25.10.2022

Karitas H. Gunnarsdóttir - minningarorð

Morgunblaðið þriðjudagur 25. október 2022

Ka­ritas H. Gunn­ars­dótt­ir fædd­ist í Reykja­vík 27. júní 1960. Hún lést 16. októ­ber 2022. Hún var jarðsungin frá Kristskirkju þriðjudaginn 25. október að viðstöddu miklu fjölmenni. Sr. Jürgen Jamin prestur kaþólskra á Akureyri jarðsöng. Hún var jarðsett í Garðakirkjugarði. Erfidrykkja var í Hörpu.

GA1182SP1

Ka­ritas H. Gunn­ars­dótt­ir átti 27 ára far­sælt starf í viðkvæmu embætti í stjórn­ar­ráðinu. Hún stjórnaði skrif­stofu menn­ing­ar­mála í mennta­málaráðuneyt­inu. Rík­is­valdið má ekki seil­ast inn á svið list­sköp­un­ar og menn­ing­ar­starfs, því er hins veg­ar skylt að mynda um­gjörð sem ýtir und­ir grósku og sköp­un­ar­gleði.

Emb­ætt­ismaður sem hef­ur for­ystu um að tryggja þessi hæfi­legu tengsl án þess að til vand­ræða komi við úr­lausn mála þarf bæði að vera vel að sér um skyld­ur stjórn­sýsl­unn­ar og hafa skiln­ing á nauðsyn­legu svig­rúmi lista­manna. Í því hlut­verki naut Ka­ritas sín og hlaut traust og virðingu þeirra sem áttu við hana og skrif­stofu henn­ar sam­skipti.

Við átt­um sam­starf í mennta­málaráðuneyt­inu fyrstu sjö ár henn­ar þar. Bar aldrei skugga á þau sam­skipti okk­ar. Hún var föst fyr­ir, væri því að skipta, en sýndi ávallt sann­girni. Gæt­um að stjórn­sýsl­unni, Björn, sagði hún oft glaðlega. Henni var mikið í mun að reglna henn­ar væri gætt. Er ekki að efa að það jók vel­gengni henn­ar í starfi og tryggði mál­efna­lega úr­lausn mála. Henni sárnaði djúpt, teldi hún sér sýnd ósann­girni eða gengið væri á rétt sinn.

Á ár­un­um 20 sem liðu frá því að sam­starfi okk­ar lauk í ráðuneyt­inu hitt­umst við oft á ýms­um listviðburðum og voru það jafn­an gleði- og fagnaðar­fund­ir. Ekki spillti væri hún í fylgd með Kjart­ani, eig­in­manni sín­um, eða for­eldr­um. Okk­ur Gunn­ari Eyj­ólfs­syni var vel til vina og veit ég hve mjög hann unni dætr­um sín­um Ka­ritas og Þor­gerði Katrínu.

Einka­syni Ka­ritas­ar, Gauki Jör­unds­syni, kynnt­ist ég þegar við hitt­umst með Gunn­ari, afa hans. Fylgd­ist ég með námi hans í lög­fræði og alþjóðastjórn­mál­um. Kom síðan að því að hann veitti okk­ur ómet­an­lega aðstoð sem unn­um að gerð skýrslu um EES og síðar land­búnaðar­mál. Aldrei hafði Ka­ritas þar nein af­skipti en auðvelt var að skynja stolt henn­ar af syni sín­um.

Við Rut hitt­um Ka­ritas síðast með Katrínu, móður henn­ar, á tón­leik­um í vor í Hörpu. Þá hafði hún sagt skilið við ráðuneytið á ljúfsár­an hátt og horfði bjart­sýn fram á veg með ým­is­legt á prjón­un­um. Eng­inn má þó sköp­um renna. Ka­ritas kvaddi of fljótt en minn­ing­in um vináttu og gleðina þegar við hitt­umst lif­ir með okk­ur.

Nú þegar Katrín horf­ir á bak dótt­ur sinni send­um við henni og öll­um ást­vin­um Ka­ritas­ar inni­leg­ar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minn­ing Ka­ritas­ar H. Gunn­ars­dótt­ur.