8.9.2017

Illt andrúmsloft í viðræðum fulltrúa Breta og ESB

Morgunblaðið 8. september 2017

Brexit-viðræðurnar, úrsagnarviðræður Breta úr ESB, hafa ekki náð flugi. Tortryggni er mikil eftir að þriðju lotu af fimm í fyrsta áfanga er lokið. Hitanum í viðræðunum er líkt við kosningaskjálfta. Yfirlýst markmið beggja er að tryggja gagnkvæm frjáls viðskipti. Leiðin að því er þyrnum stráð og óvild blossar upp í fjölmiðlum.

ESB-þingið fól Belganum Guy Verhofstadt að koma fram fyrir sína hönd vegna Brexit. Hann ritaði grein í The Daily Telegraph fyrir viku til að svara William Hague, fyrrv. formanni breska Íhaldsflokksins og utanríkisráðherra, sem sagði að fulltrúar ESB sýndu Bretum dæmalausa þvermóðsku.

Verhofstadt segir Hague fara með rangt mál þegar litið sé til þess hvernig farið hafi verið að duttlungum Breta í áranna rás innan ESB. Þeir séu utan evrusvæðisins en hýsi samt bankakerfi svæðisins. Þeir séu utan Schengen-samstarfsins en njóti þó aðgangs að gagnagrunnum samstarfsins. Þeir hafi frjálsar hendur þegar komi að samstarfi á sviði dóms- og innanríkismála.

Nú krefjist breskir íhaldsráðherrar tollabandalags bara fyrir Breta þótt þeir hafi undir forystu Davids Camerons, flokksbróður síns, hafnað tillögu um að þeir fengju aukaaðild að ESB. Þeir vilji í raun njóta alls þess besta sem ESB hafi að bjóða án þess að taka á sig nokkrar skyldur.

Brexit-fulltrúi ESB-þingsins segir að ekki hafi einu sinni náðst samkomulag um aðferðafræðina í viðræðunum. Bretar átti sig ekki enn á því að áður en lengra er haldið þurfi að ákveða hvernig staðið verði að fjárhagslegu uppgjöri þeirra við ESB, hvernig réttur ESB-borgara í Bretlandi skuli tryggður og eyða vafa um landamæri milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands.

Bretum hótað

Í misheppnuðum aðildarviðræðum fulltrúa Íslands við ESB-menn var gengið fram stig af stigi. Viðræðurnar sprungu af því að ekki var unnt að halda áfram með sjávarútvegskaflann. ESB-menn vildu að undanþágulaus sjávarútvegsstefna sambandsins gilti. Krafan um það var augljós frá upphafi. Þó var látið í veðri vaka að snilld íslensku fulltrúanna dygði til að losna undan sjávarútvegsstefnunni.

Eitt er að ESB-menn setji skilyrði við aðild að sambandinu. Annað að þeir setji þeim úrslitakosti sem vilja fara úr því. Núna segja ESB-menn að ekki verði rætt um fríverslun við Breta nema þeir samþykki að greiða allt að 100 milljörðum evra í »skilnaðargjald«. Bretar hafna kröfunni sem ólögmætri og jafnvel kjánalegri. Þeir hafi hnekkt henni línu fyrir línu með lagarökum.

ESB-menn beita nú hótunum um tímaskort til að knýja Breta til að samþykkja fjárkröfur sínar. Samþykki Bretar ekki kröfuna um »skilnaðargjaldið« núna geti leiðtogaráð 27 ESB-ríkja ekki ákveðið neitt um næsta áfanga Brexit-viðræðnanna á fundi sínum í október. Án ákvörðunar leiðtoganna dragist enn að ræða fríverslunarsamninginn, höfuðmál Breta. Tíminn líði hratt og 29. mars 2019 renni hann út með brottför Breta.

Bretar lítillækkaðir

Sama dag og ögrandi grein Verhofstadts í garð Breta birtist sagði Süddeutsche Zeitung í München að úrsagnarstefna ríkisstjórnar Theresu May, forsætisráðherra Breta, væri »glórulaus«. David Davis, aðalsamningamanni Breta, var lýst sem »einstaklega lötum« enda vildi hann ekki vinna lengur en þrjá til fjóra daga í viku. Um Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, var sagt að embættismenn hans tækju hann »ekki alvarlega« og í Hvíta húsinu gerðu »menn grín að honum«. Liam Fox alþjóðaviðskiptaráðherra var sagður mesti »léttavigtarmaðurinn« í hópnum en almennt væri talað um ráðherrana þrjá sem »aðhlátursefnið«.

Þýskir blaðamenn undrast að David Davis hafi notað þau orð í fyrri viku að viðræðurnar gengju »ótrúlega vel«, Bretar hljóti að lifa í blekkingu um að þeir njóti algjörrar sérstöðu. Þeir geri allt til að tefja viðræðurnar með óbilgirni sinni.

Í Þýskalandi fullyrða menn að elítan innan ESB sæki styrk sinn í sérþekkingu á öllum málavöxtum en breska elítan frá Oxford og Cambridge treysti hins vegar á eigin mælskulist. »Eitt af því sem henni er kærast er að leika sér með þjóðernislegar blekkingar,« segir í vikuritinu Der Freitag.

Martröð Brusselmanna

Í leiðara breska vikuritsins The Spectator sagði á dögunum að Bretar stæðu frammi fyrir ósamstiga ESB-kerfi og hópi samningamanna sem hefði aldrei tekist að gera fríverslunarsamning við neitt af fimm helstu viðskiptaríkjum ESB. Breska stjórnin ætti að hundsa ESB-viðræðunefndina undir formennsku Barniers og snúa sér beint til ráðamanna einstakra ESB-ríkja.

Í draumaheimi Barniers yrðu tafir á efnislegum viðræðum aðeins til að skaða Breta. Þegar hann segði »klukkuna tifa« væri eins og fríverslunarsamningur yrði aðeins til hagsbóta fyrir Breta. Þetta væri mikill misskilningur.

Á árinu 2016 nam útflutningur Breta til annarra ESB-landa 240 milljörðum punda en innflutningur Breta frá sömu löndum nam 310 milljörðum. Það er því gífurlega mikið í húfi fyrir þá sem selja vöru og þjónustu í ESB-löndunum til Breta.

Martröð Brusselmanna er að viðmælendur þeirra snúi sér til ráðamannanna í Berlín og París. Stjórnmálamenn með lýðræðislegt umboð taki fram fyrir hendur á teknókrötunum. Sjaldgæft er að þetta gerist nema þýskir eða franskir hagsmunir séu í húfi.

Gagnkvæm óvissa

Brusselmenn sýna Bretum hörku til að fæla aðra frá því að reyna úrsögn úr ESB. Það var ekki fyrr en með Lissabon-sáttmálanum árið 2009 sem rétturinn til úrsagnar var viðurkenndur innan ESB. Að hann leiddi til stórvandræða á borð við þau sem nú hafa skapast er í raun stórundarlegt en staðreynd engu að síður.

Óttist Brusselmenn að Þjóðverjar og Frakkar svipti þá umboðinu og taki það í eigin hendur er líkt á komið með þeim og Theresu May, forsætisráðherra Breta, sem hefur ekki heldur fullt vald á baklandi sínu.

Meirihluti fyrir hörku gagnvart ESB er ekki á hendi í breska þinginu. Verkamannaflokkurinn kynnti á dögunum stefnu um sveigjanleika og mýkt í viðræðunum. Stefnan útilokar ekki aðild að EFTA eða EES. David Davis segir þá leið ekki efsta á óskalista sínum.

Þróun alþjóðamála og háspenna milli N-Kóreumanna og annarra þjóða hlýtur að lægja öldur í samskiptum Breta og ESB. Að setja á svið stórdeilur um »skilnaðargjald« og óvissu um fríverslun í Evrópu vegna úrsagnar Breta úr ESB er ekki aðeins tímaskekkja heldur einnig dapurlegur vitnisburður um firringu innan ESB.

Sambandið stendur frammi fyrir kröfu sem reist er á lýðræðislegum vilja einnar aðildarþjóðarinnar. Að bregðast við henni með háði og spotti eða pólitískum leikbrögðum felur ekki annað í sér en yfirlæti sem hlýtur að gagnast harðlínumönnum í hópi viðmælandans.