24.8.2018

Hrun Venesúela vegna sósíalisma Chavista

Grein í Morgunblaðinu 24. ágúst 2018

Vorið 2007 birtist grein í The Economist um efnahagsstefnuna sem Hugo Chávez, forseti Venesúela, mótaði og kallaði »petrolíu sósíalisma«. Blaðið lýsti henni sem blöndu af her-popúlisma og miðstýringu í anda ný-marxisma. Forsetinn réðst hvað eftir annað á »auðmannastéttina« enda segðist hann málsvari fátæka mannsins, það er meirihluta íbúa landsins. Þess vegna væri undarlegt að sjá fjórhjóladrifna bíla (einkum Hummer) fylla götur höfuðborgarinnar Caracas, erfitt væri að fá borð á bestu veitingastöðum, nú væri blómatími listaverkasala og viskíinnflytjenda. Nýja auðmannastéttin þrifist vel í Venesúela í skjóli »Bólivar-byltingarinnar« sem nefnd væri eftir sjálfstæðishetju landsins.

Þetta var í Caracas fyrir 11 árum. Skömmu eftir að greinin birtist tók að halla hratt undan fæti hjá Hugo Chávez og stjórnarhættir hans urðu æ gerræðislegri. Hann andaðist í mars 2013.

Nú er svo komið að nágrannaríki Venesúela grípa til sérstakra ráðstafana vegna straums flóttamanna þaðan. Stjórn Brasilíu sendi til dæmis um helgina herafla og lögreglulið á vettvang sín megin landamæranna til að halda aftur af heimamönnum sem höfðu ráðist á búðir flóttamanna frá Venesúela og borið að þeim eld í bænum Pacarima. Til að hefna árásarinnar var ráðist á bíla frá Brasilíu í Venesúela.

Talsmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna segir að fleiri flytji nú á brott frá Venesúela en áður hafi þekkst í sögu Suður-Ameríku. Fólk streymir yfir landamærin til Kólumbíu og reynir að komast þaðan til annarra landa.

Flóttinn frá Venesúela vegna örbirgðar er til marks um ömurlega stjórnarhætti Chávez og eftirmanns hans Nicolas Maduros. Landið, auðugasta ríki Suður-Ameríku, dró á sínum tíma til sín fólk í krafti dýrmætra jarðefna og olíuvinnslu. Hún er nú svipur hjá sjón vegna viðhaldsskorts á úreltum tækjum og spilltra stjórnarhátta undir sósíalískri ríkisforsjá. Framleiðslan er sögð á borð við það sem hún var árið 1947.

Töfralausn boðuð

Föstudaginn 17. ágúst tilkynnti Nicolas Maduro að hann hefði fundið töfraráð gegn efnhagsvandanum. Til sögunnar kæmi, mánudaginn 20. ágúst, nýr lögeyrir, bolivar soberano, fimm núll yrðu tekin af gömlu myntinni. Þá yrði um 3.000% hækkun á lágmarkslaunum frá 7. september (þau verða þá um 30 dollarar á mánuði á svörtum markaði). Verð á bensíni yrði sama og á heimsmarkaði til að útiloka smygl til annarra landa. Allt yrði þetta tengt rafmyntinni petro sem kynnt var til sögunnar í febrúar 2018.

Maduro talaði beint á Facebook sunnudaginn 19. ágúst og sagði: »Við erum á leið til nýs jafnvægis. Þetta gerist ekki á einni nóttu. Þetta ferli til nýs jafnvægis þróast. Þetta er ótrúlega mögnuð töfraformúla. Við mótuðum hana af eigin hugarafli og greiningu.«

Rafmyntin petro hefur aldrei gengið kaupum og sölum. Henni er lýst sem gervimynt en Maduro skráir hana á 60 dollara (3.600 nýja bolivana) og segir hana reista á verði olíutunnu og muni verðgildið sveiflast í samræmi við það. Að dæmið gangi upp og unnt sé að sigrast á óðaverðbólgu á þennan veg telja reyndir hagfræðingar ólíklegt. Eina sem dugi í tilvikum sem þessum sé að henda út gömlu myntinni og taka tafarlaust upp bandarískan dollar. Sé ekki gripið til þessa úrræðis vaxi vandinn áfram. Fréttir í byrjun vikunnar hermdu að eftir myntbreytinguna hefði öll efnahagsstarfsemin lamast.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi frá sér spá í júlí um að í árslok yrði verðbólga í Venesúela líklega 1.000.000% (milljón prósent). Í umsögn af hálfu sjóðsins sagði að þar með líktist verðbólgan því sem var í Þýskalandi árið 1923 og Simbabve í kringum aldamótin 2000.

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 21. ágúst sagði Sonia Petros frá Venesúela: »Í gær keypti systir mín tvo lítra af kóki fyrir sex milljónir bólivíana. Síðan fór hún um nóttina og verðið var komið upp í 21 milljón. Ástandið verður klikkaðra með hverjum deginum og verðið hækkar stöðugt.«

Í Grikklandi

Um sömu mundir og fréttir bárust af efnahagshamförunum í Venesúela var sagt frá því að Grikkir hefðu losnað undan átta ára forsjá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Landið væri að nýju »eðlilegt« að sögn efnahagsstjóra ESB.

Sumarið 2015 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Grikklandi um hvort hafna ætti aðild að evrunni. Þá spurði breska blaðið The Daily Telegraph í fyrirsögn hvort Grikkland gæti orðið evrópskt Venesúela. Þar sagði að tengsl milli stjórnvalda í Aþenu og Caracas hefðu orðið náin eftir að róttæka vinstrabandalagið Syriza komst til valda í Grikklandi. Ráðamenn landanna væru einhuga í ástríðu sinni í þágu sósíalisma og fyrirlitningar í garð »ný-frjálshyggjumanna«.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, var við jarðarför Hugos Chávez í Caracas. Þegar Tsipras varð forsætisráðherra snemma árs 2015 fögnuðu Chavistar með þeim orðum að »ferskir pólitískir vindar« lékju um Evrópu.

Sem forsætisráðherra hefur Alexis Tsipras ekki reynst neinn byltingamaður. Hann sýndi þó tilburði í þá átt vorið 2015 þegar hann hvatti kjósendur til að hafna evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir að um 60% kjósenda fóru að ráðum hans og sögðu nei við evrunni hafði hann vilja þeirra að engu og samdi við ESB og lánardrottna landsins.

Þótt forráðamenn ESB segi Grikkland »eðlilegt« land að nýju er skuldaklafinn þungur eins og hugur almennings í garð stjórnvalda.

Í Níkaragva

Ekki aðeins í Grikklandi bundu sósíalistar vonir við að Chavistar í Venesúela yrðu kyndilberar ný-marxmismans. Daniel Ortega, einræðisherra Níkaragva, var náinn vinur og samherji Chávez.

Ortega stjórnar nú með her- og lögregluvaldi og eiginkonu sína sem varaforseta. Hún beitir ríkisfjölmiðlum til að lýsa andstæðingum eiginmannsins sem glæpamönnum, hryðjuverkamönnum og eiturlyfjabarónum.

Námsmenn og aðrir hafa nú mótmælt óstjórn Ortega-hjónanna samfellt í fjóra mánuði. Valdi hefur verið beitt gegn mótmælendum og 448 fallið í valinn.

Á Íslandi

Hér tóku vinstrisinnar upp hanskann fyrir Hugo Chávez á meðan Hummerar voru vinsælustu bílarnir á götum Caracas.

Þegar hann gerði atlögu að frjálsum sjónvarpsstöðvum vegna gagnrýni þeirra á sig bar Fréttablaðið (31. maí 2007) aðförina undir íslenskan vinstrisinna sem taldi þetta ekkert tiltökumál, stærstu einkareknu sjónvarpsstöðvarnar hefðu tekið þátt í valdaránstilraun gegn Chávez. Þá kom þessi skýring:

»Chávez er þjóðernissinnaður og mjög andvígur öllum bandarískum áhrifum á menningarlíf Venesúela. Með þessum aðgerðum getur hann sett á fót nýja sjónvarpsstöð sem nær til allra landsmanna. Markmið hennar er að vera menningarlegt ríkissjónvarp, sem styður innlenda dagskrár- og kvikmyndagerðarmenn.«

Fjölmiðlaárás Chavez snerist ekkert um menningarlegt ríkissjónvarp. Ömurlegri afsökun vinstrisinna á valdabrölti einræðisherra í nafni sósíalisma má enn halda á loft vegna ófarnaðar Venesúela.