáætlanir, samræma upplýsingar, fylla út eyðublöð og uppfylla skýrsluskyldu. Við afgreiðslu frumvarpsins var varað við atlögu opinberra aðila að persónuvernd.

Í lögunum er orðskýringarlisti í 14. liðum. Farsæld barns felst í aðstæðum „sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar“. Þarna eru orð eins og farsældarþing, farsældarþjónusta, málstjóri, samþætt þjónusta og tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns, stuðningsáætlun, stuðningsteymi, svæðisbundin farsældarráð barna og þjónustuveitandi en til þeirra teljast t.d.: leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.

Ásmundur Einar Daðason (Framsóknarflokki) flutti farsældarfrumvarpið sem félags- og barnamálaráðherra. Hann sagði í framsöguræðu sinni að meira en 1.000 manns hefðu komið að undirbúningi málsins með einum eða öðrum hætti frá vormánuðum 2018. Þverpólitísk þingmannanefnd hafði yfirumsjón með verkefninu. Málið flaut líka í góðum friði og við fögnuð á þingi.

Ásmundur Einar varð menntamálaráðherra eftir stjórnarmyndun í árslok 2021 og til varð mennta- og barnamálaráðuneytið. Inn í það fluttust embættismenn sem höfðu unnið að farsældarfrumvarpinu. Nú er þingmaður Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

Hann stóð að stofnun farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins þriðjudaginn 18. nóvember sem er fimmta ráðið á landsvísu en ráðuneytið samdi um ráðin við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga í október 2024. Taldi ráðherrann að nú færðumst við „skrefi nær í að veita börnum samþætta þjónustu án hindrana um allt land“ og verkefnisstjóri nýja ráðsins, Hanna Borg Jónsdóttir, sagði: „Þegar þjónustuaðilar vinna saman að sameiginlegum markmiðum eykst getan til að styðja börn og fjölskyldur á réttum tíma.“

Allir hljóta að vona að farsæld barna batni við framkvæmd þessara þriggja ára gömlu laga. Farsældin verður þó ekki tryggð með ráðum, teymum eða skýrslum heldur með öflugri þjónustu við börnin sjálf. Þar liggur verkefnið sem enn bíður úrlausnar. Börnin sjálf verða að komast á dagskrá.