Karitas H. Gunnarsdóttir - minningarorð
Morgunblaðið þriðjudagur 25. október 2022
Karitas H. Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík
27. júní 1960. Hún lést 16. október 2022. Hún var jarðsungin frá Kristskirkju
þriðjudaginn 25. október að viðstöddu miklu fjölmenni. Sr. Jürgen Jamin prestur kaþólskra á Akureyri jarðsöng. Hún var jarðsett í Garðakirkjugarði. Erfidrykkja var í Hörpu.
Karitas H. Gunnarsdóttir átti 27 ára farsælt starf í viðkvæmu embætti í stjórnarráðinu. Hún stjórnaði skrifstofu menningarmála í menntamálaráðuneytinu. Ríkisvaldið má ekki seilast inn á svið listsköpunar og menningarstarfs, því er hins vegar skylt að mynda umgjörð sem ýtir undir grósku og sköpunargleði.
Embættismaður sem hefur forystu um að tryggja þessi hæfilegu tengsl án þess að til vandræða komi við úrlausn mála þarf bæði að vera vel að sér um skyldur stjórnsýslunnar og hafa skilning á nauðsynlegu svigrúmi listamanna. Í því hlutverki naut Karitas sín og hlaut traust og virðingu þeirra sem áttu við hana og skrifstofu hennar samskipti.
Við áttum samstarf í menntamálaráðuneytinu fyrstu sjö ár hennar þar. Bar aldrei skugga á þau samskipti okkar. Hún var föst fyrir, væri því að skipta, en sýndi ávallt sanngirni. Gætum að stjórnsýslunni, Björn, sagði hún oft glaðlega. Henni var mikið í mun að reglna hennar væri gætt. Er ekki að efa að það jók velgengni hennar í starfi og tryggði málefnalega úrlausn mála. Henni sárnaði djúpt, teldi hún sér sýnd ósanngirni eða gengið væri á rétt sinn.
Á árunum 20 sem liðu frá því að samstarfi okkar lauk í ráðuneytinu hittumst við oft á ýmsum listviðburðum og voru það jafnan gleði- og fagnaðarfundir. Ekki spillti væri hún í fylgd með Kjartani, eiginmanni sínum, eða foreldrum. Okkur Gunnari Eyjólfssyni var vel til vina og veit ég hve mjög hann unni dætrum sínum Karitas og Þorgerði Katrínu.
Einkasyni Karitasar, Gauki Jörundssyni, kynntist ég þegar við hittumst með Gunnari, afa hans. Fylgdist ég með námi hans í lögfræði og alþjóðastjórnmálum. Kom síðan að því að hann veitti okkur ómetanlega aðstoð sem unnum að gerð skýrslu um EES og síðar landbúnaðarmál. Aldrei hafði Karitas þar nein afskipti en auðvelt var að skynja stolt hennar af syni sínum.
Við Rut hittum Karitas síðast með Katrínu, móður hennar, á tónleikum í vor í Hörpu. Þá hafði hún sagt skilið við ráðuneytið á ljúfsáran hátt og horfði bjartsýn fram á veg með ýmislegt á prjónunum. Enginn má þó sköpum renna. Karitas kvaddi of fljótt en minningin um vináttu og gleðina þegar við hittumst lifir með okkur.
Nú þegar Katrín horfir á bak dóttur sinni sendum við henni og öllum ástvinum Karitasar innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Karitasar H. Gunnarsdóttur.