Hrun-ákvarðanir stóðust prófið
Morgunblaðið, laugardag 20. nóvember 2021.
Ísraelski menntamaðurinn og sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari, höfundur bókanna Sapiens , Homo Deus og 21 lærdómur fyrir 21 öldina , segir að til þess að skilja heiminn verði menn að taka sögur alvarlega. Sagan sem maður treysti móti samfélagið sem maður skapi.
Þessi boðskapur á brýnt erindi til nútímamannsins sem sætir meira áreiti vegna alls kyns frásagna og upplýsinga en nokkur forveri hans. Leiðir til miðlunar eru ótæmandi og vandinn að velja og hafna mikill. Hverju er óhætt að treysta?
Doktorsritgerð við virtan háskóla vekur traust. Þar er ekki farið með neitt fleipur heldur birtar skoðanir og niðurstöður sem standast gagnrýni.
Ragnar Hjálmarsson
Þriðjudaginn 16. nóvember kynnti dr. Ragnar Hjálmarsson nýja doktorsritgerð sína í stjórnarháttum (e. governance) við Hertie-háskólann í Berlín á fundi í Odda, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Umbreytingarréttlæti í kjölfar efnahagshruns (Transitional Justice after Economic Crisis).
Í ritgerðinni er beitt aðferðum átaka- og friðarfræða. Þau snúast um leiðir til að setja niður ágreining og móta sögu til sátta eftir áföll. Nürnberg-réttarhöldin yfir nasistum eftir síðari heimsstyrjöldina eru nefnd sem dæmi um slíka tilraun. Aðferðinni hefur oft verið beitt við söguleg „vatnaskil“. Má þar nefna sannleiksnefndina í Suður-Afríku til að lina sársaukann af aðskilnaðarstefnunni.
Í ritgerð sinni beinir Ragnar athygli að því hvernig íslensk stjórnvöld brugðust við hruninu haustið 2008. Þá hófst ferli til að leita sannleikans um það sem fór á versta veg og hvers vegna. Sett voru lög til að tryggja að þeir sem báru ábyrgð svöruðu fyrir hana. Leitað var leiða til að tryggja þeim bætur sem verst urðu úti. Hugað var að umbótum til að verjast því að sömu hörmungar yrðu aftur og styrkja stofnanir í því skyni.
Ragnar segir allar þessar ákvarðanir falla að aðferðafræði umbreytingarréttlætis. Tilgangurinn var að milda áhrif þjóðaráfalls og stuðla að þjóðarsátt. Hann áréttar oft í ritgerðinni hve merkilegt sé að íslenskir forystumenn hafi farið þessa leið án ábendinga eða afskipta stjórnvalda annarra landa eða alþjóðastofnana. Þetta hafi verið það sem hann kallar innovation in isolation , það er nýsköpun í einangrun. Ragnar segir (133):
„Mest hrífandi við það sem gerðist á Íslandi er ekki það sem heppnaðist eða misheppnaðist af einstökum aðgerðum heldur hve víðtækar aðgerðirnar voru og hvernig að samþykkt þeirra var staðið. Forystumenn stjórnmálanna stunduðu nýsköpun í einangrun, þeir samþykktu víðtækar aðgerðir sem endurspegluðu – án þess að þeim væri það ljóst – heildræna (e. holistic) aðferð sem talin er sú besta á sviði umbreytingarréttlætis. Að hjól umbreytingarréttlætis skyldi fundið þarna upp að nýju sýnir sköpunarmátt lýðræðislegra stjórnmála og varpar ljósi á hvernig neyðarástand getur á ögurstund aukið fjölbreytileika í stjórnarháttum rótgróinna lýðræðisríkja.“
Fyrirlestur Ragnars í Háskóla Íslands í vikunni bar fyrirsögnina: Íslensk stjórnmál eru skrambi góð. Þótti ýmsum áheyrendum þarna gefinn nýr tónn í umræðum um innlend stjórnmál eftir hrun. Rök Ragnars voru þau sem birtast í tilvitnuðu orðunum hér að ofan.
Meginsjónarmiðið við ákvarðanir alþingis hefði verið að draga fram það sem gerðist án tillits til þess hverjir ættu í hlut og í krafti þeirra upplýsinga sækja þá til saka sem ábyrgðina báru. Þetta hefði gerst án flokkspólitískra átaka og stuðlað að sátt í samfélaginu og slegið á popúlisma. Jaðarhópar í stjórnmálum hefðu gert rannsóknarskýrslu alþingis að sínu vopni og knúið á um umbætur í anda hennar.
Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde forsætisráðherra hefði verið „feigðarflan“, eitrað pólitíska andrúmsloftið. Aðgerðir til að bæta þeim verst settu fjárhagslegt tjón hefðu reynst peningasóun, þeir betur settu og aldraðir hefðu einkum notið bótanna. Tilraunin til að kollvarpa stjórnarskránni hefði mistekist og hvíldi eins og mara á þjóðinni.
Ragnar sagði að tæplega 400 bls. skýrsla Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til alþingis frá 27. nóvember 2020 um framkvæmd 249 ábendinga sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum alþingis vegna hrunsins sýndi að um 90% ábendinganna hefðu hlotið afgreiðslu af einhverju tagi. Það sýndi að ekki hefði verið setið auðum höndum við umbætur eftir hrun.
Ferlið sem Ragnar Hjálmarsson lýsir í ritgerð sinni hófst með samhljóða samþykkt laga um rannsóknarnefndina á alþingi 12. desember 2008. Með doktorsritgerðinni setur Ragnar punkt í söguna með vísan til átaka- og friðarfræða. Ritgerðina ætti að íslenska og setja með gögnum alþingis um rannsóknina miklu.
Ritgerðin staðfestir að lýðræðislegur styrkur og stjórnskipulegt svigrúm var til að taka pólitískar ákvarðanir, sem standast kröfur um bestu stjórnarhætti, þegar þingmenn brugðust við þjóðaráfallinu í október 2008.
Lýðveldisstjórnarskráin frá 1944 sannaði þarna enn gildi sitt, festu og sveigjanleika á ögurstund. Þetta er ekki lítils virði þegar litið er til orðanna eftir Harari hér í upphafi: Sagan sem maður treystir mótar samfélagið sem maður skapar.