19.5.2017

Jóhanna Kristjónsdóttir - minningarorð

Morgunblaðið 19. maí 2017

Þegar ég minnist Jóhönnu Kristjónsdóttur, samstarfs okkar og góðra kynna um langt árabil sækja orðin dugnaður og seigla á hugann. Jóhanna var afkastamikill blaðamaður og rithöfundur og áhrifa hennar gætti langt út fyrir þann starfsvettvang. Og ekki gleymi ég orðinu dægilegur sem hún notaði oft. Það lýsti henni sjálfri vel.

Sama dag og fréttin um andlát hennar barst fékk ég í pósti fallega endurútgáfu á bók hennar Á leið til Timbaktú – ferðaljóð sem hún vann að því að dreifa til hinsta dags eins og fylgjast mátti með á Facebook þar sem hún lét reglulega frá sér heyra, sýnir þessi færsla frá 21. apríl það:

„Fór í gönguferð sem væri ekki í frásögu fært nema af því þetta er mín fyrsta ganga svo vikum skiptir. Ánægð með sjálfa mig og bjástra við að færa inn heimilisföng. Munið að borga krúttin mín og senda heimisföng ef það hefur láðst. Sýnist ég þurfi að láta bæta við. Hrópum húrra fyrir því. Húrrrrrrra.“

Heimilisföngin þurfti hún til að geta sent kaupendum bókina í pósti. Kynningu  og áskrifendasöfnun annaðist hún sjálf á netinu og salan gekk svo vel að stækka varð upplagið. Ágóðinn rann í Fatimusjóðinn sem Jóhanna stofnaði til stuðnings börnum og konum í Jemen. 

Ljóðin eru frá Kambódíu, Víetnam, Laos, Bangladesh, Líbanon, Mósambik, Tógó, Búrkína Faso, Zanzibar, Írak, Palestínu, Grikklandi, Hong Kong og Singapúr. Þau gefa hugmynd um hve víðförul Jóhanna var og hve næmt auga hún hafði fyrir mannlífi á stöðunum sem hún heimsótti.

Það hlýtur að hafa gengið nærri Jóhönnu að fylgjast með framvindu mála í löndum sem henni voru jafn kær og Jemen og Sýrland.

Við unnum saman á Morgunblaðinu þegar erlendar fréttir voru að jafnaði á forsíðu blaðsins.  Við höfðum áhuga á ólíkum heimshlutum og málaflokkum. Blaðamenn fengu svigrúm til að sérhæfa sig og skrifa um þjóðir eða heimshluta sem vöktu sérstakan áhuga þeirra. Jóhanna hoppaði yfir Evrópu og Bandaríkin. Hugurinn beindist annað.

Minnisstæðir eru gæðafundirnir sem við blaðamenn á erlendu deildinni héldum til að fara yfir skrif hvers annars, efnistök og fréttaflutninginn almennt.  Lá ekkert í augum uppi að Jóhanna sætti sig við að sitja þar við sama borð og nýliðar. Hún gerði það og lagði mikið og gott til mála. Tókst með okkur vinátta sem hélst til hinsta dags og fyrir hana þakka ég nú.

Með Jóhönnu er genginn góður vinur. Blessuð sé minning hennar.